Þórólfur Jóhann Vilhjálmsson fæddist 30. ágúst 1940. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 24. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Jóhanna Einarsdóttir, f. 18. maí 1919, d. 2. janúar 1998, og Vilhjálmur Eyjólfsson, f. 4. nóvember 1902, d. 25. júlí 1983.

Systkini: Emil V. Vilhjálmsson, f. 29. desember 1944, d. 3. ágúst 2012, drengur, f. andvana 1942, og Sigfríður M. Vilhjálmsdóttir, f. 1. júlí 1951. Hann vann við skipa- og húsasmíðar allan sinn starfsferil, lengst af í Vestmannaeyjum.

Útför hans fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 7. september 2023, klukkan 13.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Ég var lánsamur að eiga vináttu Þórólfs Vilhjálmssonar. Leiðir okkar lágu saman árið 1976 þegar uppbygging íþróttamiðstöðvar í Vestmannaeyjum eftir eldgosið stóð yfir. Þórólfur var skipasmiður, en strax var mönnum ljóst að hans hæfileikar við smíðar lágu víðar. Þegar uppbyggingu íþróttamannvirkja lauk, tók hann ákvörðun að vera áfram í Eyjum og var það happafengur að fá hann til starfa í fjölskyldufyrirtækinu Skipaviðgerðum hf. Þórólfur var hagleikssmiður sem gekk einbeittur til verka. Strax kom í ljós að hann leysti þau verk vel sem honum voru falin. Þegar faðir minn, sem var yfirverkstjóri í fyrirtækinu, lést skyndilega árið 1980, var honum falin verkstjórnin. Hann lagði áherslu á að vera í góðum tengslum við samstarfsmenn, svo og viðskiptavini. Hann starfaði í fyrirtækinu samtals í 21 ár. En á þeim tíma fór hann tvívegis á fastalandið til að afla sér meiri þekkingar og lauk hann námi í húsasmíði og aflaði sér meistararéttinda. Við Þórólfur störfuðum mjög náið saman og tengdist hann fjölskyldunni nánum böndum. Kærleikur og vinátta hans við fjölskyldu mína var einlæg.
Við höfum alltaf verið í miklu sambandi, vitað um hvað hinn var að fást við dagsdaglega þó fjarlægð yrði meiri á seinni tímum vegna búferlaflutnings.

Þórólfur átti við heilsubrest að stríða undir það síðasta. Valdimar Gestur Hafsteinsson var honum ómetanlegur vinur og stuðningsaðili á því tímabili. Það var okkur afar dýrmætt að vita af hans kærleiksríku umhyggju við vin okkar, en hann fylgdi honum til síðustu stundar. Við Guðný þökkum Þórólfi samfylgd og vináttu og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Kristján G. Eggertsson.