Finnur segir rekstur í landbúnaði ekki nægilega burðugan.
Finnur segir rekstur í landbúnaði ekki nægilega burðugan. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Ríflega 40% af matvöru í Bónus og Hagkaup eru landbúnaðarvörur að sögn Finns Oddssonar forstjóra Haga. Hann segir að huga þurfi að uppbyggingu íslenska landbúnaðarkerfisins þannig að það þjóni neytendum og bændum betur en það geri í dag

Ríflega 40% af matvöru í Bónus og Hagkaup eru landbúnaðarvörur að sögn Finns Oddssonar forstjóra Haga. Hann segir að huga þurfi að uppbyggingu íslenska landbúnaðarkerfisins þannig að það þjóni neytendum og bændum betur en það geri í dag. Hjá Högum erum við stolt af því að eiga í mjög góðu samstarfi við bændur, enda erum við líklega stærsti söluaðili landsins á frábærum íslenskum landbúnaðarafurðum, mjólkurvörum, kjöti og grænmeti. Það dylst engum að í hækkandi matvöruverði að undanförnu hafa landbúnaðarvörur hækkað talsvert umfram meðaltal. Sú hækkun er tilkomin vegna þess að verð til bænda og afurðastöðva hefur hækkað mikið. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, enda hafa öll aðföng til landbúnaðar hækkað mikið frá upphafi stríðs, svo sem áburður og fóður, auk þess sem vextir hafa hækkað mikið. Aðstæður í hefðbundnum greinum landbúnaðar, einkum framleiðslu lamba- og nautakjöts, eru í dag þannig að þrátt fyrir hærra skilaverð er rekstur ekki nægilega burðugur. Það er svo áhugavert, ofan á þetta, að af öllum vöruflokkum í verslunum okkar þá bera landbúnaðarvörur einna minnstu framlegðina. Til að draga saman, þá er staðan eftirfarandi: verslunin hefur lítið upp úr að selja þessar frábæru vörur, afkoma bænda í hefðbundnum greinum er ekki nægileg og verð til neytenda hækkar mikið.