Viðbótarsparnaður er úrræði sem fólk er misduglegt að nýta sér.
Viðbótarsparnaður er úrræði sem fólk er misduglegt að nýta sér. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þættir á borð við kyn, tekjur, menntun og ríkisfang hafa mikil áhrif á það hversu líklegt er að fólk taki þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Kemur þetta fram í rannsóknarritgerð sem var nýverið birt á vegum Seðlabanka Íslands

Þættir á borð við kyn, tekjur, menntun og ríkisfang hafa mikil áhrif á það hversu líklegt er að fólk taki þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Kemur þetta fram í rannsóknarritgerð sem var nýverið birt á vegum Seðlabanka Íslands.

„Eftir að hafa skoðað og greint gögnin og þá miklu hvata sem voru – og eru – til staðar til að fá fólk til að taka þátt, einkum mótframlag launagreiðanda, vildum við reyna að skilja hvers vegna þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði nær ekki til nánast alls launafólks, af hverju fólk hættir að nýta sér heimild til viðbótarlífeyrissparnaðar eftir sextugt, hvort að breytingar urðu á þátttöku landsmanna eftir bankahrun og eins hvort að það hafði áhrif á þátttöku þegar stjórnvöld ákváðu árið 2014 að nota mætti greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað, upp að tilteknu hámarki, skattfrjálst til að greiða inn á húsnæðislán,“ útskýrir Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, en hún framkvæmdi rannsóknina ásamt Ásgeiri Daníelssyni fyrrv. forstöðumanni rannsóknar- og spádeildar Seðlabanka Íslands, og Svövu J. Haraldsdóttur hagfræðingi á sviði hagfræði og peningastefnu hjá Seðlabankanum.

Lög um viðbótarlífeyrissparnað voru sett árið 1997 og byrjaði þátttaka í þessu nýja sparnaðarkerfi tveimur árum síðar. „Markmið laganna var bæði að stuðla að auknum sparnaði og um leið auka valfrelsi í lífeyriskerfinu því fleiri fjármálastofnanir en lífeyrissjóðir máttu taka við viðbótarlífeyrissparnaði,“ útskýrir Rannveig og bendir á að þátttaka hafi vaxið jafnt og þétt og náð einhvers konar jafnstöðu árið 2005. Eftir bankahrunið minnkaði þátttakan, einkum hjá ungu fólki, og helst lægri fram til ársins 2014.

Allt frá byrjun fengu þeir sem tóku þátt í viðbótarlífeyrissparnaði mótframlag frá launagreiðanda. Þetta mótframlag hækkaði fljótt og árið 2002 var það komið í 2% af launum ef sparnaðurinn nam 2%. Greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað hafa alltaf verið skattfrjálsar og það sama gildir um ávöxtun sparnaðarins en greiðslur úr sparnaðinum er skattlagðar eins og laun.

Rannsóknin sýnir að árið 2017 tóku 77% Íslendinga í fullu starfi þátt í viðbótarlífeyrissparnaði en hlutfallið lækkar niður í rúmlega 40% fyrir Íslendinga í hlutastarfi. Þátttaka fólks af erlendum uppruna er enn minni: tæplega 32% fyrir fólk í fullu starfi og innan við 10% fyrir fólk í hlutastarfi. „Ef horft er til Íslendinga í fullu starfi er þátttakan mest hjá þeim sem eru með mestu menntunina, eða nálægt 85% og hlutfallið svipað fyrir þá sem hafa hæstu tekjurnar. Hvað varðar fólk í lægsta tekjuhópnum mælist þátttakan hins vegar undir 60%,“ útskýrir Rannveig.

Hafa ekki efni á að spara eða vilja ekki bíða

Sennilegar skýringar á lítilli þátttöku fólks af erlendum uppruna eru m.a. þær að útlendingar sem koma til Íslands þekki mögulega ekki rétt sinn eða hugsi sér ekki að hafa langa viðdvöl í landinu. „Lausafjárskortur kann að skýra hvers vegna fólk með lægri tekjur nýtir ekki þessa sparnaðarleið. Heyrðum við það frá starfsmönnum stofnana sem taka við viðbótarlífeyrissparnaði að jafnvel þó að fólki væri bent á hversu hagkvæm þessi sparnaðarleið er þá finnist tekjulágum erfitt að sjá af 2% af launum sínum,“ segir hún. „Hin ástæðan gæti verið óþolinmæði, og vilji til að nota peninginn í dag frekar en að binda hann í marga áratugi. Við sjáum að þátttakan er minni hjá þeim sem yngri eru og kann það að vera vegna þess að þeim þykir framtíðin – þegar þau geta notið góðs af sparnaðinum – vera svo óralangt í burtu.“

Athyglisvert er að þátttaka í viðbótarsparnaði minnkar hratt þegar fólk kemst á sjötugsaldurinn, jafnvel þó flestir haldi áfram að vinna fullt starf fram að 67 ára aldri eða lengur. Þarna ætti lausafjárskortur og óþolinmæði ekki að skipta máli því eftir sextugt getur fólk tekið út viðbótarlífeyrissparnað jafn óðum. Segir Rannveig að það sé ráðgáta hvað veldur þessu en eitt af því sem kom í ljós í rannsókninni var að þeir sem ákváðu að byrja að taka út sparnaðinn eftir sextugt voru líklegri til að hætta þátttöku í sparnaðinum heldur en þeir sem ekki byrjuðu að taka út viðbótarlífeyrissparnað. Hún bendir á að það ættu ekki að vera tengsl á milli þessara ákvarðana og að þær séu stofnanalega aðgreindar. „Þegar fólk nær þeim aldri að mega og vilja taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn sækir það um hjá viðkomandi fjármálastofnun, á meðan ákvörðunin um að binda endi á viðbótarsparnaðinn fer í gegnum launagreiðandann. Það er því ekki eins og ákvörðunin um að hætta að spara sé tekin með því að haka í box á sama eyðublaði og er notað til að taka út sparnaðinn.“

Rannveig bendir á að það sé varla rökrétt að hætta að spara í kringum sextugt, vera enn að vinna og eiga rétt á að taka þátt og fara þannig á mis við mótframlag vinnuveitanda. „Fólk er að verða af 2% viðbót við launin sín – viðbót sem væri hægt að fá með því að leggja inn 2% af launum einn mánuðinn og taka 4% út þann næsta. Dágóð ávöxtun ef fólk nýtir sér að halda áfram að taka þátt.“

Unga fólkið snéri aftur 2014

Eftir bankahrun dró töluvert úr þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og segir Rannveig það mjög skiljanlegt enda hafi verið mjög þröngt í búi á mörgum heimilum. Sérstaklega minnkað þátttaka ungs fólks mikið. Þátttakan eykst svo að nýju árið 2014 og kann það að tengjast nýrri heimild til að taka út hluta af sparnaðinum til að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán, en þá jókst þátttakan að sama skapi mest hjá ungu fólki. „Þessi heimild var kynnt mjög rækilega og átti upphaflega að gilda fram til 2017, en var ítrekað framlengd og gildir núna til ársloka 2024,“ segir Rannveig.

„Við sjáum að þátttakan jókst meira hjá þeim sem skulduðu húsnæðislán en hjá hinum sem ekki voru með slíkar skuldir. Árið 2017 höfðu rúmlega 58% af þeim tekjuhæstu sem skulduðu húsnæðislán tekið út sparnað til að saxa á lánin en hjá þeim tekjulægstu var hlutfallið aðeins 7,7%. Þá var hlutfallið 45% hjá háskólamenntuðum en 21% hjá fólki með grunnskólamenntun. Heilt yfir er þátttakan í þessu úrræði lítil, sérstaklega þegar miðað er við þann mikla ábata sem fylgir þátttökunni, en samanlagður ábati af mótframlagi og skattfrelsi greiðslna inn á húsnæðislán gat numið allt að 3,85% af launum, skattfrjálst. Árið 2017 var þátttakan við lægri mörk þess sem áætlanir stjórnvalda á árinu 2014 gerðu ráð fyrir.“

Spurð hvað mætti til bragðs taka til að auka þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og minnka bilið á milli hópa segir Rannveig að tilraunir sem gerðar hafa verið erlendis bendi til þess að ein skilvirkasta leiðin væri að búa þannig um hnútana að fólk sé sjálfkrafa skráð í viðbótarlífeyrissparnað en hafi val um að skrá sig sjálft úr sparnaðinum. „Lítil þátttaka tiltekinna hópa kann að skrifast á skort á upplýsingum, eða skort á tíma til að taka ákvarðanir um sparnað, en þar sem prófað hefur verið að skrá fólk í sparnaðinn sjálfkrafa hefur þátttakan aukist mikið og úrskráning eða mótaðgerðir verið minni en búast hefði mátt við í ljósi fyrri þátttöku í sambærilegum sparnaði.“