Mótmæli Yfir 200 nemendur mótmæltu þeim áformum Ásmundar Einars Daðasonar barna- og menntamálaráðherra að sameina skólana MA og VMA.
Mótmæli Yfir 200 nemendur mótmæltu þeim áformum Ásmundar Einars Daðasonar barna- og menntamálaráðherra að sameina skólana MA og VMA. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Yfir 200 manns mættu á mótmæli í gær sem boðuð voru af nemendum við Menntaskólann á Akureyri á Ráðhústorgi Akureyrar vegna ákvörðunar Ásmundar Einars Daðasonar barna- og menntamálaráðherra um að sameina Menntaskólann á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA)

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Agnar Már Másson

Yfir 200 manns mættu á mótmæli í gær sem boðuð voru af nemendum við Menntaskólann á Akureyri á Ráðhústorgi Akureyrar vegna ákvörðunar Ásmundar Einars Daðasonar barna- og menntamálaráðherra um að sameina Menntaskólann á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Sumir kölluðu eftir afsögn Ásmundar.

Vegi að hefðum skólans

Krista Sól Guðjónsdóttir, inspectrix scholae í Menntaskólanum á Akureyri, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að mætingin hefði verið framar björtustu vonum og samheldnin ótrúlega mikil.

„Þetta voru skýr skilaboð frá nemendum til barna- og menntamálaráðuneytisins og Ásmundar,“ sagði hún rétt eftir að mótmælin kláruðust.

Huginn, nemendafélag MA, hefur hleypt af stokkunum undirskriftalista til að andmæla sameiningu skólanna tveggja. Nemendafélagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu í gær þar sem félagið mótmælti áformunum og sagði að með sameiningunni yrði vegið að öllum hefðum MA sem hefði lengi verið þekktur sem skóli hefðanna. Félaginu þykir ljóst að með sameiningunni muni allar hefðir eiga undir högg að sækja.

„Nemendur eiga ekki skilið að vera lítill hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Ásmundur tilkynnti á þriðjudag að skólarnir yrðu sameinaðir og kvað hann ákvörðunina hafa verið tekna með hliðsjón af skýrslu stýrihóps mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla. Haft er eftir Ásmundi í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að samkvæmt niðurstöðu stýrihópsins muni sameining þessara tveggja skóla leiða til öflugri stofnunar „til að mæta þeim áskorunum sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu“.

Kennarasamfélagið skipt

Skoðanir kennara á sameiningu MA og VMA eru skiptar. Almennt er gott hljóð í kennurum VMA að sögn Óskars Inga Sigurðssonar, formanns kennarafélags VMA, en hins vegar er sameiningin „köld vatnsgusa í andlitið“ á sumum kennurum MA að mati Önnu Sigríðar Davíðsdóttur, formanns kennarafélags MA.

„Við viljum sjá þetta samtal fara lengra,“ segir Óskar og bætir við: „Það er fullt af tækifærum í þessu.“

Segir hann að með sameiningunni verði fjölbreyttara námsval fyrir nemendur og betri nýting á húsnæði skólanna. Annað hljóð heyrist frá Önnu, sem segir að skoðanir kennara í MA á sameiningunni séu afar skiptar.

„Þetta var fyrir marga köld vatnsgusa í andlitið,“ segir hún og útskýrir að hingað til hafi almennt verið meira talað um aukna samvinnu skólanna en sameiningu. Kennarafélagið eigi samt sem áður eftir að ræða ákvörðunina.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson