Litríkt Graskerssalatið hennar Jönu er matarmikið og bragðgott salat með pistasíu- og granateplasalsa.
Litríkt Graskerssalatið hennar Jönu er matarmikið og bragðgott salat með pistasíu- og granateplasalsa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jana er mikill matgæðingur og er iðin við að útbúa og elda holla og góða rétti fyrir fjölskylduna og leggur mikla áherslu á góða næringu í skólabyrjun, líkt og alla ársins hring. „Ég hef brennandi áhuga á öllu sem tengist heilsu og heilsutengdum lífsstíl

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Jana er mikill matgæðingur og er iðin við að útbúa og elda holla og góða rétti fyrir fjölskylduna og leggur mikla áherslu á góða næringu í skólabyrjun, líkt og alla ársins hring. „Ég hef brennandi áhuga á öllu sem tengist heilsu og heilsutengdum lífsstíl. Ég elska að deila uppskriftunum mínum á Instagram-reikningnum mínum @janast og á heimasíðunni minni jana.is. Það þarf nefnilega ekkert að vera flókið að græja litskrúðugan og hollan mat,“ segir Jana.

Gott að gera vikumatseðil

Aðspurð segir Jana að matarvenjur breytist almennt hjá fjölskyldum þegar hausta tekur og hefðbundin rútína fer í fastar skorður eftir sumarfrí. „Fólk er meira heima hjá sér og minna úti um allt og er þá oft auðveldara að plana vikuna og kaupa hollt og gott inn fyrir heimilið. Mér finnst svo gott að benda fólki á að undirbúa sem mest matinn fyrir vikuna, baka og skera grænmeti, gera súpur og hummus og jafnvel gera vikumatseðil þannig að það sé auðveldara að halda hollustunni við og tímaskortur sé ekki afsökun fyrir að velja eitthvað óhollt og fljótlegt. Þegar maður er búinn að temja sér það að græja og gera í eldhúsinu og plana fram í tímann er ekkert erfiðara að borða hollt og næringarríkt,“ segir Jana og þekkir það af eigin raun.

Jana aðhyllist hreint og hollt mataræði. „Ég vel sem hreinasta og ferskasta kostinn í minni matargerð og vil vita hvað ég er að borða og sneiði sem mest hjá unnum mat. Ég nota mjög mikið alls konar grænmeti, hnetur, fræ og olíur. Ég geri mjög mikið af þeytingum, hollustudrykkjum og súpum og finnst það svo frábær leið til að koma hollu og góðu inn hjá fjölskyldunni. Einnig elska ég íslenskan fisk.“

Besta salatið í sumar

Þegar kemur að matargerðinni er Jana dugleg að þróa og prófa nýja rétti. Innblásturinn segist hún sækja víða. „Ég skoða mikið matreiðslubækur og netið og fæ mikinn innblástur þaðan. Mér finnst svo gaman að blanda ólíku grænmeti, ávöxtum, kryddjurtum, fræjum og hnetum saman og toppa svo með annaðhvort góðum olíum eða skemmtilegri dressingu. Þannig verða oft til hin ótrúlegustu salöt eða meira réttir sem hægt er að borða bara eina og sér.“

„Til að mynda erum við mikið búin að vera að gera alls konar fiskrétti í sumar og þá hef ég alltaf nokkur salöt með, sem mér finnst algjörlega nauðsynlegt. Salatið sem ég gerði í síðustu viku er eitt það besta sem ég hef gert í sumar og sló rækilega í gegn. Þarna notaði ég bara það sem ég átti til í ísskápnum og út úr því kom frábært salat með fiskinum sem við borðuðum. Þetta salat er svo ferskt, bragðgott og matarmikið,“ segir Jana. Í salatinu er grasker sem er uppstaðan og gerir það svo matarmikið, síðan er það dressingin sem lyftir því í hæstu hæðir en hún er pistasíu- og granateplasalsa. „Ég á alltaf alls konar grænt salat sem ég nota sem grunn og oftast baka ég í ofni rótargrænmeti eða grænmeti og toppa svo með litskrúðugum ávöxtum, berjum, kryddjurtum og fræjum eða hnetum, því fleiri litir, því betra.“

Jana heldur úti uppskriftasíðunni Jana.is þar sem hún setur inn hollar og næringarríkar uppskriftir, allt frá heilsudrykkjum til eftirrétta og allt þar á milli. „Mér finnst einstaklega gaman að gera skemmtileg salöt og fiskrétti. Ég er mjög dugleg að deila því sem ég er að gera yfir daginn, hvort sem það er í eldhúsinu eða bara almennt tengt heilsu á Instagram-reikningi mínum. Síðast en ekki síst, þar sem haustið fer að koma með sínum rútínum og allir eru að koma aftur úr ferðalögum, vil ég benda á heilsumatreiðslunámskeiðin mín, sem ég elska að halda. Þá fer ég í heimahús, græja og sýni alls konar matargerð, allt frá þeytingum, litlum réttum og eftirréttum sem er svo verið að gæða sér á í gegnum kvöldið. Ég mun auglýsa námskeiðin betur í haust, bæði á heimasíðunni minni og Instagram-reikningnum mínum.“

Jana deilir hér með lesendum uppskriftinni að sínu uppáhaldssalati þessa dagana, grilluðu graskerssalati með pistasíu- og granateplasalsa sem er bæði matarmikið og bragðgott.

Grillað graskerssalat með
pistasíu- og granateplasalsa

Blandað grænt salat

1 grasker

3 msk. ólífuolía

Sítrónupipar með salti frá Kryddhúsinu

½ tsk. chili-flögur

Pistasíu- og granateplasalsa

1 box af kirsuberjatómötum, skornum í fernt

1 bolli granateplafræ, frosin

1 bolli saltaðar pistasíuhnetur, saxaðar gróft

½ bolli parmesan-flögur eða litlir bitar

1/3 bolli sítrónuolía

½ lime, safi og börkur

1 tsk. sítrónupipar

Hitið ofninn í 200°C. Þvoið graskerið og skerið í litla bita, það þarf ekki að taka hýði af. Setjið bitana á bökunarplötu klædda bökunarpappír, hellið olíunni yfir og stráið vel af sítrónupipar um yfir. Setjið inn í ofn og bakið í 20-25 mínútur eða þar til graskersbitarnir eru orðnir vel gullnir og örlítið brenndir. Lofið þeim aðeins að kólna. Útbúið salsa á meðan graskerið bakast. Setjið allt saman í skál og hrærið vel saman. Setjið blandað grænt salat á disk, dreifið svo graskersbitunum jafnt yfir og hellið því næst pistasíu- og granateplasalsanu yfir. Berið fram og njótið með því sem hugurin girnist.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir