Ómar Már Kristjánsson segir að MiðiX bjóði viðburðahöldurum einnig að leigja hugbúnaðinn ef þeir vilja sjálfir sjá um miðasölu og þjónustu.
Ómar Már Kristjánsson segir að MiðiX bjóði viðburðahöldurum einnig að leigja hugbúnaðinn ef þeir vilja sjálfir sjá um miðasölu og þjónustu. — Morgunblaðið/Hákon
Eins og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins sérhæfir MiðiX sig í miðasöluþjónustu fyrir viðburði s.s. tónleika, leiksýningar, námskeið, ráðstefnur, íþróttaviðburði og í raun hvar þar sem þörf er á sölu aðgöngumiða, hvort sem er á netinu og/eða við inngang

Eins og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins sérhæfir MiðiX sig í miðasöluþjónustu fyrir viðburði s.s. tónleika, leiksýningar, námskeið, ráðstefnur, íþróttaviðburði og í raun hvar þar sem þörf er á sölu aðgöngumiða, hvort sem er á netinu og/eða við inngang.

„Það er óhætt að segja að viðtökur við innkomu okkar á markaðinn hafi verið mjög góðar. Okkur hefur tekist að byggja upp frábært teymi til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem þjónustan felur í sér,“ segir Ómar.

Í samtali við Morgunblaðið fyrir ári sagði hann að fyrirtækið hefði verið stofnað til að auka þjónustuframboð á miðasölumarkaðinum. Áður var Tix.is eina miðasölufyrirtækið sem viðburðahaldarar gátu snúið sér til.

Komið til að vera

„Maður finnur það hjá viðburðahöldurum að þeir eru ánægðir með að það séu fleiri en einn aðili að sinna þessari þjónustu. Við erum á okkar vegferð að þróa þjónustu MiðiX áfram í samræmi við þarfir okkar viðskiptavina. MiðiX er komið til að vera.“

Ómar segir fyrirtækið sífellt meðvitaðra um þarfir bæði miðakaupenda og viðburðahaldara og að reynt sé að sinna báðum viðskiptavinahópunum af kostgæfni. „Sem stendur er verið að uppfæra miðasölukerfið, þar sem allt miðast við að einfalda miðakaup og ættu notendur að verða varir við algjörlega nýtt útlit á MiðiX í september.“

Ómar segist hafa lært það á þessu eina ári að mestu skipti að vera með þjónustumiðaða starfsemi þar sem lögð er megináhersla á notendaupplifunina. MidiX hefur mest selt miða á tónleika og ráðstefnur, en eins og sagði að framan eru engin takmörk fyrir því hvar kerfið nýtist.

Ómar segir að MiðiX bjóði viðburðahöldurum einnig að leigja hugbúnaðinn ef þeir vilja sjálfir sjá um miðasölu og þjónustu við miðakaupendur. „Það er í undirbúningi og við ætlum að kynna þá nýjung í framhaldi af uppfærslu kerfisins.“

Búnaðurinn er þróaður af þýsku hugbúnaðarfyrirtæki sem á 50% hlut í MiðiX. Kerfið er í notkun víða um heim að sögn Ómars.

Ómar segir að árið hafi verið viðburðaríkt. „Það getur verið áskorun að koma nýr inn á markaðinn og er eðlilegt að það taki tíma að byggja upp traust, en ég tel að okkur hafi tekist það á þessu eina ári.“

Þýska fyrirtækið hyggst að sögn Ómars bjóða fleiri lausnir á íslenska markaðinum í fyllingu tímans. „Þeir eru mjög spenntir fyrir öðrum tækifærum hér á landi með hugbúnaðarlausnir á svokölluðum syllumarkaði, á sviðum sem fáir eða engir aðrir eru að sinna hér á landi,“ segir Ómar að lokum.