Spænska knattspyrnusambandið réð í gær Montserrat Tomé sem nýjan landsliðsþjálfara kvennaliðs þjóðarinnar. Tekur hún við af Jorge Vilda, sem var rekinn fyrr um daginn

Spænska knattspyrnusambandið réð í gær Montserrat Tomé sem nýjan landsliðsþjálfara kvennaliðs þjóðarinnar. Tekur hún við af Jorge Vilda, sem var rekinn fyrr um daginn. Tomé var aðstoðarþjálfari spænska liðsins, sem varð heimsmeistari í síðasta mánuði. Hún sagði upp störfum eftir mótið, eins og nánast allt þjálfarateymi Spánar, en hefur nú verið endurráðin. Vilda hefur verið náinn Luis Rubiales, forseta knattspyrnusambandsins, sem hefur verið harðlega gagnrýndur víða fyrir hegðun sína eftir að Spánn varð heimsmeistari.

Knattspyrnumennirnir Davinson Sánchez og Tanguy Ndombele hafa báðir samið við Tyrklandsmeistara Galatasaray. Koma þeir báðir frá enska félaginu Tottenham Hotspur. Sánchez skrifaði undir fjögurra ára samning með möguleika á ári til viðbótar og var keyptur á 8,1 milljón punda. Ndombele skrifaði undir lánssamning sem gildir út tímabilið og hefur Galatasaray forkaupsrétt á honum fyrir 12,8 milljónir punda að samningnum loknum. Báðir voru þeir keyptir á mun hærri upphæðir: Sánchez á 42 milljónir punda sumarið 2017 og Ndombele á 55 milljónir punda árið 2019.

Sylvía Björt Blöndal, markahæsti leikmaður 1. deildar kvenna í handbolta á síðustu leiktíð, leikur ekkert með Aftureldingu á komandi leiktíð þar sem hún er á leiðinni í nám í Danmörku. Handbolti.is greindi frá.