Sigurmark Olga Sevcova fagnar sigurmarki ÍBV í gærkvöldi með Viktoriju Zaicikovu, en þær eru liðsfélagar hjá ÍBV og lettneska landsliðinu.
Sigurmark Olga Sevcova fagnar sigurmarki ÍBV í gærkvöldi með Viktoriju Zaicikovu, en þær eru liðsfélagar hjá ÍBV og lettneska landsliðinu. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Selfoss er fallið úr Bestu deild kvenna í fótbolta eftir 1:2-tap gegn ÍBV í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Leikur Selfoss því í 1. deildinni í fyrsta sinn frá árinu 2017 á næstu leiktíð

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Selfoss er fallið úr Bestu deild kvenna í fótbolta eftir 1:2-tap gegn ÍBV í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Leikur Selfoss því í 1. deildinni í fyrsta sinn frá árinu 2017 á næstu leiktíð.

Kvöldið byrjaði vel fyrir Selfoss, því Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skoraði fyrsta markið strax á fjórðu mínútu. Olga Sevcova, besti leikmaður ÍBV undanfarin ár, sýndi hins vegar hvers hún er megnug, því hún jafnaði á 15. mínútu og skoraði svo sigurmarkið á 87. mínútu.

Selfoss er með ellefu stig, sjö stigum á eftir Keflavík, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af neðri hlutanum. Með sigrinum fór ÍBV upp í 21 stig og er nú þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Ekki er hægt að segja annað en að Selfoss hafi átt skilið að falla. Liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki af 19 og tapað fjórum síðustu, þegar allt er undir. Í leikjunum nítján hefur Selfoss aðeins skorað ellefu mörk. Áðurnefnd Áslaug Dóra er markahæst Selfyssinga á leiktíðinni með þrjú mörk, en hún er miðvörður. Það segir allt sem segja þarf um tímabil Selfoss til þessa.

Átti að blása til sóknar

Er að sjálfsögðu um sorglega niðurstöðu fyrir Selfoss að ræða, sérstaklega í ljósi þess að blása átti til sóknar þar í bæ. Hin margreynda landsliðskona Sif Atladóttir samdi við félagið og þjálfarinn Björn Sigurbjörnsson fékk það hlutverk að taka næsta skref hjá félaginu. Það fór hins vegar allt í baklás og fall er niðurstaðan, fjórum árum eftir að liðið varð bikarmeistari.

Sigurinn er risastór fyrir ÍBV, þar sem liðið er nú þremur stigum fyrir ofan fallsæti og með fimm mörkum betri markatölu en Keflavík. Liðinu nægir líklega jafntefli í leik liðanna í Keflavík á laugardaginn kemur.