„Við þurfum að ná meiri stöðugleika til að geta horft til framtíðar og það er á ábyrgð okkar allra,“ segir Ingvar um áskoranirnar.
„Við þurfum að ná meiri stöðugleika til að geta horft til framtíðar og það er á ábyrgð okkar allra,“ segir Ingvar um áskoranirnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ingvar stendur á tímamótum en nýverið stofnaði hann fyrirtækið Hamarshyl ásamt meðeigendum sínum í Aton.JL í kringum kaup á Gallup á Íslandi. Samhliða því er vinnu að ljúka við sameiningu Aton og JL og ótal spennandi verkefni sem bíða

Ingvar stendur á tímamótum en nýverið stofnaði hann fyrirtækið Hamarshyl ásamt meðeigendum sínum í Aton.JL í kringum kaup á Gallup á Íslandi.

Samhliða því er vinnu að ljúka við sameiningu Aton og JL og ótal spennandi verkefni sem bíða. Þá bíður Ingvar spenntur eftir því að verða afi í október.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Ég verð að segja að mér finnst alltaf mesta áskorunin hversu erfitt er að gera áætlanir í þessu efnahagsumhverfi. Við þurfum að vinna betur saman að því að tryggja það að kaupmáttur haldi sér og verðbólgan sé ekki rokkandi upp og niður. Við þurfum að ná meiri stöðugleika til að geta horft til framtíðar og það er á ábyrgð okkar allra. Til að ná árangri í rekstri þarf markmiðasetningu og skýra sýn – við þurfum að setja okkur sameiginleg markmið og vinna að því í sameiningu að ná þeim því við munum ekki ná árangri ef aðilar vinna hver í sínu horni.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Það var fyrirlestur um hlutverk íþróttafélaga í samfélaginu og ábyrgð í rekstri félaganna. Erindið var mjög áhugavert því íþróttafélög gegna mjög mikilvægu hlutverki í lífi barna og unglinga og í forvarnarlegu samhengi. Í raun má meta barna- og unglingastarf íþróttafélaga til jafns við skólagöngu því að þar lærir fólk að vinna í teymum, lifa heilsusamlegu lífi og svo er forvarnargildið ótvírætt.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Besta leiðin til að viðhalda þekkingu er að tala við fólk. Ég vinn í mjög mörgum teymum á mínum vinnustað og að öllu öðru ólöstuðu þá finnst mér það besta leiðin til að viðhalda þekkingu minni, að eiga í samskiptum og rökræða við fólk.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, almennt geri ég það. Ég reyni að lyfta léttum lóðum nokkrum sinnum í viku og svo er göngutúrinn í golfinu náttúrulega frábær æfing. En þetta er eilíf barátta og mottóið er að þó að maður missi dampinn af og til þá er lykilatriði að koma sér af stað aftur.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég gæti sagst vilja vera atvinnumaður í golfi eða frægur tónlistarmaður en stundum líður mér eins og mig langi að reka lítið fyrirtæki á landsbyggðinni, t.d. í ferðaþjónustu, þar sem ég kæmist að veiða og spila golf og fengi að njóta þessa fallega lands.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi segja að meistaragráða í samningatækni væri eitthvað sem ég myndi vilja bæta við. Samningar eru eitt mikilvægasta form samskipta í dag og algert lykilatriði til að ná góðum árangri í viðskiptum, á vinnumarkaði og í stjórnsýslu.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Fyrirtæki standa frammi fyrir mikilli óreiðu í upplýsinga- og samskiptamálum og við sjáum að það umhverfi er að breytast mjög. Ákvarðanir þarf að taka byggt á rannsóknum og gögnum til að tryggja árangur. Því miður er skipulag samskipta oftar en ekki vanbúið hjá fyrirtækjum og opinberum aðilum sem getur skapað krísur og óþarfa orðsporsáhættu.

En það er kostur að í vaxandi mæli eru fyrirtæki að átta sig á þessu og fá utanaðkomandi aðila til aðstoðar við að skipuleggja samskipti sín. Ég vil líka segja að það er kostur fyrir íslenskt viðskiptaumhverfi að við erum í auknum mæli farin að horfa á stöðu okkar í alþjóðlegri samkeppni. Það mun skipta máli að fyrirtækin hér séu sterk, með menntað og öflugt starfsfólk og eru skilyrðin að verða betri og betri hér á landi.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Aftur myndi ég segja að samtöl og rökræður gefi mér mestan innblástur. Ég elska að takast á um málefni og skiptast á skoðunum. Þá skiptir máli að geta farið í boltann en ekki manninn. Og svo eru það íþróttirnar sem gefa mér orku. Að vinna með íþróttafélögum og fólki sem er að reka þessa mikilvægu samfélagslegu þjónustu er afar gefandi.

Ævi og störf:

Nám: Uppalinn í Fellahverfi í Breiðholti og útskrifaðist frá Fellaskóla 1986; stúdentspróf frá FB 1993; kláraði MBA frá Háskólanum í Reykjavík um fertugt.

Störf: Starfaði sem sölumaður en fór svo í pólitík. Varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann 1994 til 1998; framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins 1997 til 2000; framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar 2000 til 2001; ráðgjafi hjá Netspori 2001 til 2004; framkvæmdastjóri Góðs fólks auglýsingastofu 2004 til 2009; aðstoðarmaður samgönguráðherra og svo heilbrigðisráðherra 2009 til 2011; formaður ÍBR frá 2009; ráðgjafi hjá Netspori 2011 til 2013; framkvæmdastjóri Aton 2013 til 2019; framkvæmdastjóri Aton.JL frá 2019.

Áhugamál: Ég á það til að sinna of mörgum áhugamálum en golf, veiði og að spila á munnhörpuna mína í bílskúrsbandi stendur upp úr. Ég hef stýrt nokkrum sögugöngum um Efra-Breiðholtið og hef mjög gaman af því að kynna það frábæra hverfi fyrir fólki og segja áhugaverða sögu um uppbygginguna þar. Ég er líka formaður ÍBR og hef brennandi áhuga á að efla íþróttahreyfinguna og íþróttastarf í landinu.

Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Hólmfríði Björk Óskarsdóttur og við eigum þrjá syni: Viktor Martein sem eignast sitt fyrsta barn í október, Bjarka Hrafn og Dag Frank.