Halla Guðmundsdóttir fæddist í Kollsvík í Rauðasandshreppi 21. mars 1932. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 28. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Pálsdóttir Cristiansen og Guðmundur Gestsson. Systkini Höllu voru Björn, Gunnar og Svala.

Halla ólst upp á Patreksfirði en 17 ára fór hún í Húsmæðraskólann á Akureyri. Á Akureyri kynntist hún Óla Þór Baldvinssyni húsasmiði frá Hjalteyri og gengu þau í hjónaband hinn 1. desember 1951. Óli Þór lést 1. janúar 2022.

Börn Höllu og Óla eru: 1) Erna, gift Kára Garðarssyni. Þau eiga fjögur börn og barnabörnin eru 13. 2) Guðmundur Baldvin, kvæntur Sigrúnu Ásgrímsdóttur. Hann á eina dóttur og saman eiga þau eina dóttur og fjögur barnabörn. 3) Sigurbjörg, gift Óla Jóni Ólafssyni og eiga þau þrjú börn og níu barnabörn. 4) Sigurður, sem á eitt barn og barnabarn.

Halla og Óli stofnuðu sitt fyrsta heimili á Akureyri og reistu þau sér hús í Löngumýri 4 og áttu þar heima í 40 ár, að frátöldu einu ári sem þau voru búsett í Laxárvirkjun. Þau fluttust til Reykjavíkur 1989. Halla var heimavinnandi húsmóðir meðan börnin voru ung en eftir að þau voru komin á legg lærði hún kjólasaum í Iðnskólanum á Akureyri og starfaði síðan sem kjólameistari.

Hún lauk námi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1987. Halla kenndi við Verkmenntaskólann á Akureyri um árabil.

Halla var virkur félagi í Rebekkustúkunni Auði á Akureyri og var stofnfélagi í Rebekkustúkunni Soffíu í Reykjavík eftir að hún flutti suður.

Útförin fer fram frá Áskirkju í dag, 6. september 2023, klukkan 13.

Elsku amma. Minningarnar með þér eru margar og góðar. Allt frá því að ég var lítil skotta og var oft hjá ykkur á stúdentagörðunum þar sem afi var húsvörður, eða frá því að þið fluttuð á Skúlagötuna og ég náði að eyða góðum tíma með ykkur. Ég var svo lánsöm að fá að búa hjá ykkur seinustu önnina mína í framreiðslunáminu 2008 og þú passaðir vel upp á mig á meðan. Þú varst alltaf til staðar fyrir alla og voru þær ófáar heimsóknirnar sem þú fékkst frá vinkonum sem þú varst að aðstoða. Umhyggja þín fyrir öðrum var alltaf mikil og jafnvel síðustu daga þína, þegar ég sat hjá þér uppi á sjúkrahúsi, hafðir þú áhyggjur af því hvort ég væri búin að borða eða þyrfti ekki að fara að sofa. Takk fyrir allt og hvíldu í friði, elsku amma.

Inga Kristín Jónsdóttir.

Elskulega amma mín, ég segi amma en þú hefur gegnt mun stærra hlutverki en það í mínu lífi, mun stærra en það sem venjulegar ömmur gera. Ef ég segði allt hér sem mig langar til að segja þyrfti ég að gefa út mitt eigið morgunblað svo ég verð að hafa þetta styttra, en eitt skaltu vita að þú hefur reynst mér afskaplega vel og ég veit að ég hef líka reynst þér vel.

Ég á ótal minningar með ykkur afa sem mér þykir afar vænt um. Það sem stendur upp úr er hversdagsleg samvera okkar. Samvera sem hefur verið svo mikil allt frá barnæsku. Ég á minningar frá Langagerði, Hjónagörðunum og Skúlagötu og hafa þessir staðir í gegnum tíðina verið mitt annað heimili þar sem tekið var á móti mér með mikilli hlýju. Í seinni tíð á ég minningar um allar búða- og Kolaportsferðirnar, bíltúrana og kaffibollana. Mér þykir mjög vænt um að við náðum að fara í síðustu Kolaportsferðina okkar núna í sumar þótt það hafi verið bara til að skoða og það hafi verið lítið af mat í borðunum. Afi var með okkur í þessari ferð í anda því í gamla daga hefði hann ekki misst af ferðum í Kolaportið.

Mikið rosalega er sárt að kveðja þig amma mín en þú átt svo sannarlega skilið hvíld eftir allan dugnaðinn, þinn tími var kominn. Þú varst alltaf svo sterk manneskja. Þú sagðir við mig þegar afi dó að við yrðum að vera sterk og núna skal ég vera það fyrir þig og fyrir mig.

Þú munt alltaf vera mér í hjartastað því þú hefur verið mér allt í öllu. Ég mun halda áfram að kíkja til þín og afa í kaffi nema núna í Öskjuhlíðina, sjáumst uppi.

Alexander
Baldvin Sigurðsson.

Amma Halla var mikill meistari. Hún var löggiltur kjólameistari, annálaður sósumeistari og framúrskarandi sagnameistari. Hún var ekki sérlega hávaxin kona en amma sagði alltaf að það væri ekki hæðin heldur gæðin sem giltu um fólk.

Amma saumaði ansi mörg spor um ævina. Hún framleiddi ýmiss konar tískufatnað á fínar frúr og reyndar einnig brúðarkjóla, jakkaföt, útskriftarföt og alls konar fyrir fátækt barnabarnið, mig, sem var alltaf í pínu uppáhaldi.

Hún gerði bestu sósur í heimi. Ég fékk margsinnis hjá henni uppskriftina en klúðraði sósugerðinni jafnoft. Það vantaði einhver gæði sem bara amma hafði. Og margoft sauð hún ekta súkkulaðidrykk sem ég kallaði alltaf kakó en var jafnharðan leiðréttur.

Hún sagði gamansögur af sjálfri sér og hló. Eins og þegar hún hélt að bílnum hennar hefði verið stolið. Þá sá hún stolna bílinn í umferðinni og ákvað að elta – alveg þangað til hún áttaði sig á því að hún sat í bílnum sínum að elta meintan bílþjófinn.

Hún sagði líka oft frá færeyska skútuskipstjóranum, afa sínum, sem sigldi á skonnortu og reykti pípu. Og þegar bandaríski sjóherinn sótti hana barnunga á sjóflugvél til Patreksfjarðar því hún þurfti að komast undir læknishendur og allir vegir voru ófærir. Þar munaði minnstu að hún kveddi þessa veröld.

Amma var mjög vinsæl og félagslynd. Mér eru minnisstæðar gönguferðirnar með ömmu í gegn um göngugötuna á Akureyri. Það tók allan daginn að komast á milli húsa því amma þekkti alla og komst mesta lagi eitt skref áfram áður en hún rakst á næsta viðmælanda.

Við amma vorum góðir vinir og það voru forréttindi að fá að eiga ömmu Höllu í yfir 40 ár. Konu sem ólst upp á stríðsárum og umbrotatímum svo órafjarri nútímanum.

Hvíl í friði elsku amma.

Óli Þór Jónsson.

Góð vinkona og einstök hjálparhella, Halla Guðmundsdóttir, er kvödd í dag.

Mér var bent á Höllu á árinu 1996 þegar mig vantaði aðstoð með fötin mín.

Auk vinnu minnar við Tónlistarskólann, í Sinfóníuhljómsveitinni og með Kammersveit Reykjavíkur var ég nú ráðherrafrú. Þetta kallaði á margar samkomur, veislur og ferðir sem ég tók þátt í og vildi vera vel klædd.

Halla tók hverju erindi mínu af einstökum áhuga og gleði. Það var sama hvort um lagfæringar var að ræða, að þrengja eða víkka föt, eða að hanna flíkur frá grunni. Ég átti stundum leið um London og fór í fínar efnabúðir til að kaupa efni. Halla var listakona og fannst gaman að fá slík verkefni. Hún var mikill fagurkeri og tók einlægan þátt í að hjálpa mér að vera vel til fara. Halla hannaði á mig marga síðkjóla og dragtir og verður hennar aðstoð við mig í þessum efnum fyrir þúsaldamótin 1999-2000 og alla tíð ógleymanleg. Hún útbjó marga klæðnaði handa mér fyrir hátíðarhöldin hér á landi og víðs vegar erlendis þar sem ég var ýmist með félögum mínum í tónleikaferðum eða með eiginmanni mínum í opinberum ferðum.

Hún hjálpaði líka til með konsertfötin bæði fyrir mig og vinkonur mínar í Kammersveitinni því allar vildum við vera fínar á tónleikum okkar hvort sem það var í Áskirkju, Listasafni Íslands eða á ókunnum slóðum erlendis.

Ég minnist Höllu í saumaherbergi hennar á Skúlagötunni, alltaf brosandi, hugmyndarík, styðjandi og full áhuga á næsta kjól.

Blessuð sé minning hennar.

Rut Ingólfsdóttir.