Bankinn þarf að vera með eigið fé upp á rúmar þrjár milljónir króna á móti 49 milljóna króna láni.
Bankinn þarf að vera með eigið fé upp á rúmar þrjár milljónir króna á móti 49 milljóna króna láni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hægt er að bæta kjör lántakenda hér á landi umtalsvert með því að breyta þeim reglum sem bankar búa við hér. Samkvæmt tilbúnu dæmi sem sérfræðingur á fjármálamarkaði tók saman fyrir ViðskiptaMoggann gæti vaxtamunur íslenskra banka lækkað um helming án þess að það kæmi niður á arðsemi bankans

Hægt er að bæta kjör lántakenda hér á landi umtalsvert með því að breyta þeim reglum sem bankar búa við hér. Samkvæmt tilbúnu dæmi sem sérfræðingur á fjármálamarkaði tók saman fyrir ViðskiptaMoggann gæti vaxtamunur íslenskra banka lækkað um helming án þess að það kæmi niður á arðsemi bankans.

Stór ástæða fyrir þessum aðstöðumun milli landa er að bönkum annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu er gert að binda miklu minna fé á móti sínum lánum en íslenskum bönkum er áskilið að gera.

Samkvæmt samantektinni búa íslenskri bankar almennt við mun strangari reglur en bankar á Norðurlöndum og í Evrópu. Innleiðing Basel 4-reglugerðarinnar, sem gengur út á að styrkja áhættustýringu banka og eiginfjárkröfur m.a., og upptaka lægri áhættuvogar, gæti átt þátt í að skila þessari niðurstöðu.

Í dæmi þar sem stuðst er við núverandi reglugerðarumhverfi þarf vaxtamunur af íbúðaláni að vera 2,4% til að banki nái 13% arðsemi á eigið fé. Hér er þá miðað við að áhættuvog íbúðalána er 35%, eiginfjárkrafa 19,4%, kostnaðarhlutfall upp á 45% og núverandi skattaumhverfi íslenskra banka.

49 milljóna lán

Til þess að reyna að útskýra á sem einfaldastan hátt hvað þetta þýðir má ímynda sér að banki láni 70% af kaupverði 70 milljóna króna íbúðar. Það samsvarar láni upp á 49 milljónir króna. Áhættuvog upp á 35% þýðir að áhættugrunnur bankans er 35% af lánsfjárhæðinni eða rúmlega 17 milljónir króna. Eiginfjárkrafa upp á 19,4% gerir það að verkum að bankinn þarf að vera með eigið fé upp á rúmar þrjár milljónir króna á móti láninu. Ef bankinn er svo með arðsemiskröfu á eigið fé upp á 13% þýðir það að hann þarf að hagnast um 432 þúsund krónur til að ná ásættanlegri arðsemi.

Í dæminu segir að miðað við að bankinn sé með 45% kostnaðarhlutfall og miðað við núverandi skattaumhverfi banka á Íslandi þurfa því hreinar vaxtatekjur bankans af láninu að vera um 1,2 milljónir króna eða um 2,4% vaxtamunur.

Ennfremur segir að ef bankar myndu greiða skatta eins og önnur fyrirtæki á Íslandi og sérstakir skattar á þá afnumdir þyrfti vaxtamunurinn aðeins að vera 2,0% til að ná sömu arðsemi.

Horft til grunnvaxta

Í samantektinni segir að ef áhættuvog íbúðalána myndi lækka úr 35% í 20% og eiginfjárkrafan úr 19,4% í 15% þyrfti vaxtamunurinn aðeins að vera 1,2% til að ná sömu arðsemi.

Annar þáttur sem horfa þarf til samkvæmt dæminu er hverjir grunnvextir á starfssvæði bankanna eru. Á Íslandi eru 10 ára áhættulausir nafnvextir 7% en 2,8%-3,9% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Engu að síður eru bankar í þeim löndum með svipaða, og hærri í sumum tilfellum, arðsemi eigin fjár og íslenskir bankar. Eftir því sem grunnvextir eru hærri mun ávöxtunarkrafa fjárfesta hækka og því eftir miklu að slægjast að ná grunnvöxtum niður.

Í samantektinni segir að ef hægt væri að ná grunnvöxtum á Íslandi niður á svipaðar slóðir og annars staðar á Norðurlöndunum og bankarnir gætu þá lækkað arðsemiskröfu sína í 10% úr 13% myndi ofangreindur vaxtamunur aðeins þurfa að vera 1,2% í stað 2,4% í dag í óbreyttu reglugerðar- og skattaumhverfi.

Það er því til mikils að vinna fyrir neytendur en eins og segir í samantektinni fyrir ViðskiptaMoggann er boltinn hjá stjórnvöldum að ná niður grunnvöxtum og einfalda reglugerðar- og skattaumhverfi bankanna á Íslandi.