[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pálmi Rafn Pálmason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Pálmi Rafn tók við starfinu til bráðabirgða af Perry Maclachlan í lok júlí en tókst ekki að koma í veg fyrir fall liðsins úr 1

Pálmi Rafn Pálmason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Pálmi Rafn tók við starfinu til bráðabirgða af Perry Maclachlan í lok júlí en tókst ekki að koma í veg fyrir fall liðsins úr 1. deild niður í 2. deild, þriðju efstu deild. Hann fær hins vegar það verkefni að koma liðinu aftur upp í næstefstu deild.

Spánverjinn Carlos Martin Santos hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Selfoss í handknattleik karla og verður því þjálfaranum Þóri Ólafssyni innan handar í vetur. Ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks mun Santos taka að sér þjálfun 3. flokks og U-liðs karla. Hann var þjálfari Harðar frá Ísafirði á síðasta tímabili, því fyrsta hjá liðinu í efstu deild, en lét af störfum í sumar eftir að hafa ekki tekist að forða Ísfirðingum frá falli.

Serbía og Bandaríkin tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts karla í körfubolta með sannfærandi sigrum. Serbía vann Litháen, 87:68, og Bandaríkin burstuðu Ítalíu, 100:63. Bogdan Bogdanovic, leikmaður Atlanta Hawks í NBA-deildinni, skoraði mest fyrir Serbíu, eða 21 stig. Filip Petrusev, leikmaður Philadelphia 76ers í sömu deild, var skammt undan með 17 stig. Mikal Bridges, leikmaður Brooklyn Nets, var stigahæstur hjá Bandaríkjunum með 24 stig. Tyrese Haliburton úr Indiana Pacers var með 18. Simone Fontecchio, leikmaður Utah Jazz, skoraði 18 fyrir Ítalíu.

Knattspyrnumaðurinn bráðefnilegi, Evan Ferguson, hefur neyðst til þess að draga sig úr írska landsliðshópnum fyrir komandi verkefni í undankeppni EM 2024 vegna meiðsla. Ferguson fór á kostum um liðna helgi og skoraði þrennu fyrir Brighton í 3:1-sigri á Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni. Hann meiddist á hné í leiknum og leikur því ekki með Írum gegn Frökkum og Hollendingum í undankeppninni.

Spænska knattspyrnufélagið Villarreal hefur vikið Quique Setién úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins eftir dræma byrjun á tímabilinu. Villarreal hefur unnið einn leik og tapað þremur í fyrstu fjórum leikjum í spænsku 1. deildinni og þótti forsvarsmönnum félagsins nóg um.

Mikael Neville Anderson og Willum Þór Willumsson tóku ekki þátt í æfingu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Mainz í Þýskalandi í gær. Fótbolti.net greindi frá. Voru þeir báðir að glíma við smávægileg veikindi. Íslenska liðið mætir Lúxemborg í Lúxemborg í J-riðli undankeppni EM 2024 á föstudaginn kemur en Willum Þór tekur út leikbann í leiknum og verður því ekki með. Liðið mætir svo Bosníu á Laugardalsvelli, mánudaginn 11. september, en liðið undirbýr sig fyrir leikinn gegn Lúxemborg í Mainz og heldur svo til Lúxemborgar á morgun.