Feðgar Hákon Arnar Haraldsson leikur með Íslandi gegn Lúxemborg en faðir hans skoraði sigurmark Íslands gegn Lúxemborg fyrir 30 árum.
Feðgar Hákon Arnar Haraldsson leikur með Íslandi gegn Lúxemborg en faðir hans skoraði sigurmark Íslands gegn Lúxemborg fyrir 30 árum. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Lúxemborg í J-riðli undankeppni EM 2024 í Lúxemborg annað kvöld. Lúxemborg er lið á uppleið og er sem stendur í 89. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA

Í Lúxemborg

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Lúxemborg í J-riðli undankeppni EM 2024 í Lúxemborg annað kvöld. Lúxemborg er lið á uppleið og er sem stendur í 89. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Hæst hefur liðið komist í 82. sæti, í september árið 2018, og rær nú öllum árum að því að klífa enn hærra á styrkleikalistanum. Ef fram heldur sem horfir má vænta þess að það gerist fyrr en síðar.

Lúxemborg hefur hafið undankeppnina betur en Ísland enda með 7 stig að fjórum leikjum loknum á meðan íslenska liðið er einungis með 3 stig eftir jafnmarga leiki.

Í síðasta landsleikjaglugga í júní vann Lúxemborg frækinn sigur á Bosníu og Hersegóvínu á útivelli, 2:0, og vann einnig Liechtenstein 2:0 á heimavelli. Í fyrstu umferð í mars gerði liðið markalaust jafntefli við Slóvakíu á heimavelli. Eina tapið til þessa kom gegn Portúgal í annarri umferð og var það stórt, 0:6 á heimavelli, en annars hefur Lúxemborg haldið marki sínu hreinu.

Þrátt fyrir að Ísland sé hærra skrifað, er í 67. sæti á FIFA-listanum, er því ekki hægt að ganga að neinu vísu og allt útlit fyrir að bæði lið líti á viðureignina sem kjörið tækifæri til þess að krækja í þrjú stig.

Ísland aldrei tapað

Ísland og Lúxemborg hafa mæst sjö sinnum í gegnum tíðina og þar er íslenska liðið taplaust. Ísland hefur unnið fjóra leiki og þrisvar hafa liðin gert jafntefli.

Fimm leikjanna voru vináttuleikir en í einu tveimur keppnisleikjunum til þessa, í undankeppni HM 1994 árið 1993 vann Ísland heimaleikinn 1:0 og gerðu liðin jafntefli í Lúxemborg, 1:1. Haraldur Ingólfsson, faðir Hákons Arnars Haraldssonar, núverandi landsliðsmanns, skoraði sigurmark Íslands á Laugardalsvellinum. Arnór Guðjohnsen skoraði mark Íslands í leiknum í Lúxemborg en Þorvaldur Örlygsson fékk rauða spjaldið í leiknum, þegar hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að vera of lengi að taka innkast og brosa í leiðinni.

Lið Lúxemborgar hefur aldrei tekið þátt í lokakeppni EM eða HM en var tíður gestur á Ólympíuleikunum, þar sem Lúxemborg tók sex sinnum þátt á árunum 1920 til 1952.

Ellefu í Þýskalandi

Ljóst er að ýmislegt er í Lúxemborgarliðið spunnið. Fáir leikmenn liðsins geta talist heimsþekktar stjörnur en margir þeirra eru hins vegar á mála hjá sterkum félögum í Evrópu.

Flestir spila í nágrannalandinu Þýskalandi, alls ellefu af 25 leikmönnum sem voru valdir í verkefnið. Þar af eru sex á mála hjá liðum í þýsku 1. deildinni og fjórir af þeim leika fyrir Mainz, þar sem íslenska landsliðið æfði á mánudag og þriðjudag. Einungis einn leikmaður, varamarkvörðurinn Ralph Schon, leikur í heimalandinu.

Lúxemborg hefur á að skipa ungu liði en meðalaldur þess er 24 ár. Allnokkrir reynsluboltar hífa meðalaldurinn upp.

Margir frá Portúgal

Lúxemborg er fjölþjóðlegt lið þar sem sérstaklega margir leikmenn eiga ættir að rekja til Portúgals eða gamalla nýlendna þjóðarinnar. Þannig eru Yvandro Borges Sanches og Tiago Pereira Cardoso, leikmenn Borussia Mönchengladbach, og Mica Pinto, leikmaður Sparta Rotterdam í hollensku úrvalsdeildinni, ættaðir frá Portúgal.

Christopher Martins, leikmaður Spartak Moskvu, er ásamt Marvin Martins hjá Austria Vín ættaður frá Grænhöfðaeyjum. Leandro Barreiro, einn leikmanna Mainz, er ættaður frá Angóla.

Langvarandi gott samband

Ástæðuna fyrir þessari athyglisverðu tengingu má rekja til sérstaklega góðs sambands Lúxemborgar og Portúgals, sambands sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Báðar þjóðir tóku til að mynda við flóttamönnum hvor frá annarri í síðari heimsstyrjöldinni og þá rúmu fjóra áratugi sem Portúgal sætti einræðisstjórn frá 1933 til 1974.

Árið 1972 ákváðu stjórnvöld í Lúxemborg að greiða götu portúgalskra ríkisborgara enn frekar þegar tvíhliða innflytjendasamningur milli þjóðanna var fullgiltur.

Stærsta stjarnan ekki með

Fleiri leikmenn Lúxemborgar sem voru ekki valdir að þessu sinni tengjast Portúgal sömuleiðis. Þar ber hæst að nefna stærstu stjörnu liðsins, Gerson Rodrigues. Hann er fæddur í Portúgal og leikur með Sivasspor í tyrknesku úrvalsdeildinni, að láni frá úkraínska stórveldinu Dynamo Kyiv.

Rodrigues er jafnmarkahæsti leikmaður Lúxemborgar frá upphafi með 16 mörk í 55 landsleikjum. Hann var ekki valinn að þessu sinni vegna agavandamála, en Rodrigues mætti ekki á tvær æfingar Lúxemborgar fyrir leikinn gegn Bosníu, lét engan vita af fjarveru sinni og var því rekinn úr leikmannahópnum.

Átti afturkvæmt

Önnur stærsta stjarna Lúxemborgar, Vincent Thill, leikmaður Sabah í Aserbaídsjan, var einnig rekinn úr hópnum fyrir leikinn gegn Bosníu eftir rifrildi við landsliðsþjálfarann Luc Holtz, en hlaut náð fyrir augum hans að nýju fyrir komandi verkefni.

Thill er yngsti landsliðsmaður og yngsti markaskorari í sögu A-landsliðs Lúxemborgar. Eldri bræður hans, Sébastien og Olivier, eru sömuleiðis landsliðsmenn. Sébastien er í hópnum að þessu sinni en Olivier ekki.

Hvaðanæva úr Evrópu

Til marks um hve fjölþjóðlegt lið Lúxemborgar er má auk þess nefna að fimm leikmenn liðsins eru ættaðir af Balkanskaganum. Þar á meðal er mesti markaskorari Lúxemborgar í fjarveru Rodrigues, Danel Sinani, sem fæddist í Belgrad. Sinani hefur skorað 11 mörk í 55 landsleikjum og leikur með St. Pauli í þýsku B-deildinni.

Auk þess inniheldur liðið leikmenn sem eru fæddir í Frakklandi, Belgíu, Danmörku og Bandaríkjunum. Tveir leikmenn eru þá af ítölsku bergi brotnir, einn er hálfur Norðmaður, einn á ættir að rekja til Marokkó og annar til Alsír.

Það er enda svo að um helmingur þeirra tæplega 655.000 sem búa í Lúxemborg er af erlendu bergi brotinn.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson