Við Grafarlandaá Hrönn á leiðinni að Herðubreiðarlindum.
Við Grafarlandaá Hrönn á leiðinni að Herðubreiðarlindum. — Ljósmynd/Margrét Ólöf Ívarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útivist byrjaði árið 2016 að bjóða upp á ferðir í áföngum landshorna á milli, svokallaðar krossferðir, og lauk verkefninu í sumar. „Ég var ánægð sem leiðsögumaður með að fá svona verkefni upp í hendurnar,“ segir Hrönn Baldursdóttir, leiðsögumaður í ferðunum

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Útivist byrjaði árið 2016 að bjóða upp á ferðir í áföngum landshorna á milli, svokallaðar krossferðir, og lauk verkefninu í sumar. „Ég var ánægð sem leiðsögumaður með að fá svona verkefni upp í hendurnar,“ segir Hrönn Baldursdóttir, leiðsögumaður í ferðunum. „Það er frábært að hafa náð að ljúka þessu og nú er hægt að setja sér ný markmið.“

Sumrin 2016 til 2019 var áfanginn kallaður „Horn í horn“ og gengið í áföngum frá Eystrahorni að Hornvík, um 780 km leið á 33 göngudögum. 2020 hófst áfanginn „Langleiðin“. Gengið var frá Fonti á Langanesi að Reykjanestá á Reykjanesi, um 740 km á 34 göngudögum. Ferðirnar voru yfirleitt í sex til níu daga. Ákveðinn hópur tók þátt í öllum göngunum en aðrir völdu sér sérstaka leggi. Alls gengu 16 til 24 hvern legg, flestir frá höfuðborgarsvæðinu og flestir á aldrinum 50 til 65 ára. Hrönn segir að Útivist hafi áður skipulagt ferðir frá Reykjanesi að Langanesi og í kjölfarið hafi þátttakendur í þeim viljað fá skipulagðar ferðir frá suðausturhluta landsins til Vestfjarða. „Þá vantaði leiðsögumann og ég var til.“

Ganga og jóga

Hrönn hefur verið náms- og starfsráðgjafi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í mörg ár. Jafnframt unnið sjálfstætt sem jógakennari, rekið ráðgjafarþjónustuna Þína leið (thinleid.is), þar sem hún er m.a. með jógagönguferðir og hugleiðslunámskeið, og er hokin af reynslu þegar kemur að gönguferðum, fór til dæmis 50 sinnum á Esjuna á árinu þegar hún varð fimmtug. „Ég hef verið með göngubakteríuna frá því ég var unglingur,“ segir hún. „Ég hef gengið vítt og breitt í yfir 30 ár og verið gönguleiðsögumaður síðan 2011.“ Segir að það hafi verið eðlileg þróun. „Maður gengur af sér vini og ættingja þegar maður er með þessa bakteríu á háu stigi.“ Bætir við að hún hafi líka nýtt jóga úti í náttúrunni til að fá fólk til að líta sér nær og hugsa um hvert það stefni. „Það er gaman og gagnlegt að tengja þetta saman.“

Það er meira en að segja það að „krossa“ landið með fyrrgreindum hætti, þótt farangurinn sé fluttur á milli áfangastaða í bíl, eins og var í flestum tilfellum í umræddum ferðum. Að mörgu þarf að gæta og gott skipulag því mikilvægt. „Erfiðustu leggirnir voru á miðhálendinu,“ segir Hrönn og nefnir sérstaklega Þjórsársvæðið. Gera þurfi ráð fyrir hugsanlegri breytingu á skipulaginu og hafa varaáætlun tilbúna. Ár geti breytt sér með skömmum fyrirvara og reglulega þurfi að taka stöðuna og bregðast við breytingum í veðri og öðru, því öryggið sé fyrir öllu. „Það tók okkur samtals 33 daga að fara hvora leið og við gengum venjulega 20 til 25 kílómetra á dag.“

Hrönn segir að svona ganga sé í raun mjög góð fyrir líkama og sál. Gott sé að taka sér frí frá öðru og njóta þess að vera úti í náttúrunni. Hún hafi upp á svo mikið að bjóða, fjölbreytnin í íslenska landslaginu sé mikil og gaman sé að koma á nýja staði auk þess sem alltaf sé gott að setja sér markmið og ná settu marki. „Þetta er einfalt líf, ekkert net, kjörin leið til að kúpla sig frá daglegu amstri.“

Útivist stefnir á að halda myndasýningu frá ferðunum í vetur og Hrönn segir að stefnt sé að því að bjóða „Horn í horn“-gönguferðir næsta sumar. „Fólk sem tók aðeins þátt í „Langleiðinni“ hefur sýnt áhuga á að fara fyrri hlutann og svo eru alltaf einhverjir sem vilja prófa eitthvað nýtt.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson