Markahrókur Sóknarmaðurinn Emil Atlason, leikmaður ágústmánaðar að mati Morgunblaðsins, hefur farið mikinn á tímabilinu og skorað 14 mörk í 16 leikjum fyrir Stjörnuna í Bestu deildinni í knattspyrnu.
Markahrókur Sóknarmaðurinn Emil Atlason, leikmaður ágústmánaðar að mati Morgunblaðsins, hefur farið mikinn á tímabilinu og skorað 14 mörk í 16 leikjum fyrir Stjörnuna í Bestu deildinni í knattspyrnu. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Eins og er þá er ég bara þokkalega sáttur við mína frammistöðu. Það var mitt markmið að koma vel inn í þetta aftur eftir erfið meiðsli,“ sagði knattspyrnumaðurinn Emil Atlason, sóknarmaður Stjörnunnar og leikmaður ágústmánaðar samkvæmt M-gjöfinni, í samtali við Morgunblaðið

Bestur

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@@mbl.is

„Eins og er þá er ég bara þokkalega sáttur við mína frammistöðu. Það var mitt markmið að koma vel inn í þetta aftur eftir erfið meiðsli,“ sagði knattspyrnumaðurinn Emil Atlason, sóknarmaður Stjörnunnar og leikmaður ágústmánaðar samkvæmt M-gjöfinni, í samtali við Morgunblaðið.

Emil, sem er þrítugur, meiddist illa í leik með Stjörnunni gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í Bestu deildinni undir lok ágúst á síðasta ári. Hann gat engan þátt tekið í undirbúningstímabili Garðbæinga í vor en sneri aftur á völlinn í sjöundu umferð Bestu deildarinnar í ár. Emil kom þá inn á í 4:0-sigri á ÍBV í Garðabænum.

Síðan þá hefur sóknarmaðurinn raðað inn mörkum, er kominn með 14 mörk í 16 deildarleikjum og er markahæsti leikmaður deildarinnar, þremur mörkum fyrir ofan næstu menn. Nikolaj Hansen og Birnir Snær Ingason hjá Víkingi úr Reykjavík og Tryggvi Hrafn Haraldsson úr Val hafa allir skorað 11 deildarmörk á tímabilinu.

Að líða vel skiptir miklu máli

Spurður hver lykillinn að góðu gengi Emils í sumar væri sagði hann andlega þáttinn skipta höfuðmáli.

„Ég myndi segja að það tengist hausnum. Það að líða vel skiptir miklu máli. Ég myndi segja að það væri lykillinn að því.“

Á síðasta tímabili skoraði Emil 11 mörk í 19 deildarleikjum áður en hann meiddist. Er tímabilið í ár það besta á ferlinum hjá Emil?

„Já, ég myndi alveg segja það, allavega eins og er,“ sagði hann.

Smellpassar allt saman

Eftir afar brösuglega byrjun hjá Stjörnunni í sumar var þjálfarinn Ágúst Þór Gylfason látinn taka pokann sinn og aðstoðarþjálfari hans, Jökull I. Elísabetarson, tók við starfinu. Undir stjórn Jökuls hefur gengið vel, Stjarnan unnið sig upp í fjórða sæti og er komin í baráttu um Evrópusæti.

Er Emil var spurður hvað hefði valdið þessari miklu umbreytingu í spilamennsku liðsins á síðari hluta tímabilsins sagði hann:

„Ég myndi segja að það sé viljinn í liðinu til þess að gera betur og læra. Við erum líka þéttur hópur og náum vel saman, eldri og ungu strákarnir. Þetta smellpassar einhvern veginn allt saman.

Það er mikill vilji hjá öllu liðinu til þess að gera betur. Að taka hvern leik fyrir sig, rýna í hvern leik fyrir sig og andstæðingana.“

Frábært að vera kominn með fjórtán mörk

Hvert er stefnan sett hjá liðinu úr þessu?

„Það var þannig séð engin stefna sett. Við erum á ákveðinni vegferð í því að taka hvern leik fyrir sig og það er bara búið að ganga helvíti vel eins og er.

Við erum einhvern veginn ekkert að setja okkur einhver eiginleg markmið, heldur bara að reyna að bæta okkur eftir hvern leik,“ sagði Emil.

Spurður hvort hann stefni að því að vera markakóngur sagði hann:

„Markmiðið er náttúrlega að reyna að gera sem best fyrir liðið og ef það er að skora mörk þá reyni ég að gera það eins mikið og ég get.

Stefnan var svo sem aldrei sett á markakóngstitilinn, stefnan var alltaf að hjálpa liðinu sem mest, en nú er ég kominn í 14 mörk og það er bara frábært.“

Ekki mikið að flækja hlutina

Er talið barst að framtíðinni og frekari persónulegum markmiðum, til að mynda hvað varðar atvinnumennsku og/eða að leika sinn fyrsta A-landsleik, kvaðst Emil ekki velta sér of mikið upp úr því sem ekki er enn orðið.

„Það verður að koma í ljós. Ég er svolítið mikið í núinu og er ekkert mikið að flækja hlutina fyrir mér. Ég er meira í núinu. Ef eitthvað gerist þá gerist það og ég tek því bara þannig,“ sagði hann að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Af miklum knattspyrnuættum

Emil er af miklum knattspyrnuættum en faðir hans er Atli Eðvaldsson heitinn. Atli lék 70 landsleiki fyrir Ísland, var um skeið leikjahæsti landsliðsmaður Íslands og fyrirliði liðsins lengi vel. Þá þjálfaði hann karlalandsliðið frá 2000 til 2003.

Systkini Emils eru þau Egill, Sara og Sif og eiga þau öll að baki leiki í efstu deild hér á landi. Egill á að baki 47 leiki í efstu deild með KR, Fram og Víkingi úr Reykjavík. Sara á að baki 19 leiki í efstu deild með FH.

Þá á Sif að baki 132 leiki í efstu deild með FH, Val og Selfossi, þar sem hún leikur enn. Lék Sif auk þess 90 A-landsleiki fyrir Ísland frá 2007 til 2022 ásamt því að fara á fjögur stórmót með landsliðinu.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson