Sameining Ráðherra tilkynnti sameiningu skólanna á fundi í Hofi í gær.
Sameining Ráðherra tilkynnti sameiningu skólanna á fundi í Hofi í gær. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Klara Ósk Kristinsdóttir klaraosk@mbl.is Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri, ásamt skólameisturum skólanna, á fundi með nemendum og kennurum á Akureyri í gær.

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri, ásamt skólameisturum skólanna, á fundi með nemendum og kennurum á Akureyri í gær.

Ákvörðun um sameininguna var tekin með hliðsjón af skýrslu stýrihóps mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla.

„Niðurstaða stýrihópsins er að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorunum sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu,“ er haft eftir Ásmundi í tilkynningu um sameininguna.

Nemendur gagnrýnir

Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, segir í samtali við blaðið að fundirnir hafi gengið vel í gær, þótt nemendur hafi verið gagnrýnir á sameininguna. Segir hann það þó aðallega hafa verið nemendur menntaskólans, ekki verkmenntaskólans.

„Þetta var mjög réttmæt og málefnaleg gagnrýni. Þau eru hræddust við að það sem menntaskólinn hefur staðið fyrir – venjur, hefðir og öflugt félagsstarf – leggist af,“ segir Karl en bætir við að það sé ekkert sem segi að ekki sé hægt að halda í venjur og hefðir, enda eigi alveg eftir að vinna alla rýni og greina kosti og galla.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, lýsti gangi fundanna með svipuðum hætti og Karl. Hún segir fólk ekki beint hafa haft áhyggjur þótt auðvitað hafi verið uppi gagnrýnisraddir. „Þó ekki þannig að það væri ríkjandi andstaða,“ segir Sigríður og bætir við að kennarar séu jákvæðir fyrir verkefninu miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað innan verkmenntaskólans.

Geta eflt skapandi greinar

Bæði sjá þau tækifæri í sameiningunni. Tækifæri til að efla skólastarf beggja skóla, samþætta nám og kennslu, efla þau svið sem fyrir eru og vonandi búa til ný.

Sigríður segir að með því að tengja námið í skólunum megi efla skapandi greinar og listnám, auk þess að efla tækninám og nám sem býr nemendur ekki einungis undir ákveðin störf heldur einnig í tækniundirbúningi undir háskólanám.

Þá segir Sigríður jafnframt felast tækifæri í því að öflugur kennarahópur geti unnið saman með þann nemendahóp sem er á svæðinu.

Karl segir tækifærin meðal annars felast í því að hægt verði að bjóða nemendum upp á sérhæfðari áfanga og þannig auka val fyrir nemendur, enda auðveldara að tryggja nægilega þátttöku með stærri nemendahóp.

Nefnir hann sem dæmi að nú séu tólf nemendur á málabraut í menntaskólanum og því ætti í raun ekki að vera kennt á brautinni, enda svarar það ekki kostnaði. Þar af leiðandi þurfi nú að sameina námsbrautina annarri braut í skólanum, en að með sameiningunni væri líklegra að hægt væri að halda brautinni gangandi.

Þá segir hann það hafa verið til skoðunar innan skólans að koma þar upp afreksíþróttabraut og nefnir sem dæmi að auðveldara sé að gera það í sameiginlegum skóla.

Næstu vikur og mánuði tekur við vinna hjá skólameisturum beggja skóla við að greina stöðuna og þá kosti sem um ræðir.

Yfirstjórn sameinuð

Sigríður segir verkefnið áskorun fyrir alla en fram undan séu samtöl um þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir. Hún segir þó að „eitthvað sem í dag er erfitt verður það ekki endilega og svo koma líklega upp áskoranir sem ekki hafa verið áskoranir hingað til“.

Karl segist tala fyrir því að byrjað verði á að sameina yfirstjórn og stoðþjónustu skólanna. Í framhaldinu finnst honum síðan mikilvægt að báðir skólar fái að halda sérkennum sínum.

Þó er ekki hægt að segja til um hvenær sameiningunni verður lokið, enda vinnan raunar ekki hafin, segir Karl. Aðspurður segir Karl stefnt á það í framtíðinni að nemendur sæki um í einn skóla og því gæti vel komið til greina að fundið yrði nýtt nafn á sameiginlegan skóla.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir