Mikilvægi Anna María Bogadóttir segir að Iðnaðarbankahúsið hafi verið byggt af metnaði og vandvirkni.
Mikilvægi Anna María Bogadóttir segir að Iðnaðarbankahúsið hafi verið byggt af metnaði og vandvirkni. — Morgunblaðið/Hallur Hallsson
Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu 12 var reist á árunum 1959-1964. Húsið var í stíl fúnksjónalisma, fimm hæða musteri Mammons sem hýsti Iðnaðarbankann og arftaka hans þar til það var rifið rúmum fimmtíu árum eftir reisugillið og jarðsett í…

Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu 12 var reist á árunum 1959-1964. Húsið var í stíl fúnksjónalisma, fimm hæða musteri Mammons sem hýsti Iðnaðarbankann og arftaka hans þar til það var rifið rúmum fimmtíu árum eftir reisugillið og jarðsett í Bolaöldum í hlíðum Vífilfells og víða í Reykjavík og Kópavogi, aukinheldur sem timbrið var brennt á Grundartanga, járnið brætt í Evrópu og afgangurinn grafinn í Álfsnesi.

Arkitektinn Anna María Bogadóttir fór að fylgjast með niðurrifinu, eins og hún rekur í bókinni Jarðsetning, en hún gerði einnig heimildarmynd um niðurrifið og innsetningar. Hún segist ekki alveg gera sér grein fyrir því af hverju hún varð svo upptekin af húsinu og niðurrifi þess, en hún hafi leyft sér að fara inn í ferlið og fylgja þessari tilfinningu, öðrum þræði til að átta sig á hvað það var sem hreif hana við húsið og niðurrif þess.

„Byggingarnar okkar endurspegla okkur sem einstaklinga og sem samfélag og mér fannst þessi bygging endurspegla mig á ákveðinn hátt og kannski þetta velferðarsamfélag sem ég er sprottin upp úr og þetta tímabil. Þessi bygging er reist í byrjun sjöunda áratugarins og má kannski segja að ég hafi alist upp í tíðarandanum sem þessi bygging felur í sér.

Ég varð þó kannski ekki upptekin af byggingunni sjálfri heldur af örlögum hennar, að það ætti að fara rífa hana. Einnig það að þetta er ekki bara einhver bygging, þetta er banki í miðborginni og banki iðnaðarins og mér sem arkitekt fannst hún táknræn á margan hátt og leyfi mér síðan að fara í þetta ferðalag.

Ég kem úr akademíunni en hef líka unnið listrænt með arkitektúr og fór að máta ólíka miðla, en bókarformið reyndist vera gjöfult til að geta spunnið þessa sögu og fléttað saman ólíkum tímaskeiðum og ólíkum viðfangsefnum í knöppu formum.“

Draumarnir eru mikilvægir

– Nú er ég slatta eldri og upplifi þennan banka kannski öðruvísi en þú. Á sínum tíma var þetta hús eins og draumur um nýtt samfélag sem hlutgerðist ekki því að samfélagið fór svo bara einhverja allt aðra leið.

„Já, það er þessi draumur og draumarnir eru mikilvægir og endurspeglast í því sem við byggjum, það að við trúum á eitthvað. Byggingin var brot úr draumi, því raunverulega átti öll miðborg Reykjavíkur að verða sambærileg þessari byggingu, það átti að rífa allt sem fyrir var og við áttum að taka stórt stökk inn í framtíðina með módernískum arkitektúr. Ein af ástæðunum fyrir að ekki tókst að raungera þessar miklu áætlanir var að það var ekki til fjármagn og svo líka viðbragð á Íslandi og alþjóðlega við þessum módernisma, að þótt hann væri framsækinn og jákvæður og á forsendum fólksins gengi hann líka mikið á auðlindir og gengi líka á söguna.“

Anna María segir að sérhver áratugur í sögunni sé mikilvægur og það verði að gæta að því að skola honum ekki öllum út. „Þess vegna hef ég oft nefnt það að þessi bygging verður fórnarlamb eigin hugmyndafræði með því að rífa sjálfa sig, þeirrar hugmyndafræði að við þurfum alltaf að verða hraðari og skilvirkari og fljótari, en hugmyndin var á sama tíma að hún myndi aldrei verða rifin.

Þessi bygging var líka byggð
af metnaði og vandvirkni. Það var lagt mikið í hana og að henni
komu helstu handverksmenn,
enda var þetta banki iðnaðarins og mér fannst mikilvægt að ávarpa þessa vandvirkni og mikilvægi hússins fyrir iðnaðarsamfélagið í landinu.

Í raun er þessi bók samtal mitt við þessa byggingu af því að hún opnar svo margar gáttir; inn í samfélag okkar hér, inn í alþjóðlega strauma, inn í byggingarefni og inn í arkitektúr og byggingarlist og framþróun og inn í allan þann tíma sem þessi bygging var með okkur. Núna þegar maður fer um Lækjargötuna þá er byggingin horfin og minning er svo fljót að hverfa í borgarlandinu.“

Við þurfum að elska húsin okkar og umhverfi

– Eftir því sem frásögninni miðar fram í bókinni verður þú alltaf ósáttari og ósáttari við að húsið hafi verið rifið.

„Mér finnst náttúrlega rosalega mikil sóun í því að rífa hús og við erum komin á þann stað í samtímanum að við getum ekki leyft okkur að rífa hús. Framsæknasta svarið í arkitektúr í dag er að hætta að rífa. Þú getur komið með endalaust mikið af teikningum að nýjum húsum, en það framsæknasta og mikilvægasta er að hætta að rífa hús.

Ég er alltaf að vaxa í sannfæringu með það og líka að ef við rífum hús þá hvernig hægt sé að endurnýta byggingarefnið: þarna er gler, þarna er timbur, þarna er ál, allt þetta efni og þetta er bara eitt hús af mýmörgum.

Við erum steypuþjóð og með aðgang að því byggingarefni, en það er rosalega erfitt að endurvinna steypu og þess vegna þurfum við að passa rosalega vel upp á hana. Þá komum við líka að því að það er ekki nóg að byggja og reisa, það er líka allt viðhaldið og lífið í byggingunum. Við þurfum að elska húsin okkar og umhverfið okkar og passa vel upp á þau.

Núna er mikið talað um myglu og há prósenta af skólum landsins er mygluð. Því er verið að tala um að það þurfi að endurgera steypuna og ég held að við getum lært mjög mikið af torfbæjararfinum því þar var viðtekið að torfið er lifandi efni sem það þarf að endurnýja. Í raun og veru má segja það sama um steypuna, hana þarf að endurnýja og hana þarf að passa, hún er ekki það viðhaldsfría efni sem draumur okkar hefur beinst að.“