Kristín Heiða Kristinsdóttir
Þegar ég er í fríi í útlöndum læt ég alveg vera að fara inn á nokkurn einasta fréttamiðil, enda vil ég vera í „ignorance bliss“ þegar ég er í fríi. Ég læt líka vera að horfa á kvikmyndir eða þætti, því nóg annað er að gera í útlöndum við að upplifa allt sem fyrir augu ber og á vegi verður. Fyrir tveimur dögum kom ég heim eftir nokkurra daga dvöl á Ítalíu og fann fyrir notalegum svala haustsins sem er handan við hornið. Viti menn, þá langaði mig strax til að taka til við sjónvarpsgláp. Fyrir valinu varð bresk þriggja þátta röð á RÚV (ég er fáránlega veik fyrir góðu bresku sjónvarpsefni) sem heitir einfaldlega Dalgliesh, eins og aðalpersónan. Þetta eru nýlegir sakamálaþættir byggðir á skáldsögum eftir P. D. James, þar sem segir af rannsóknarlögreglumanninum og ljóðskáldinu Adam Dalgliesh. Sakamálin sem hann rannsakar í þáttunum eiga sér stað um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og ekki varð ég fyrir vonbrigðum með hvernig hefur tekist til við gerð þessa sjónvarpsefnis. Bertie Carvel passar fullkomlega í hlutverk viðkvæmnislega ljóðskáldsins og gáfumannsins Dalgliesh og öll umgjörð, áferð og persónusköpun er að mínu skapi. Handritið er skothelt og ekki allt sem sýnist við að leysa glæpagátu.