Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Erum við ekki öll búin að gleyma Lindarhvolsmálinu? Er þá ekki gott tilefni til þess að rifja aðeins upp um hvað það mál snýst? Í stuttu máli varð hér fjármálahrun og fullt af fyrirtækjum varð gjaldþrota

Erum við ekki öll búin að gleyma Lindarhvolsmálinu? Er þá ekki gott tilefni til þess að rifja aðeins upp um hvað það mál snýst?

Í stuttu máli varð hér fjármálahrun og fullt af fyrirtækjum varð gjaldþrota. Bankinn tók þá yfir allar eignir þessara fyrirtækja upp í gjaldþrotið. Það dugði þó ekki til fyrir bankana sem urðu líka gjaldþrota. Ríkið tók yfir bankana og eignaðist þar með öll gjaldþrota fyrirtækin. Til þess að einfalda endurreisn bankakerfisins þá voru öll þessi gjaldþrota fyrirtæki sett inn í sérstakt eignarhaldsfélag sem fékk nafnið Lindarhvoll ehf. Svo voru sett sérstök lög um hvernig Lindarhvoll átti að selja allar þessar eignir.

Allir landsmenn voru gríðarlega brenndir af öllum fjármálagjörningum hrunsins og það var nákvæmlega ekkert traust eftir í samfélaginu þannig að það var reynt að setja söluferli þessara eigna eins langt frá pólitískum afskiptum og mögulega var hægt. Ríkisendurskoðun skyldi hafa eftirlit með framkvæmd söluferlisins, það átti að fara eftir stjórnsýslulögum, þinginu veittar upplýsingar um framgang sölunnar og lögð var sérstök áhersla á gagnsæi. Eða eins og segir í frumvarpinu:

„Meiri hlutinn telur ekki þörf á að gerðar séu breytingar á þeim meginsjónarmiðum sem félagið skal leggja áherslu á við störf sín samkvæmt frumvarpinu en þau kveða á um að félagið skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni.“

Fyrst á áherslulistanum, gagnsæi.

En hvað gerðist? Ríkisendurskoðandi, sem var settur í eftirlitsverkefnið, skilar greinargerð til þingsins sem fæst hvergi birt. Ekki fyrr en þykkt brúnt umslag berst í pósthólf nokkurra þingmanna með téðri greinargerð, að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, birtir greinargerðina. Samt var forsætisnefnd búin að ákveða að birta greinargerðina. Tvisvar. Ég greiddi atkvæði með því að birta greinargerðina í annað af þeim skiptum í forsætisnefnd eftir að forsætisnefnd fékk lögfræðiálit þar sem niðurstaðan var að Alþingi bæri lagaleg skylda til þess að birta greinargerðina um Lindarhvol.

Enn hefur þingið ekki birt greinargerðina og þar með viðurkennt birtingarskyldu sína og í sumar hótaði forseti Alþingis því að rannsaka þyrfti birtingu Þórhildar Sunnu. Birtingu á greinargerð sem hvergi er merkt sem trúnaðarmál af hendi setts ríkisendurskoðanda. Hvorki þegar greinargerðin er send til þingsins né þegar greinargerðin var send Þórhildi Sunnu.

Þá verður að spyrja: hver ákvað að skjalið skyldi vera bundið trúnaði ef það var ekki settur ríkisendurskoðandi? Hver getur ákveðið að greinargerðin sé bundin trúnaði eftir afhendingu setts ríkisendurskoðanda?

Fylgist með í næsta þætti af Leyndardómum Lindarhvols þegar þessum spurningum verður vonandi svarað.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is