Guðbergur Bergsson rithöfundur er látinn, níræður að aldri. Hann lést á heimili sínu í Mosfellsbæ í faðmi fjölskyldunnar mánudagskvöldið 4. september sl. eftir skammvinn veikindi. Guðbergur fæddist í Ísólfsskála við Grindavík 16

Guðbergur Bergsson rithöfundur er látinn, níræður að aldri. Hann lést á heimili sínu í Mosfellsbæ í faðmi fjölskyldunnar mánudagskvöldið 4. september sl. eftir skammvinn veikindi.

Guðbergur fæddist í Ísólfsskála við Grindavík 16. október 1932. Foreldrar Guðbergs voru Jóhanna Guðleif Vilhjálmsdóttir húsmóðir og Bergur Bjarnason, smiður og sjómaður.

Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958.

Síðan fyrstu bækur hans komu út árið 1961, ljóðabókin Endurtekin orð og skáldsagan Músin sem læðist, hafa lesendur mátt hafa sig alla við í ævintýralegu sköpunarverki sem spannar óravítt svið skáldskapar, þýðinga, fagurfræði, gagnrýni, listfræði og pistla. Með skáldsögunni Tómasi Jónssyni metsölubók (1966) markaði Guðbergur sér stöðu sem einn helsti módernisti íslenskra bókmennta og jafnframt einn helsti arftaki Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og Gunnars Gunnarssonar í íslenskum nútímabókmenntum.

Guðbergur hlaut ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir skáldskap sinn og þýðingar, meðal annars bókmenntaverðlaun dagblaðanna, bókmenntaverðlaun DV, Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Svaninn og einnig fyrir skáldævisögu sína Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar (1997) og Eins og steinn sem hafið fágar (1998). Árið 2004 hlaut hann Norrænuverðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar og árið 2006 var hann tilnefndur til hinna virtu ítölsku Noninu-verðlauna fyrir Svaninn. Hann var einnig sæmdur afreksorðu Spánarkonungs og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Árið 2013 var Guðbergur sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Sama ár var Guðbergsstofa opnuð í Kviku, auðlinda- og menningarhúsi Grindavíkur. Guðbergur var heiðursborgari Grindavíkur frá árinu 2004.

Eftirlifandi sambýlismaður Guðbergs er Guðni Þorbjörnsson, flugmaður og framkvæmdastjóri ARTPRO ehf. Þeir hafa í rúman áratug búið í Mosfellsbæ og Berlín, auk þess að eiga aðsetur í Reykjavík, Grindavík og Madrid. Saman eiga þeir bengalkettina Pútín og Picasso.