Það getur verið erfitt fyrir íslensk fyrirtæki að ná til alhliða fjárfesta á erlendum mörkuðum.

Hlutabréfamarkaðir

Baldur Thorlacius

Framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla Nasdaq Iceland

Fjárfestum er stundum skipt í alhliða (e. generalist) og sérhæfða (e. specialist) fjárfesta. Sérhæfðir fjárfestar búa yfir mikilli þekkingu á tilteknum sviðum, eins og til dæmis líftækni eða gervigreind, og leggja áherslu á fjárfestingar sem tengjast þeim. Alhliða fjárfestar leita aftur á móti uppi góð tækifæri þvert á svið eða atvinnugreinar.

Það er oft lögð mikil áhersla á að ná til sérhæfðra fjárfesta, sérstaklega í vaxtarfyrirtækjum, þar sem þekking þeirra og tengslanet er talið geta hjálpað fyrirtækjunum að ná árangri. Sökum smæðar íslenska markaðarins eru þeir því miður af skornum skammti hér á landi. Þetta hefur oft verið talið veikleiki og fyrir vikið hafa mörg vænleg fyrirtæki í fjármögnunarhugleiðingum horft til erlendra markaða.

En grasið er ekki alltaf grænna hinum megin við lækinn. Í könnun sem Nasdaq framkvæmdi meðal fjárfestatengla á heimsvísu (Nasdaq Global IR Pulse Report 2022) kom fram að ein stærsta áskorunin sem fjárfestatenglar stóðu frammi fyrir var að þeir áttu erfitt með að ná til alhliða fjárfesta.

Þetta kemur líklega mörgum á óvart. Þrátt fyrir ofuráherslu margra á sérhæfða fjárfesta gegna alhliða fjárfestar áfram mjög mikilvægu hlutverki. Þeir geta til að mynda komið með mjög verðmæta þekkingu að borðinu, þótt hún snúi ekki að einhverju afmörkuðu sviði. Þeirra hlutverk er að styðja við sýn frumkvöðlanna og hjálpa þeim að kljást við aðrar áskoranir sem fylgja því að vaxa og styrkja reksturinn, svo sem í tengslum við stjórnarhætti og fjármál. Á þeim sviðum þarf almenna, frekar en sérhæfða, þekkingu og reynslu.

Alhliða fjárfestar geta stuðlað að lægri fjármagnskostnaði

Það getur einnig verið vandasamt að vera með of stóran hóp sérhæfðra fjárfesta, sem hver um sig hefur sterkar skoðanir á því hvernig reka eigi fyrirtækið. Of margir kokkar í eldhúsinu. Oft snýst þetta því um að vera með gott jafnvægi í hluthafahópnum. Sérhæfða fjárfesta í bland við alhliða. Á almenningshlutabréfamörkuðum stuðla alhliða fjárfestar einnig að bættum seljanleika og geta því bæði lækkað fjármagnskostnað og hjálpað til við að laða að fleiri fjárfesta (þar á meðal sérhæfða fjárfesta).

Það getur verið erfitt fyrir íslensk fyrirtæki að ná til alhliða fjárfesta á erlendum mörkuðum. Sérhæfðu fjárfestarnir þekkja mögulega til þeirra, en þeir almennu leita oft í það sem stendur þeim næst – fyrirtæki sem eru þekkt vörumerki, eru með starfsstöðvar nálægt fjárfestunum eða hafa einhverjar aðrar tengingar við þá. Þetta er ein ástæða þess að öflugur innlendur hlutabréfamarkaður er gríðarlega mikilvægur fyrir atvinnulífið. Íslenskir fjárfestar eru líklegri til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum.

Nýlega tilkynnti Icelandic Salmon (Arnarlax) um að félagið hygðist sækja um skráningu á íslenska Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn. Um væri að ræða svokallaða tvískráningu, en félagið er þegar skráð á hlutabréfamarkað í Noregi.

Arnarlax stefnir því á að verða fimmta félagið á íslenska markaðnum til að vera skráð á fleiri en einn hlutabréfamarkað, en fyrir eru Arion banki (einnig skráður í Svíþjóð), Marel (í Hollandi), Alvotech (í Bandaríkjunum) og Amaroq Minerals (í Bretlandi og Kanada).

Tvískráning hefur gert þessum félögum kleift að ná til sérhæfðra fjárfesta á erlendum mörkum en á sama tíma hafa þau notið góðs af öflugum stuðningi alhliða fjárfesta á íslenska markaðnum. Þróunin í hlutabréfaveltu þessara fyrirtækja er til marks um þetta, en í öllum tilfellum hefur veltan á íslenska markaðnum verið meiri en, eða á pari við, veltuna á öðrum mörkuðum í ár.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að vera lítill alhliða markaður. Alhliða fjárfestar eru og verða áfram gríðarlega mikilvægir og við munum alltaf bera gott skynbragð á það sem stendur okkur næst. Það vill svo vel til að okkar helsti styrkleiki er ein stærsta áskorun íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum, og öfugt. Tvískráning getur verið góð leið til að sameina þessa kosti.