Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs, segir að sjóðurinn fylgi stefnu um ábyrgar fjárfestingar og hafi hana að leiðarljósi.
Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs, segir að sjóðurinn fylgi stefnu um ábyrgar fjárfestingar og hafi hana að leiðarljósi. — Ljósmynd/ Bernhard Kristinn Ingimundarson
Lífsverk lífeyrissjóður hefur ekki markað sér sérstaka stefnu varðandi kaupréttarkerfi í nýsköpunarfyrirtækjum. Jón L. Árnason framkvæmdastjóri Lífsverks segir í samtali við ViðskiptaMogga að ekki standi til að setja slíka stefnu

Lífsverk lífeyrissjóður hefur ekki markað sér sérstaka stefnu varðandi kaupréttarkerfi í nýsköpunarfyrirtækjum. Jón L. Árnason framkvæmdastjóri Lífsverks segir í samtali við ViðskiptaMogga að ekki standi til að setja slíka stefnu. Líkt og ViðskiptaMogginn fjallaði um í síðustu viku hafa hvorki Birta né Lífeyrissjóður verslunarmanna sett sér stefnu sem tekur sérstaklega til kaupréttarkerfa í nýsköpunarfyrirtækjum. Í samtali við forsvarsmenn sjóðanna kom þó fram að sjóðirnir væru afar hlynntir slíkum kerfum.

„Við höfum ekki lagt áherslu á að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum á frumstigi heldur höfum við heldur viljað fara í gegnum sjóði. Við höfum því ekki séð ástæðu til að setja slíkar reglur,“ segir Jón og bætir við að Lífsverk sé almennt séð ekki á móti kaupréttarkerfum í nýsköpunarfyrirtækjum.

„Við skiljum að kaupréttarkerfi í nýsköpunarfyrirtækjum geta verið mikilvæg. Einkum í fyrirtækjum sem eru að fara af stað og eru ekki með miklar tekjur. Fyrirtækin þurfa að bæði ná í og halda hæfileikaríku fólki. Það sem er mikilvægt er að hagsmunir hluthafa, starfsfólks og félagsins fari saman og séu hafðir að leiðarljósi við gerð stefnunnar.“

Sjá ekki eftir sölu í Kerecis

Lífsverk greiddi atkvæði gegn því að innleidd væri kaupréttaráætlun fyrir starfsmenn í nýsköpunarfyrirtækinu Kerecis.

Jón segir að það séu undantekningartilvik að Lífsverk setji sig á móti kaupréttarkerfi fyrirtækja. Lífsverk sé hlynnt kaupréttum ekki síst í nýsköpunarfyrirtækjum. Hann bætir við að Lífsverk hafi aðeins sett sig á móti kaupréttum í þeim tilvikum þar sem þeir hafi verið metnir óhóflegir.

„Almennt séð höfum við ekki gert athugasemdir nema við teljum að kaupréttir til framkvæmdastjóra séu óhóflegir eða starfskjarastefna sé ógagnsæ eða óljós.“

Kerecis var selt til danska lækningarvörufyrirtækisins Coloplast á 180 milljarða en Lífsverk seldi í Kerecis stuttu fyrir söluna. Aðspurður hvort Lífsverk sjái eftir að hafa selt á þeim tímapunkti svarar Jón því neitandi.

„Við vorum eini lífeyrissjóðurinn sem kom inn í Kerecis á sínum tíma og vorum nálægt því að fimmfalda þessa fjárfestingu á skömmum tíma. Það þýðir ekkert að horfa í baksýnisspegilinn. Þetta var vel heppnuð fjárfesting og við studdum vel við félagið á sínum tíma.“

Jón bætir við að þeim hjá Lífsverki hafi þótt ánægjulegt að sjá að Kerecis hafi notið góðs af merku frumkvöðlastarfi með sölu félagsins til Coloplast.

Spurður hvort Lífsverk sjái ástæðu til að endurskoða afstöðu sína til kaupréttarkerfa og stefnu um ábyrgar fjárfestingar svarar Jón því neitandi.

„Við fylgjum okkar stefnu um ábyrgar fjárfestingar í hvívetna og sjáum ekki ástæðu til að endurskoða hana þar sem við setjum okkur upp á móti kaupréttarkerfum í nýsköpunarfyrirtækjum eða starfskjarstefnu í algjörum undantekningartilfellum. Því almennt séð erum við fylgjandi því að starfsmenn njóti góðs af árangri viðkomandi félags.“