Svik Svartar tekjur finna sér leið utan hefðbundinna greiðslukerfa.
Svik Svartar tekjur finna sér leið utan hefðbundinna greiðslukerfa. — Morgunblaðið/Hari
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bregst við þeim ábendingum sem berast en hún hefur enn fremur átt í samstarfi við aðra eftirlitsaðila er kemur að brotastarfsemi á vinnumarkaði.“ Þetta segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi…

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bregst við þeim ábendingum sem berast en hún hefur enn fremur átt í samstarfi við aðra eftirlitsaðila er kemur að brotastarfsemi á vinnumarkaði.“

Þetta segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að sinna ekki lögbundnu eftirliti með svartri atvinnustarfsemi. Þegar lögreglan verður áskynja um eitthvað misjafnt er málum eftir atvikum beint til Skattsins, Vinnueftirlitsins eða Vinnumálastofnunar.

Í umfjöllun Morgunblaðsins hefur komið fram að Samtök iðnaðarins telji svarta brotastarfsemi að finna í flestum iðngreinum og svarta hagkerfið blómstra sem aldrei fyrr vegna slælegs eftirlits. Lögreglan telur erfitt að meta umfang svarta hagkerfisins og að það sé annarra að svara hvort eftirlitinu væri betur komið hjá öðrum. „Lögreglan þarf að forgangsraða gagnvart þessum verkefnum sem öðrum og eftirlit hennar tekur mið af því,“ segir Gunnar.

Samtök iðnaðarins hafa m.a. bent á að staðan sé sú að eftirlit með því að starfað sé á grundvelli tilskilinna leyfa, þ.e. sveins- og meistarabréfa, í iðngreinum á Íslandi sé lítið sem ekkert. Sambærileg staða sé í öllum iðngreinum. Einstaklingar geti stofnað fyrirtæki og veitt þjónustu án þess að hafa réttindi eða leyfi til þess með tilheyrandi tekjutapi fyrir samfélagið.