Leonardo DiCaprio er frábær leikari. Mögulega gæti hann orðið frumkvöðull í dýravernd með því að kaupa veiðiheimildir á hvölum við Ísland.
Leonardo DiCaprio er frábær leikari. Mögulega gæti hann orðið frumkvöðull í dýravernd með því að kaupa veiðiheimildir á hvölum við Ísland. — AFP
Hvalveiðar hafa ekki verið bitbein í íslenskum stjórnmálum um langa hríð. Það er ágætt, enda um hefðbundna og sjálfbæra nýtingu á sjávarauðlindum að ræða. Vissulega eru skiptar skoðanir á hvalveiðum, en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að málið…

Hvalveiðar hafa ekki verið bitbein í íslenskum stjórnmálum um langa hríð. Það er ágætt, enda um hefðbundna og sjálfbæra nýtingu á sjávarauðlindum að ræða. Vissulega eru skiptar skoðanir á hvalveiðum, en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að málið hefur um árabil lítið verið rætt á vettvangi stjórnmála og engin ákvörðun tekin á löggjafarþinginu um það hvað skal gera. Það að matvælaráðherra láti kunningja sína skrifa fyrirfram pantað álit á málefninu segir okkur ekkert um pólitískan vilja annarra en viðkomandi ráðherra. Hingað til hefur þó ekki verið neinn skortur á því hversu mikið stjórnmálamenn geta þrætt um auðlindanýtingu, þó sú umræða snúist að mestu um það hvaða nýtingu hægt sé að stöðva eða skattleggja.

Nú er málið þó á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar, og meira að segja svo mikið að bandarískir leikarar eru farnir að hafa á því skoðun. Nú er Morgunblaðið auðvitað öflugasti fjölmiðill landsins, og þó víðar væri leitað. Það má þó draga það í efa að Leonardo DiCaprio hafi verið að renna í gegnum ensku útgáfu mbl.is, séð þar að mögulega myndu hvalveiðar hefjast á ný og fundið hjá sér þörf til að hefja undirskriftasöfnun með kollegum sínum. Það sama mætti segja um þann hóp leikara sem hótuðu því að hingað kæmu engin kvikmyndaverkefni ef Íslendingar voguðu sér að halda þessum ósóma áfram. Hér var augljóslega um skipulagðan áróður að ræða þar sem nýta átti nöfn fræga fólksins til að hafa áhrif á pólitíska ákvörðun á Íslandi (svona fyrir utan það að það eru framleiðendur kvikmynda sem ákveða hvar þær eru framleiddar, ekki leikararnir).

Gott og vel, þessu fólki er frjálst að hafa skoðun og koma henni á framfæri. Stóra spurningin er þó frekar sú hvort þau vilji ekki láta kné fylgja kviði og taka upp veskið til að fylgja þessum áhuga sínum eftir? Það er með þetta eins og svo margt annað, að þennan ágreining má leysa á hinum frjálsa markaði. Þeir sem söfnuðu undirskrift frá DiCaprio gætu mögulega tekið upp símann á ný og borið undir hann hvort hann vilji ekki kaupa réttindin að veiðunum í þeim tilgangi að vernda hvalina. Ef kvikmyndaverkefnin færa þjóðinni í alvöru alla þessa milljarða og standa og falla með því hvort við veiðum hvali eða ekki, þá ætti að vera sjálfsagt mál fyrir iðnaðinn að greiða hvalveiðimönnum fyrir að veiða ekki. Það eru fjölmörg dæmi þess að dýrum í útrýmingarhættu (sem hvalir við Íslandsstrendur eru þó ekki) sé bjargað með þeim hætti.

Það eru liðin tæp 30 ár frá því að Bubbi spurði í laginu hvort það væri nauðsynlegt að skjóta þá. Það er í sjálfu sér ekki til neitt einfalt svar við því – og kannski þarf ekki að svara þeirri spurningu í orðum. Framsal á veiðiheimild og frjáls viðskipti gætu þó svarað henni.