Emil Atlason, framherji Stjörnunnar, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í ágústmánuði, samkvæmt einkunnargjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni. Emil fékk átta M í fimm leikjum Stjörnumanna og var eini leikmaðurinn í deildinni sem náði þeim fjölda

Emil Atlason, framherji Stjörnunnar, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í ágústmánuði, samkvæmt einkunnargjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.

Emil fékk átta M í fimm leikjum Stjörnumanna og var eini leikmaðurinn í deildinni sem náði þeim fjölda. Hann fékk einu sinni þrjú M fyrir frammistöðu sína, einu sinni tvö M og þrisvar eitt M.

Í leikjunum fimm skoraði Emil sjö mörk, þar af þrennu á móti KR í 20. umferðinni og tvennu gegn Fylki í 19. umferðinni.

Davíð og Birnir næstir

Næstir á eftir Emil voru Davíð Snær Jóhannsson úr FH og Víkingurinn Birnir Snær Ingason með sjö M hvor.

Víkingur úr Reykjavík fékk flest M samtals í ágústmánuði, 39 talsins. Stjarnan fékk 32 M, FH 29, KR 26, KA 24, Breiðablik og Fram 23, Valur, Keflavík og Fylkir 20, ÍBV 19 og loks HK 18 M. FH og KA léku sex leiki, en önnur lið fimm.

Þetta er í fimmta sinn sem leikmaður mánaðar og úrvalslið mánaðar eru kynnt hjá Morgunblaðinu í Bestu deild karla á þessu tímabili. Ísak Andri Sigurgeirsson úr Stjörnunni var bestur í apríl, Pablo Punyed úr Víkingi í maí, Davíð Snær Jóhannsson úr FH í júní og Sami Kamel úr Keflavík í júlí.

Birnir í þriðja sinn

Birnir Snær Ingason er í byrjunarliði mánaðar í þriðja skipti, en hann var þar einnig í maí og júní. Hann var svo á bekknum í liðinu í júlí.

Mathias Rosenörn markvörður Keflavíkur, Davíð Snær Jóhannsson úr FH, Gunnar Vatnhamar hjá Víkingi og Birkir Már Sævarsson hjá Val eru í annað sinn í byrjunarliðinu. Rosenörn var einnig í liðinu í júní, Gunnar í apríl og Birkir í júlí.

Rosenörn var á bekknum í liðinu í apríl og Birkir á bekknum í maí.

Danijel Dejan Djuric er á varamannabekknum í liði mánaðarins í annað skipti, en hann hefur verið í byrjunarliðinu í tvígang sömuleiðis.

Anton Logi Lúðvíksson og Ágúst Eðvald Hlynsson úr Breiðabliki eru í úrvalsliðinu í fyrsta skipti á leiktíðinni, eins og Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson. Þá er Eyjamaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson einnig í liðinu í fyrsta skipti.

 Morgunblaðið gefur einkunnir fyrir alla leiki í Bestu deildum karla og kvenna. Þeir sem eiga góðan leik að mati þess sem skrifar um leikinn á mbl.is fá eitt M, þeir sem eiga mjög góðan leik fá tvö M og þeir sem eiga frábæran leik fá þrjú M fyrir sína frammistöðu í viðkomandi leik.