Kærunefnd útboðsmála hefur aflétt stöðvun samningsgerðar vegna kæru á útboði Sorpu á brennanlegum úrgangi en Íslenska gámafélagið kærði í júní þá ákvörðun SORPU að velja tilboð Stena Recycling AB í umræddu útboði. Er Sorpu því heimilt að ganga til samninga við Stena um útflutning á brennanlegum úrgangi. Í tilkynningu frá Sorpu í gær er haft eftir Jóni Viggó Gunnarssyni framkvæmdastjóra að niðurstaðan sé mikill sigur fyrir umhverfið.
„Með útflutningi drögum við úr urðun um rúm 40.000 tonn á ári. Þessi úrgangur verður þess í stað fluttur til Svíþjóðar og nýttur til að framleiða orku á næstu vikum,“ segir Jón Viggó. „Ég á ekki von á öðru en að kærunefnd útboðsmála komist í framhaldinu að endanlegri niðurstöðu um að SORPA hafi staðið rétt að útboðinu.“