Hjónin Ingrid og Einar í Skåne-Tranås í Svíþjóð í ágúst síðastliðnum.
Hjónin Ingrid og Einar í Skåne-Tranås í Svíþjóð í ágúst síðastliðnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Thoroddsen fæddist 6. september 1948 í Stokkhólmi en ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. „Ég hélt áfram með Val þótt ég flytti í Laugarnesið 13-14 ára.“ Snemma varð Einar sterkur og var í sveit góðan hluta 14 sumra

Einar Thoroddsen fæddist 6. september 1948 í Stokkhólmi en ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. „Ég hélt áfram með Val þótt ég flytti í Laugarnesið 13-14 ára.“

Snemma varð Einar sterkur og var í sveit góðan hluta 14 sumra. „Ég byrjaði 6 ára að Nesi í Reykholtsdal hjá úrvalsfólki. Mamma hafði verið á Sturlureykjum og farið á grasafjall með Dísu í Nesi, sem nefnt er í bókinni Dagar við vatnið. Mig dreymdi um að verða atvinnuspjótkastari eftir góðan, að eigin mati, árangur í að kasta hrífusköftum, sem biðu eftir viðgerðum. Ég þreifaði fyrir mér í stangarstökki og pantaði mér bambus í Ellingsen. Fór aldrei hærra en 2,80 enda urðu þar þrautalendingar í frekar fátæklegri sandgryfju.“

Einar vann einu sinni brons á unglingameistaramóti Reykjavíkur í kúluvarpi. „Þeir voru þrír sem kepptu. Ég þótti góður í tennis og skvassi meðan fáir stunduðu íþróttirnar. Ég stunda golf en hef stærðargráðuna 10.000 manns framan við mig þar. Ég vissi á tímabili allt um enska fótboltann og var lengi spilltur af eftirlæti meðan Alex Ferguson stjórnaði Manchester United. Ég bíð nú, eins og Sörli, eftir „vegum fjalla nýjum“.“

Einar kvaðst snemma á við móður sína og systkini. „Aðallega þó Theódóru og Guðmund, Jón var nokkuð yngri. Ég var dálítið eins og skákmaður sem kann byrjanir upp í 14.-15. leik, en fékk alla vega brageyra sem mér finnst að sé ekki öllum gefið enda þarf að æfa það upp. Eins og Nonni bróðir sagði í byggingarvinnunni: „Það vex ekki á trjánum, timbrið.““

Þegar Einar var um tvítugt ætlaði hann að þýða „Buch der Lieder“ eftir Heine. „Ég komst ekki langt en gekk betur næst mörgum áratugum síðar þegar ég þýddi „Deutschland, ein Wintermärchen“ þar sem Heine ferðast um Þýskaland í stiklum og „bloggar“ miskunnarlaust. Áðurnefndur Nonni bróðir setti mig svo í eilífðarverkefni sem var að þýða hinn svokallaða Guðdómlega Gleðileik eftir Dante sem er milli 14.000 og 15.000 ljóðlínur og væntanlega ekki á færi nema hörðustu þverhausa. Er um þessar mundir búinn með Víti (Inferno), Skírnarfjallið (Purgatorio) og rúmar 5 kviður af 33 í Paradís.“

Einar lauk stúdentsprófi frá MR 1968 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1975. Hann fór í framhaldsnám til Svíþjóðar og hitti þar konu sína, Ingridi. Þau giftust á Þingvöllum 22. september 1990. „Ég fór í háls-, nef- og eyrnalækningar og skrölti þar enn. Mér fannst gaman á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans.“

Á Kleppi vann Einar um hríð. „Þá byrjaði þar sálfræðingur, Ingólfur Guðjónsson, sem er nýdáinn. Hann og kona hans, Susan, vöktu mér furðulegan áhuga á víni. Ég hafði þó áður reynt að bera saman gæði dýrs og ódýrs konjakks, og samanburður alls, þegar allt kom til alls, kom nokkurn veginn heim og saman. Ég safnaði góðum vínum þegar ég fór til útlanda, en það hætti þegar Ameríkóarnir vöknuðu upp við vondan draum og hættu að leyfa meir en 100 millilítra af vökva í flugvélum.“ Einar skrifaði greinar um vín og bókina „Vínin í Ríkinu“.

Einar fékk dellu fyrir klassískri músík 12 ára þegar Anna Snorradóttir var með „5 mínútur með Chopin“ í barnatíma sínum. „Ég vissi þá dagskrá útvarpsins og gekk með transistorútvarp við eyrað þegar ég rak beljur, ef ég vissi af einhverjum sniðugum dagskrárlið. Fór að spila á píanó af fullum krafti og varð fljótt hörkulesari á nótur en kunni aldrei neitt utan að. Ég öfunda enn fólk sem kann á píanó og getur spilað eftir eyranu. Árni Kristjánsson sem kenndi mér á píanó í Tónlistarskólanum í Reykjavík sagði: „Ef þú kannt að klappa beljum hefurðu góðan áslátt á píanó.“

Hann fór í Tónlistarskólann á Ísafirði sem héraðslæknir 1977 og spilaði dúett á gítar á nemendatónleikum með kennaranum sínum. „Það var sýnt smávegis í sjónvarpinu án þess að nokkur andlit sæjust, og annar bændanna í Nesi sagði: „Þetta eru fingurnir á Einari Thoroddsen.“

Einar vill meina að hann sé hæglætismaður og hafi frekar lítið framtak. „Eða eins og H.C. Andersen sagði um kunningja sinn: „Han blev födt under trilleböremærket og altid måtte han skubbes fremad.“ Og ef ég þarf að halda ræðu fjallar hún sjaldan um það sem áætlað var.

Að lokum mætti taka fram að ég vissi allt um bíla, módel 1967, en sumt er gleymt núna og flestir bílanna ónýtir. Ég hef enn gaman af ferðalögum og það er spennandi að fylgjast með uppvexti barnabarna minna. “

Fjölskylda

Eiginkona Einars er Ingrid María Svensson, f. 6.6. 1956, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Fossvogi í Reykjavík. Foreldrar Ingridar voru hjónin Karl Vilhelm Solve Svensson, 14.4. 1918, d. 2016, bókhaldari, og Siw Maud Gudrun Svensson, f. Ohlson, f. 15.4. 1924, d. 1989, sölustjóri.

Börn Einars og Ingridar eru 1) Katrín Thoroddsen, f. 23.5. 1989, læknir. Sambýlismaður hennar er Hjalti Guðlaugsson arkitekt. Þau eru búsett í Reykjavík; 2) Sölvi Thoroddsen, f. 4.4. 1991, stúdent. Sambýliskona hans er Auður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Einar og Birta. Þau eru búsett í Reykjavík.

Systkini Einars: Theodóra Thoroddsen, f. 5.3. 1950, lífeindafræðingur, búsett í Reykjavík; Guðmundur Thoroddsen, f. 17.9. 1952, d. 25.5. 1996, myndlistarmaður, og Jón Thoroddsen, f. 15.2. 1957, myndlistarkennari og heimspekikennari, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Einars voru hjónin Skúli Thoroddsen, f. 3.11. 1918, d. 23.8. 1973, augnlæknir í Reykjavík, og Drífa Viðar, f. 5.3. 1920, d. 19.5. 1971, rithöfundur, skáld, listmálari, leikari og kennari. Þau voru búsett í Reykjavík.