Umferðarljós Ljósin í Reykjavík eru sögð skynja umferðarmagnið.
Umferðarljós Ljósin í Reykjavík eru sögð skynja umferðarmagnið. — Morgunblaðið/Eva Björk
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Þetta er meira og minna samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Eins og ég túlka snjallljós þá hafa snjallljós verið á höfuðborgarsvæðinu í lengri tíma,“ segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri Reykjavíkurborgar í samtali við Morgunblaðið en hún var spurð út í fullyrðingar þess efnis að umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu væri ekki stýrt af svokölluðum snjallljósabúnaði.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þetta er meira og minna samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Eins og ég túlka snjallljós þá hafa snjallljós verið á höfuðborgarsvæðinu í lengri tíma,“ segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri Reykjavíkurborgar í samtali við Morgunblaðið en hún var spurð út í fullyrðingar þess efnis að umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu væri ekki stýrt af svokölluðum snjallljósabúnaði.

„Við erum með miðlæga stýritölvu umferðarljósa þar sem öll ljósin eru tengd, þannig að ég er ekki sammála því að það séu ekki snjallljós á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.

„Við höfum verið að vinna að því með Vegagerðinni og hinum sveitarfélögunum að bæta umferðarljósastýringar. Við fengum erlendan ráðgjafa til að gera úttekt á umferðarljósakerfi höfuðborgarsvæðisins,“ segir Guðbjörg Lilja og bendir á að skýrsla þar um hafi verið kynnt í júní 2020 en þar er um að ræða ráðgjafarfyrirtækið SWECO.

Prógrömmin ekki háð klukku

Segir hún að skýrslan hafi verið ítarleg og búnaður, ferlar og mannskapur sem stendur á bak við rekstur kerfanna hafi verið borin saman við fjórar aðrar borgir í Evrópu.

„Þau ljós sem eru tengd umferðarljósatölvunni eru með fyrirframstillt prógramm á mismunandi tímum sólarhringsins en hvenær skipt er á milli prógramma er ekki háð klukku heldur umferðarmagni. Við erum með umferðarskynjara við öll þessi ljós sem skynja hvert umferðarmagnið er og breyta á milli prógramma eftir því hvort umferðin vex eða minnkar. Til viðbótar við þetta erum við með skynjara sem lengir í grænum tíma fyrir ákveðna strauma ef eftirspurn er en styttir annars,“ segir Guðbjörg Lilja.

Styðjast við „græna bylgju“

Hún segir að umferðarljósin séu þó ekki algerlega umferðarstýrð. Einnig sé stuðst við svokallaða „græna bylgju“ sem gerir það að verkum að leið þeirra sem aka á milli umferðarljósa á löglegum hraða eigi að vera tiltölulega greið, þ.e. að fólk lendi að mestu á grænu ljósi. Í þeim tilvikum þegar umferð er meiri en afkastagetan geti umferðin þó hökt en þess utan virki græna bylgjan vel.

Spurð hvort ekki sé hægt að auka afkastagetu umferðarljósanna meira en orðið er segir Guðbjörg Lilja að eflaust megi gera það en sú afkastageta verði ekki mæld í tugum prósenta. Það kalli þó ekki á fjárfestingu í nýjum búnaði heldur þurfi að endurskoða og yfirfara þær stýringar sem að baki búa. Hún bendir á að sl. sumar hafi verið keyptur nýr búnaður sem settur var upp á Hringbraut og segir að hann sé hluti af umferðarljósahluta samgöngusáttmálans. Segir hún að það sé búnaður sem bjóði upp á enn snjallari stýringu en verið hafi.