Í Fljótsdal Sveinn og Jóhanna með barnabarnahópnum þegar fjölskyldan fagnaði 70 ára afmæli þeirra á Valþjófsstað árið 2019.
Í Fljótsdal Sveinn og Jóhanna með barnabarnahópnum þegar fjölskyldan fagnaði 70 ára afmæli þeirra á Valþjófsstað árið 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn Jónsson fæddist 7. september 1948 á sjúkraskýlinu í Egilsstaðakauptúni, sem þá var rétt að byrja að myndast. Hann ólst upp á Egilsstaðabýlinu þar sem foreldrar hans voru í sambýli við föðurafa Sveins en amma hans rak auk alls annars Gistihúsið á Egilsstöðum

Sveinn Jónsson fæddist 7. september 1948 á sjúkraskýlinu í Egilsstaðakauptúni, sem þá var rétt að byrja að myndast. Hann ólst upp á Egilsstaðabýlinu þar sem foreldrar hans voru í sambýli við föðurafa Sveins en amma hans rak auk alls annars Gistihúsið á Egilsstöðum.

„Þarna var einnig fjölskylda föðurafabróður sem sat annan hluta jarðarinnar svo og afasystur tvær sem sinntu póst- og símaþjónustu og verslun. Það var því mikið umleikis á Egilsstaðatorfunni á þessum árum og auk fjölskyldunnar fullt af vinnufólki og gestagangur mikill. Á sumrin var gjarnan margt barna og unglinga og leikir út um alla kletta og kolla en einnig byrjaði maður ungur að sinna margvíslegum störfum jafnvel áður en aldur hefði í dag gefið tilefni til.

Vélvæðing var komin vel af stað m.a. fyrir tilverknað föður míns sem hafði lært flugvirkjun í Bandaríkjunum og Kanada í lok síðari heimsstyrjaldar og kom með margvíslegar framandi tækninýjungar í búskapinn. Ég náði þó aðeins að kynnast því að raka saman heyi með hestarakstrarvél áður en allt færðist yfir í að vera unnið á traktorum. Föðurbróðir minn Ingimar lauk landbúnaðarnámi frá háskóla í Bandaríkjunum á þessum árum og kom svo heim í sameiginlegan búrekstur.“

Aðeins þrír nemendur voru í árgangi Sveins í grunnskóla og því var kennt með aðeins stærri hópi eldri árgangs. „Fyrstu árin var kennt í kjöllurum einbýlishúsa í kauptúninu og ég labbaði lengst af í skólann en það var drjúgur spölur eftir að lokið var 1. áfanga núverandi grunnskólabyggingar hvaðan ég útskrifaðist. Þá tóku við þrír vetur unglings við Alþýðuskólann á Eiðum og fjórir vetur við Menntaskólann á Akureyri. Með framhaldsskóla var á sumrum unnið að uppbyggingu þéttbýlis á Egilsstöðum við röra- og steinasteypu og síðar byggingarvinnu. Bústörfin hæfðu mér ekki.

Ungur lærði ég að stauta mig fram úr bandarískum tímaritum, Popular Mecanics, Popular Science og LIVE, sem faðir minn var áskrifandi að. Enska lá því vel fyrir mér í skóla og hugurinn stefndi erlendis. Fyrir valinu varð verkfræðinám við University of Strathclyde í Glasgow hvaðan ég útskrifaðist haustið 1975. Þá var ekki verið að fljúga lengra en þurfti og unnið með á sumrum hvern dag og veitti ekki af enda þá búinn að stofna til fjölskyldu.

Tvö eldri börnin voru fædd í Glasgow en þaðan lá leiðin til Stavanger í Noregi þar sem sú yngsta kom í heiminn og ákveðið var að snúa heim 1978. Í Noregi áttum við annars dásamlegan tíma þar sem ég gegndi starfi staðarverkfræðings við byggingu Bybrua, sem tengir eyjar og land í Stavanger. Þar var á þeim árum forvitnilegur uppgangur og mikil þróun í olíuvinnslu Norðmanna.“

Sveinn kom að stofnun Verkfræðistofu Austurlands en gegndi síðan starfi byggingarfulltrúa og bæjarverkfræðings Egilsstaðakauptúns til 1984, þegar hann tók við stjórn útibús verkfræðistofunnar Hönnunar á Reyðarfirði. Þá tók við framkvæmdastjórn byggingafélagsins Brúnás á Egilsstöðum og þróun innréttingaverkstæðis með sama nafni og enn starfar. „Þá var 1990 horfið til sjálfstæðrar verkfræðiþjónustu með stofnun Hönnunar og ráðgjafar ehf. 1990, sem starfaði fram til 2000 með aðkomu margvíslegra verkefna svo sem framkvæmdastjórn Héraðsverks ehf. og Miðvangs ehf. sem byggði verslunarmiðstöðina „Kleinuna“ og fyrsta áfanga Hótels Héraðs á Egilsstöðum.

Enn fremur var á þessum árum komið að endurbyggingu fiskimjölsverksmiðjanna í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Akranesi og jarðvegurinn þróaður fyrir virkjun vatnsafls á Austurlandi og nýtingu þess í álveri. Þegar best lét unnum við um 25 hjá þjónustunni með skrifstofur á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Þjónustan rann saman við verkfræðistofuna Hönnun í Reykjavík árið 2000 og þá tók ég við byggingarstjórn verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar.

Eftir stutta aðkomu að eftirliti með framkvæmdum til undirbúnings Kárahnjúkavirkjunar lá þó leiðin 2004 á vegum HRV Engineering til samstarfs við Bechtel um byggingarstjórn Fjarðaálsverksmiðju ALCOA og voru í því teymi á mínum vegum um 50 starfsmenn þegar mest var umleikis. Enn er ég ekki leystur undan því hlutverki. Lok formlegs starfsferils voru þó í Noregi þar sem ég leiddi í byrjun starfsemi Mannvits þar í landi síðast með aðkomu að laxeldisúrvinnsluiðnaði á Fröya.

Í ellinni hef ég 2019 og 2020 verið að sinna verkefnisstjórn fyrir nýbyggingu fimleikahúss Hattar og nú 24 íbúða blokkar fyrir eldri borgara á Egilsstöðum auk umsjónar með viðgerðum og viðhaldi Egilsstaðakirkju á undanförum árum.

Þróun atvinnulífs og samfélags á Austurlandi hefur átt hug minn allan samhliða starfsferli. Heimkominn fylgdi ég Hjörleifi Guttormssyni alþingismanni og þáverandi iðnaðarráðherra að málum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Austurlandi og fleira. Var ég því þrisvar í framboði fyrir Alþýðubandalagið og sat nokkrum sinnum sem varaþingmaður hans og Helga Seljan.“ Þá sat Sveinn í undirbúningsstjórn kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og í stjórn Rarik um 16 ára skeið, orku- og stóriðjunefnd SSSA og sveitarstjórn Egilsstaða og síðast stjórn Austurbrúar um 2ja ára skeið.

„Frítíma hef ég varið með fjölskyldunni, byggt yfir hana hörðum höndum á tíma hámarksverðbólgu og harðrar verðtryggingar en jafnframt stundað helst útivist til náttúruskoðunar með göngum, veiði, sundi og skíðum til líkamsþjálfunar, félagsstarf á pólitískum vettvangi svo og JC, Rótary og frímúrara í andlegum tilgangi.“

Fjölskylda

Eiginkona Sveins er Jóhanna V. Illugadóttir, f. 17.5. 1949, verslunarmaður. Þau eru búsett í Egilsstaðakollinum. Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Illugi Guðmundsson, f. 9.1. 1912, d. 24.4. 1968, skipstjóri og útgerðarforstjóri í Hafnarfirði, og Halldóra Katrín Andrésdóttir, f. 27.3. 1909, d. 26.11. 1963, húsfreyja.

Börn Sveins eru 1) Halldóra Magna, f. 2.6. 1972, bankamaður; 2) Jón Egill, f. 20.1. 1975, tæknifræðingur. Maki: Katrín Einarsdóttir; 3) Edda Hrönn, f. 31.10. 1978, tannlæknir. Maki: Skarphéðinn Smári Þórhallsson. Þau eru öll búsett á Egilsstöðum. Barnabörnin eru 12.

Bræður Sveins eru Gunnar, f. 1952, háskólamenntaður bóndi á Egilsstöðum; Egill, f. 1957, vélaverkfræðingur og framleiðslustjóri Össurar, búsettur í Hafnarfirði; Þröstur, f. 1962, rafmagnsverkfræðingur, forstjóri, búsettur á Egilsstöðum; Róbert, f. 1966, landbúnaðarverkamaður, búsettur á Egilsstöðum; Björn, f. 1968, grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi CCP Games, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Sveins voru hjónin Jón Egill Sveinsson, f. 27.8. 1923, d. 27.8. 2020, flugvirki og bóndi, og Magna J. Gunnarsdóttir, f. 18.12. 1926, d. 27.6. 2010, húsfreyja á Egilsstöðum.