Hestafólk Hjónin Hulda Dóra Eysteinsdóttir og Elvar Þormarsson saman í hesthúsinu. Til hægri er samstarfskona þeirra, Hulda Árnadóttir.
Hestafólk Hjónin Hulda Dóra Eysteinsdóttir og Elvar Þormarsson saman í hesthúsinu. Til hægri er samstarfskona þeirra, Hulda Árnadóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Að hestur hafi gott geðslag er mikilvægast alls í gæðingaskeiðsþjálfun,“ segir Elvar Þormarsson. Árangur hans á Fjalladís frá Fornusöndum á HM var góður en þó að nokkru í samræmi við væntingar

„Að hestur hafi gott geðslag er mikilvægast alls í gæðingaskeiðsþjálfun,“ segir Elvar Þormarsson. Árangur hans á Fjalladís frá Fornusöndum á HM var góður en þó að nokkru í samræmi við væntingar. Í gæðingaskeiði gekk vel og að vonum en annað kom á óvart. Á mótinu varð Elvar með umræddan hest, eins og segir á fyrri síðu, tvöfaldur heimsmeistari í gæðingaskeiði og 250 m skeiði. Í 100 m skeiði náðu þau 4.-5. sæti. Elvar og hans fólk sneri því sátt heim frá Hollandi; mikilli reynslu ríkari.

Úr eigu Eyfellinga

Fjalladís var lengi eign Eyfellinganna Tryggva Geirssonar endurskoðanda í Reykjavík og síðar Magnúsar bróður hans sem lést snemma árs 2022.

„Ég fékk hryssuna frá Magnúsi vorið 2021 þá sjö vetra. Hafði reyndar kynnst henni áður þegar hún var eign Tryggva. Skemmst er frá því að segja að þjálfunin gekk vel og skilaði Íslandsmeistaratitli í gæðingaskeiði 2021 strax á okkar fyrsta tímabili. Svo aftur 2022 og 2023. Í þjálfuninni fann ég stundum ef ekki lá vel á hryssunni eða ef dagsformið var ekki sem best. Sjálfsagt var slíkt gagnkvæmt, sem hvatti okkur bæði til dáða,“ segir Elvar og heldur áfram:

„Allt virkaði þetta samt, meðal annars með þátttöku í ýmsum mótum svo sem Íslandsmóti í hestaíþróttum á Hólum í Hjaltadal árið 2021. Þar náðist Íslandsmeistaratitill í gæðingaskeiði; grein sem ég heillaðist algjörlega af. Titilinn tókst mér að verja í þrjú ár og HM varð því fljótt takmarkið. Þar ætlaði ég mér að verða heimsmeistari í gæðingaskeiði eins og tókst. Markmiðið var raunhæft, samanber að við voru komin efst á heimslistann í þeirri grein. Skeiðkeppnin gekk líka vel. Heimsmeistaratitill í 250 m skeiði var umfram væntingar því að hryssan hafði aldrei áður keppt í þeirri grein fyrr en þarna í Oirschot. Hafði heldur aldrei keppt í 100 m skeiði fyrr en þarna, en útkoman var alveg frábær.“

Djákni er efnilegur

Elvar og Hulda Dóra Eysteinsdóttir kona hans eru saman af lífi og sál í hestamennskunni. Þau búa á Hvolsvelli og reka með foreldrum Elvars, þeim Þormari Andréssyni og Sigurlínu Óskarsdóttur, tamningastöð og ræktunarbú skammt fyrir utan bæinn. Hafa þar byggt upp glæsilega aðstöðu fyrir starfsemi sína.

„Uppbyggingin hefur vissulega tekið sinn tíma en með því að hafa tekið skrefin hóflega stór og í samræmi við aðstæður hefur allt gengið upp,“ segir Elvar um starf sitt og hestamennskuna. Þar ætlar hann sér enn stærri hluti í framtíðinni.

Fjalladís hefur verið seld til nýrra eigenda og í hennar stað er Elvar kominn með efnilegan fimmgangshest, Djákna frá Selfossi. Stefnt er á að sá keppi á HM íslenska hestsins sem verður næst í Sviss árið 2025.

Fjölbreytt sport

„Hestamennska er afar fjölbreytt sport sem stunda má á marga ólíka vegu. Hver getur fundið eitthvað við sitt hæfi, eins og sést best hér í Rangárvallasýslu þar sem glæsilegri aðstöðu hefur verið komið upp á tugum bæja. Þá er allt íþróttastarf og keppnishald í sambandi við hross hér um slóðir mjög öflugt. Þetta er í raun allt á heimsmælikvarða og árangurinn góður eins og best sást á þessu eftirminnilega heimsmeistaramóti í Hollandi,“ segir Elvar Þormarsson.