Sviðsljós
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fimm Rangæingar unnu heimsmeistaratitla á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið var í Oirschot í Hollandi í síðasta mánuði. Miðað við höfðatölur, svo sem íbúafjölda í Rangárvallasýslu, er árangurinn einstakur. Þó ber að halda til haga að í héraðinu eru rætur hestamennsku sterkar, sport sem margir stunda. Áhuginn er almennur og víða á svæðinu eru hestabúgarðar, reiðhallir, keppnisvellir og fleira. Starfrækt eru ræktunarbú, hestaleigur og tamningastöðvar og á einstaka bæjum hefur fólk tamningar og reiðmennsku sem aðalstarf. Margt fer saman og áhugi skilar árangri. Morgunblaðið fór austur í sveitir og tók afreksfólk tali.
Met í mörgum greinum
Sá árangur sem fólk úr Rangárþingi náði á HM í Hollandi og dugði til heimsmeistaratitla er eftirfarandi: Elvar Þormarsson á Hvolsvelli keppti á hryssunni Fjalladís frá Fornusöndum og varð tvöfaldur heimsmeistari: í gæðingaskeiði og 250 m skeiði. Þá náðu þau 4.-5. sæti í 100 m skeiði. Jóhanna Margrét Snorradóttir á Árbakka í Holtum, sem keppti á Bárði frá Melabergi, varð tvöfaldur heimsmeistari í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum. Einnig urðu þau í 2. sæti í fjórgangi. Sara Sigurbjörnsdóttir á Oddhól varð heimsmeistari í fimmgangi á hesti sínum, Flóka.
Ungmennin öflug
Í flokki ungmenna varð Jón Ársæll Bergmann í Bakkakoti á Rangárvöllum á Frá frá Sandhóli heimsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum. Herdís Björg Jóhannsdóttir í Pulu í Holtum á Kvarða frá Pulu varð heimsmeistari í tölti.
Sé litið til annarra úr Rangárþingi og í frásögur er færandi frá HM má nefna að Hans Þór Hilmarsson á Hvolsvelli varð í 6. sæti í 250 m skeiði og 4.-5. sæti í 100 m skeiði á Jarli frá Þóroddsstöðum. Þorgeir Ólafsson í Sumarliðabæ í Holtum, sem keppti á Goðasteini frá Haukagili, sigraði í B-úrslitum og endaði í 6. sæti.
Af þeim sex kynbótahrossum sem fóru á mótið eru þrjú úr Rangárþingi. Hrönn frá Fákshólum, Geisli frá Árbæ og Katla frá Hemlu. Öll þessi hross sigruðu í sínum flokkum með traustri forystu. Af sex kynbótaknöpum eru fjórir búsettir í héraðinu: Árni Björn Pálsson á Oddhól, Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Margrétarhofi, Jakob Svavar Sigurðsson á Fákshólum og loks fyrrnefndur Þorgeir Ólafsson.
Járningamaður íslenska landsliðsins var Erlendur Árnason á Skíðbakka í Austur-Landeyjum og þjálfarar Hekla Katharína Kristinsdóttir í Árbæjarhjáleigu og Sigurbjörn Bárðarson á Oddhóli á Rangárvöllum.
Öflugt starf og kjöraðstæður
„Hve vel Rangæingum vegnaði á heimsleikunum í Hollandi sýnir mikla grósku í hestamennsku á Suðurlandi,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga. „Hefð er fyrir öflugu mótshaldi í Rangárvallasýslu og landsmót hafa oft verið á Hellu. Hve víða hefur verið byggð upp góð aðstaða á bæjum, það er til þjálfunar hesta og ræktunar, hefur líka áhrif. Raunar má segja að víðast hvar eystra séu kjöraðstæður fyrir hrossabúskap.“
Nokkuð er um að hestamenn á höfuðborgarsvæðinu, sem vilja auka umsvif, festi sér land í Rangárþingi. Máli skiptir þá, segja viðmælendur Morgunblaðsins, að vera nærri borginni, enda sé búskapurinn markaðsdrifinn. Þeir benda einnig á að uppsveitir Árnessýslu séu í raun uppteknar. Í Bláskógabyggð, svo sem Biskupstungum, sé ferðaþjónustan allsráðandi og kúabúskapur í Hrunamannahreppi. Svigrúm fyrir hrossabúskap sé helst fyrir austan Þjórsá.
Guðni Halldórsson segir að á HM í Hollandi hafi fleiri Rangæingar gert það gott en bara þeir sem unnu heimsmeistaratitla. Slíkt sé líka til þess fallið að koma svæðinu betur á kortið. Erlendir kaupendur íslenskra hesta séu orðnir svæðinu ágætlega kunnugir; viti að oft eru tamningastöðvar og ræktunarbú á samliggjandi bæjum. Ekki þurfi að fara langt í gæðingaleit.
„Ölfusið er, líkt og Ragnárvallasýslan, sterkt í hestamennsku sem og höfuðborgarsvæðið. Einnig Skagafjörður, sem var sagður vera mekka íslenskrar hrossaræktar. Ég veit ekki hvort slíkt á við lengur. Margt hefur breyst og hestamennskan á Suðurlandi hefur eflst enda þótt Skagfirðingar standi líka vel fyrir sínu.“