Mótmæli Konurnar yfirgáfu möstur skipanna á þriðja tímanum í gær.
Mótmæli Konurnar yfirgáfu möstur skipanna á þriðja tímanum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Mótmælendurnir Anahita Babaei og Elissa Biou yfirgáfu möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og 9 á þriðja tímanum í gær. Lögreglu gekk vel að aðstoða konurnar tvær við að komast niður og urðu engin slys, hvorki á lögreglumönnum né mótmælendum

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Mótmælendurnir Anahita Babaei og Elissa Biou yfirgáfu möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og 9 á þriðja tímanum í gær. Lögreglu gekk vel að aðstoða konurnar tvær við að komast niður og urðu engin slys, hvorki á lögreglumönnum né mótmælendum. Þær Babaei og Biou höfðu setið hlekkjaðar við skipin frá því á mánudagsmorgun í þeim tilgangi að mótmæla hvalveiðum Hvals hf. sem eru í þann mund að hefjast.

Eftir að konurnar komu í land var þeim boðið vatn og gos, en síðan voru þær fluttar á brott í lögreglubíl og farið með þær í skýrslutöku. Þá braust út mikill fögnuður meðal stuðningsmanna þeirra, sem klöppuðu ákaft er konurnar gengu af skipinu.

Skip Hvals hf. sigldu úr höfn rétt eftir klukkan fjögur síðdegis í gær. Ráðgert er að halda til veiða á miðunum í dag.

Telja sig hafa bjargað hvölum

Imogen Sawyer, sem stödd er hér á landi á vegum Paul Watson-samtakanna, telur aðgerðir mótmælendanna tveggja sem hlekkjuðu sig við möstur Hvals 8 og 9 við Reykjavíkurhöfn hafa bjargað lífi fjögurra til átta hvala. Hún sagði í samtali við mbl.is í gær að þær Babaei og Biou hefðu unnið mikið þrekvirki.

„Þær hafa verið alveg ótrúlegar,“ sagði Imogen. „Fyrst hélt veðrið hvalveiðimönnum inni, en síðan hafa þær gert það. Hvert þessara skipa getur dregið tvo hvali til baka á einum sólarhring og því hafa þær bjargað fjórum til átta hvölum með því að sitja þarna og mótmæla án þess að beita ofbeldi. Þannig sýndu þær borgaralega óhlýðni til þess að vekja athygli á málstaðnum og í þeirri viðleitni að bjarga hvölunum,“ bætir hún við og segir verknaðinn gífurlega hvatningu fyrir fólk sem reyni að binda enda á hvalveiðar á Íslandi.

Sawyer segir samtökin ekki hyggjast yfirgefa Ísland á næstunni og fer hörðum orðum um Kristján Loftsson framkvæmdastjóra Hvals hf. „Vinnu okkar hér er ekki lokið. Fyrirtæki Kristjáns Loftssonar mun draga dauðar langreyðar upp slippinn við hvalstöðina innan skamms. Hann er spenntur fyrir því að komast út og veiða sinn fyrsta hval [í ár] til að sýna öllum hversu magnaður hann er. Við verðum á staðnum og skrásetjum hvern einasta hval sem kemur upp í slippinn svo við getum haldið áfram að sýna heiminum hvernig hann fer með dýrin. Okkar vinna helst síðan í hendur við vinnu MAST, sem vinnur á skipinu, tekur upp og skjalfestir,“ segir Sawyer.

Sló í átt að lögreglumanni

Þrátt fyrir að engin slys hafi orðið á fólki við Reykjavíkurhöfn í gær kom til minniháttar átaka á milli mótmælanda og lögreglu er kona hljóp inn á lokað svæði blaðamanna. Mótmælandinn, kona að nafni Nic, segist hafa hlaupið inn á svæðið til að koma skilaboðum áleiðis til Babaei, sem hafi verið illa á sig komin í mastri skipsins.

„Anahita virtist stressuð. Hún var að reyna að ná athygli okkar í gegnum hljóðnemann sem hún var með en hann virkaði illa. Þá drógum við þá ályktun að hún væri að reyna að ná athygli Micah, kvikmyndagerðarmanns og maka síns,“ segir Nic, en Micah var þá staddur á lokuðu blaðamannasvæði þar sem hann hlóð myndavélina sína.

Nic segist hafa haft miklar áhyggjur af ásigkomulagi Babaei og hafi hún því brugðið á það ráð að fara inn á blaðamannasvæðið til þess að ná sambandi við hana í gegnum míkrófóninn sem þar var að finna og tjá henni að stutt væri í að eiginmaður hennar gæti komið henni til aðstoðar. Stuttu seinna greip lögreglumaður í handlegg hennar, en við það sló hún í átt til hans.

Í kjölfarið var hún handtekin fyrir að ráðast að lögreglumanni. Hún segist harma atvikið og leggur áherslu á að Paul Watson-samtökin fordæmi allt ofbeldi. „Þessi ósjálfráðu viðbrögð voru ofbeldisfull af minni hálfu og standa samtökin gegn ofbeldi af öllu tagi,“ sagði hún. » 12