40 ára Elín Birna fæddist í Reykjavík og bjó fyrst í Reykjavík og á Akureyri. Fjölskyldan bjó síðan í Borås í Svíþjóð 1989-1995 og flutti síðan aftur til Íslands og bjó þá í Seljahverfi. Eftir stúdentspróf frá MR fór Elín í verkfræði við Háskóla…

40 ára Elín Birna fæddist í Reykjavík og bjó fyrst í Reykjavík og á Akureyri. Fjölskyldan bjó síðan í Borås í Svíþjóð 1989-1995 og flutti síðan aftur til Íslands og bjó þá í Seljahverfi. Eftir stúdentspróf frá MR fór Elín í verkfræði við Háskóla Íslands en tók líka pásu frá námi í eitt ár og ferðaðist um Mið- og Suður-Ameríku. Eftir að hafa klárað verkfræðinámið fór hún í framhaldsnám til Gautaborgar í Chalmers University of Technology í vöruþróun innan vélaverkfræðinnar.

Elín Birna flutti síðan nýlega til Íslands ásamt manni sínum og börnum og hóf störf hjá tæknifyrirtækinu Nox Medical í apríl síðastliðnum. „Starfsheiti mitt er „technical writer“ og „System engineering“-teymið sem ég er í hjá Nox, í þróunardeildinni, er meðal annars að sjá til þess að skjalfesta þróunarvinnuna og að varan sem við þróum sé að gera það sem við viljum og sé örugg, þ.e. fylgi alþjóðlegum stöðlum og reglugerðum.

Ég var búin að vinna í heilbrigðistækninni í Svíþjóð síðustu tíu árin, var að þróa tannskrúfur, þ.e. títaníumskrúfur, og heyrnartæki sem eru boruð inn í höfuðkúpuna og var í öllum hluta þróunarinnar, hef m.a. gert teikningar og prófanir. Ég byrjaði að vinna hjá Nox því mig langar að taka þátt í að bæta heilsu og auka lífsgæði fólks með betri svefni.“

Áhugamál Elínar eru lestur, jóga, hugleiðsla, hreyfing og að vera með vinum. „Númer eitt er samt að vera með fjölskyldunni. Ég tók jógakennarapróf fyrir nokkrum árum en hef ekki haft tíma til að nýta það undanfarið. Svo finnst mér gaman að skrifa fyrir sjálfa mig. Ég ætlaði að verða rithöfundur þegar ég var lítil en svo hentar mér vel verkfræðin. Mér finnst alltaf gaman að skrifa og hef verið að reyna að byrja á því aftur.“

Fjölskylda Eiginmaður Elínar er Elfar Hrafn Árnason, f. 1983, hagfræðingur og vinnur hjá fjármálaráðuneytinu. Dætur þeirra eru Lóa Katrín, f. 2019, og Heiðrún Arna, f. 2021. Foreldrar Elínar eru Anna Guðný Björnsdóttir, f. 1958, hjúkrunarfræðingur í Blóðbankanum, og Gunnar Kristinn Guðmundsson, f. 1957, endurhæfingarlæknir.