Daniel Abed Khalife
Daniel Abed Khalife
Lögreglan í Bretlandi leitaði í gær að Daniel Abed Khalife, fyrrverandi hermanni í breska hernum, en hann slapp í gærmorgun úr Wandsworth-fangelsinu í Lundúnum. Khalife var handtekinn í janúar á þessu ári vegna gruns um að hann ætlaði sér að fremja hryðjuverk

Lögreglan í Bretlandi leitaði í gær að Daniel Abed Khalife, fyrrverandi hermanni í breska hernum, en hann slapp í gærmorgun úr Wandsworth-fangelsinu í Lundúnum. Khalife var handtekinn í janúar á þessu ári vegna gruns um að hann ætlaði sér að fremja hryðjuverk.

Talið er að Khalife hafi sloppið úr fangelsinu með því að fela sig undir sendiferðabíl, sem flutti vörur til eldhúss fangelsisins, en Khalife hafði unnið í eldhúsinu. Var hann sagður klæddur í hvítan bol og rauðar og hvítar buxur, sem starfsmenn eldhússins klæddust.

Hafnir og flugvellir Bretlands voru undir sérstöku eftirliti lögreglunnar í gær, þar sem talið var að Khalife kynni að reyna að yfirgefa Bretland, og urðu nokkrar tafir á flugvöllum í Lundúnum vegna aukins öryggiseftirlits í gær.

Alex Chalk dómsmálaráðherra Bretlands sagðist í gær hafa boðað fund með fangelsisstjóra Wandsworth-
fangelsins, svo að tryggja mætti að viðlíka flótti endurtæki sig ekki. Shabana Mahmood skuggadómsmálaráðherra Verkamannaflokksins sagði að Íhaldsflokkurinn þyrfti að útskýra hvernig það hefði getað gerst að grunaður hryðjuverkamaður slyppi úr fangelsi.

Wandsworth-fangelsið er í B-flokki í Bretlandi, sem er næsthæsta öryggisstig. Flóttar úr fangelsi eru fátíðir í Bretlandi, en Ronnie Biggs, einn af þeim sem stóðu að lestarráninu mikla árið 1963, slapp úr Wandsworth-fangelsinu árið 1965 með því að klífa veggi þess.