Á sama tíma og ýmsir ræða enn fjálglega um borgarlínu og tengda sóun í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins birti Strætó bs. enn eitt hörmulegt uppgjör sitt. Um áramót var eigið fé fyrirtækisins nokkrar milljónir króna, en um mitt þetta ár var eigið fé þess orðið neikvætt um 133 milljónir króna.

Á sama tíma og ýmsir ræða enn fjálglega um borgarlínu og tengda sóun í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins birti Strætó bs. enn eitt hörmulegt uppgjör sitt. Um áramót var eigið fé fyrirtækisins nokkrar milljónir króna, en um mitt þetta ár var eigið fé þess orðið neikvætt um 133 milljónir króna.

Þetta gerist þrátt fyrir að eigendur Strætó bs., sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, hafi ítrekað á undanförnum misserum samþykkt verulega aukin framlög til starfseminnar.

Í skýrslu stjórnar sem fylgir árshlutareikningnum segir að með þessum auknu framlögum hafi rekstrarhæfi Strætó af reglulegri starfsemi verið tryggt, „en þó einungis til skamms tíma“. Þar segir enn fremur að styrkja þurfi fjárhaginn til framtíðar og þurfi „eigendur og ríki að leita allra leiða til að bæta reksturinn“.

Þessir aðilar greiddu á fyrri helmingi ársins vel á fjórða milljarð króna til strætisvagnaþjónustunnar og jókst framlag sveitarfélaganna um hátt í sex hundruð milljónir á milli ára en framlag ríkisins var óbreytt, tæpur hálfur milljarður króna.

Hvernig má það vera að þeir, sem ekki gengur betur að reka eitt hefðbundið strætisvagnakerfi, ætli sér að bæta öðru risakerfi ofan á? Væri ekki nær að reyna að auka nýtingu og hagkvæmni í þessu kerfi?