Snjallvæðing umferðarljósa væri fyrirhafnarminnsta samgöngubótin

Umferðarteppur eru orðnar áreiðanlegri fyrirboðar hausts í höfuðborginni en krappar lægðir og fölnuð lauf. Um leið og skólarnir hefjast og sumarfríum lýkur þyngist umferðin. Um árabil hefur ekkert verið gert til að bæta ástandið og frekar að reynt hafi verið að gera illt verra. Meira að segja aðgerðir sem hægt væri að ráðast í án mikils tilkostnaðar eru látnar eiga sig.

Í mörg ár hefur verið talað um að hægt væri að draga úr umferðarteppum með snjallvæðingu umferðarljósa. Hún myndi ekki kosta mikið miðað við öll þau umferðarmannvirki, sem komið hafa til umræðu, og væri í raun fyrirhafnarminnsta samgöngubótin.

Snjallvæðing ljósa er ekki gæluverkefni. Í samgöngusáttmálanum er skýrt kveðið á um að snjallvæðing umferðarljósa sé skilyrði og eigi að vera í forgangi.

Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir í viðtali í Morgunblaðinu í gær ekki sé verið að framfylgja því sem standi skýrum stöfum í samgöngusáttmálanum. Augljós tregða sé í kerfinu, bæði hjá talsmönnum borgarlínu og hjá öðrum þeim sem fyrir séu í kerfinu. Í stað snjallljósa séu notuð klukkuljós. Hann vísar í skýrslu þar sem ljósastýring á höfuðborgarsvæðinu er borin saman við fimm aðrar borgir í Evrópu og komi Reykjavík verst út. Ljósin hér séu í lagi og ljósabúnaðurinn, en ekki sé verið að nýta tæknibúnaðinn. Þessu megi líkja við að vera með nýja PC-tölvu en keyra hana með stýrikerfinu Windows 95.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri Reykjavíkurborgar svarar gagnrýni Vilhjálms í blaðinu í dag og segir að ljósin hafi verið snjallvædd og uppfærð. Hún segir þó að „eflaust“ megi bæta afkastagetu ljósakerfisins, en það verði ekki mælt í tugum prósenta.

Það sætir furðu að ekki gangi hraðar að snjallvæða umferðarljósin, einkum og sér í lagi ef allur tæknibúnaður er fyrir hendi eins og Guðbjörg Lilja segir. Eftir því sem betur gengur að losna við kúfana í umferðinni styttist biðtíminn í umferðarteppum hjá almenningi. Það hefur tekið mörg ár að ganga í þetta verk.

Pólitískir ráðamenn í borginni svara ávallt að þeir trúi ekki öðru en að stjórnvöld standi við sitt þegar gagnrýni kemur fram á samgöngusáttmálann. Þeim liggur hins vegar furðu lítið á að standa við sinn hluta. Á meðan bíða borgarbúar á rauðu ljósi.