Hraunið Árni hlaut sinn dóm í ársbyrjun 2021 og sat allan dóminn án reynslulausnar þar sem hann átti mál í kerfinu sem ekki var til lykta leitt.
Hraunið Árni hlaut sinn dóm í ársbyrjun 2021 og sat allan dóminn án reynslulausnar þar sem hann átti mál í kerfinu sem ekki var til lykta leitt. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is „Saga mín er bara eins og saga margra, ég byrjaði snemma að nota áfengi og fíkniefni, ég byrjaði í hassneyslu áður en ég byrjaði að nota áfengi,“ segir Árni Sigurður Karlsson, fyrrverandi fíkill á batavegi, í samtali við Morgunblaðið um lífshlaup sem líklega er á fárra færi að leika eftir.

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Saga mín er bara eins og saga margra, ég byrjaði snemma að nota áfengi og fíkniefni, ég byrjaði í hassneyslu áður en ég byrjaði að nota áfengi,“ segir Árni Sigurður Karlsson, fyrrverandi fíkill á batavegi, í samtali við Morgunblaðið um lífshlaup sem líklega er á fárra færi að leika eftir.

Árni fæddist árið 1990 og mundaði hasspípuna í fyrsta sinn að vörum sínum árið 2002, eða það telur hann. Víman varð á örskotsstundu hans hlýjasta sæng og þegar contalgin í sprautu varð sproti hans og stafur skipti nánast ekkert annað máli en að útvega sér efni.

Daginn sem héraðsdómari dæmdi Árna sekan um 95 ákæruatriði í einu og sama málinu beið hans fangelsisvist í samtals þremur stofnunum, löng meðferð og bataganga þar sem hvert skref var í fyrstu tekið með vindinn í fangið. Árni hefur hrasað á leið sinni, en aldrei dottið, hann hefur gist áfangaheimili þar sem neyslan var botnlaus, fólk lést og eitt brann jafnvel nýlega.

Nú er kærasta komin í spilið, raunar frá 2019, Árni tekur hverjum degi eins og hann kemur fyrir og rólyndisleg röddin einkennist af jafnaðargeði þess sem engu hefur að tapa en allt að vinna. Árni sagði Morgunblaðinu sögu sína og sögu fíkniefnaheims sem tekur stakkaskiptum með nánast hverjum deginum sem sól rís úr sæ.

„Þá fer allt beint niður“

„Frá fyrsta smók vissi ég að ég væri fíkill, ég þurfti alltaf að gera meira en aðrir. Svo byrjaði ég að drekka upp úr fermingu og þá fóru hlutirnir að gerast hratt hjá mér, vegurinn varð bara verri og verri,“ segir Árni með sinni yfirveguðu rödd en hann er Reykvíkingur, ólst upp með móður sinni í Breiðholtinu.

„Ég kem ekki frá brotnu heimili, þvert á móti kem ég frá mjög góðu og ástríku heimili. Hins vegar lenti ég í einelti í skóla og það varð til þess að ég tók að sækja í félagsskap sem var að nota,“ útskýrir Árni.

Árið 2009, í þeim óstöðugleika á vinnumarkaði sem fylgdi hruni íslenska bankakerfisins haustið áður, lagði Árni land undir fót og flutti austur á firði þar sem hann kynntist barnsmóður sinni. „Þá er ég alveg edrú hvað fíkniefni snertir, ég er það alveg frá 2009 og fram til 2013, er bara að drekka. Vinn þarna í álverinu á Reyðarfirði og á fleiri stöðum og bjó á Reyðarfirði,“ segir hann af dvölinni fyrir austan sem lauk árið 2013. Leiðir þeirra barnsmóðurinnar skilur þá og líf Árna tekur stakkaskiptum.

„Þá ákveð ég að flytja einn í bæinn og þá fer allt beint niður,“ játar Árni sem fékk vinnu hjá Landspítalanum eftir að hann kom í höfuðstaðinn á nýjan leik, annaðist flutning sjúklinga innan spítalans. Árni átti sér þó skuggalegri aukabúgrein þar sem hann var tekinn að fremja ýmis afbrot samhliða starfi sínu.

„Svo 2019 kynnist ég kærustunni minni sem sprautaði sig með ritalíni. Það er kannski asnalegt að segja þetta núna en ég skildi aldrei þessa fíkn hjá henni, ég var bara sá sem saug af diskum [fíkniefni í nef] og ég var ekki að svíkja neinn eða bregðast neinum þótt ég væri að gera það,“ rifjar Árni upp.

Sem fyrr segir skildi hann á þeim tíma ekki upplifun þeirra sem sprauta sig í æð og fékk þá að heyra hjá kærustunni að enda gæti hann ekki skilið slíkt nema með því að upplifa sjálfur, sem hann og gerði. Tilraunaeðli neytandans.

„Ég gerði það sem sagt og þá varð ekki aftur snúið með það. Ég skildi þá strax hvað það var sem næði þessum tökum á fólki,“ segir Árni sem á þessum krossgötum í lífi sínu var orðinn atvinnulaus og nú tók skórinn að kreppa fjárhagslega.

Fangelsisdvölin bjargaði

„Ég gat ekki staðið undir neyslu okkar beggja á einhverjum félóbótum, ég notaði þrisvar sinnum meira en hún. Þá fór ég að svíkja fé út úr fólki, selja stolna hluti og fleira,“ segir hann frá. Þessi starfsemi vatt upp á sig og að lokum var Árni kominn í blindgötu þar sem lokaði endinn nálgaðist á ógnarhraða.

„Þá lenti ég í fangelsi, í janúar 2021, þá er ég dæmdur fyrir 95 mál og fékk eitt og hálft ár,“ segir Árni og fer ekki í neinar grafgötur með að fangelsisvistin bjargaði honum frá lífi sem var að verða allt annað en dans á rósum. Hann sat á Hólmsheiði, Litla-Hrauni og á stuttu tímabili á Sogni.

„Það fyrsta sem ég tók eftir var hvernig mér var tekið af fangavörðum inni á Litla-Hrauni, þar var ekki komið vel fram við mig,“ rifjar Árni upp en játar engu að síður að dvölin þar eystra hafi bjargað honum og þrátt fyrir allt hafi honum liðið vel þar inni, laus frá því eymdarlífi sem fíknin bauð upp á.

„Mér finnst hins vegar sorglegt hve lítil virðing er borin fyrir föngum þar, það er eitthvað sem þarf að laga. Þetta er bara refsivist, ekki betrunarvist,“ segir Árni þegar hann lítur til baka til afplánunar sinnar.

Aðspurður kveður hann þó ekki hafa andað köldu frá öllum þeim fangavörðum sem hann umgekkst. Einkum hafi sumarafleysingafólk verið almennilegt, „sérstaklega stúlkur úr þeirra hópi, þær virtust bera virðingu fyrir manni“, játar Árni með hlýju og segir frá því þegar hann var sendur á Sogn á tímabili.

Áfangaheimilið ekki beisið

„Mér fannst stjórnun þar ekki í lagi og ég leyfði mér að setja út á það og þá var ég bara sendur aftur á Hraunið,“ segir Árni sem afplánaði síðasta hálfa árið á Litla-Hrauni og gekk þaðan út í fyrrasumar, þá búinn að vera allsgáður allan tímann í fangelsinu, eitt og hálft ár. „Ég snerti aldrei neitt þarna inni, ég var edrú allan tímann,“ segir hann en næsti viðkomustaður var áfangaheimilið Betra líf sem töluvert hefur verið í fréttum síðustu misseri.

„Það sem ég vissi ekki var að þar var bullandi neysla, kannabislyktin var það fyrsta sem tók á móti mér og þarna var bæði mikil drykkja og fíkniefnaneysla. Ég kvartaði yfir því en forstöðumaðurinn sagði mér þá bara að hann fyndi nú ekki neina lykt,“ segir Árni sem þá var sendur á annað heimili á vegum Betra lífs, Vatnagarða, sem komust í fréttirnar þegar þar kom upp eldur í febrúar á þessu ári.

Ekki tók betra líf þar við að hans mati. „Hræðilegri stað hef ég aldrei komið á, þar var mannaskítur á gólfunum, fólk var vafrandi um í alls kyns ástandi, sá sem á þetta var að opna inn til fólks, fólk lést þarna inni,“ lýsir Árni og það var einmitt þarna, á áfangaheimili Betra lífs, sem hann féll eftir að hafa haldið sig frá efnum gegnum alla sína afplánun í fangelsi. Hins vegar var hann farinn að drekka áður en sprautan kom inn í líf hans á ný.

„Ég fór í sama farið aftur og fór að sprauta mig með contalgini. Áfengi var ofboðslegt vandamál hjá mér, ég var dagdrykkjumaður 2016, '17 og '18, drakk á hverjum einasta degi og notaði amfetamín með. Ég fann alltaf fyrir fráhvarfseinkennum frá áfengi, ég þurfti alltaf að vera að fá mér bjór. En þegar ég fór að sprauta mig þá bara hætti það algjörlega, ég man að ég lagði bjórinn minn frá mér þegar ég sprautaði mig fyrst eftir fangelsisdvölina og tók hann ekki upp aftur,“ rifjar hann upp.

Þegar þarna var komið sögu, í nóvember í fyrra, fór Árni í sína fyrstu og einu meðferð á ferlinum, á Sjúkrahúsið Vog og þaðan í eftirmeðferð á Vík á Kjalarnesi. Í kjölfarið urðu AA-fundir hluti af hans félagslega raunveruleika sem hann kveður hafa hjálpað sér mikið, að heyra frásagnir annarra sem staddir væru á svipuðum slóðum og hann í lífinu.

„Fyrst stundaði ég hádegisfundi í Holtagörðum og Gula húsinu og ég stundaði þá svo mikið að ég gjörsamlega brenndi mig út á þeim. Núna fer ég á fundi í Árbæjar- og Seljakirkju alla vega þrisvar í mánuði. Það bjargaði lífi mínu að komast í meðferðina og í kjölfarið var mér tekið ofboðslega vel í AA-samtökunum, meðferðin á Vogi var mjög góð og Vík var paradís, þar var ég í mánuð,“ segir Árni sem því næst dvaldi nokkra mánuði á áfangaheimilinu Draumasetrinu og ber því vel söguna.

Ekki greið leið í vinnu

„Ég hef fallið þrisvar en alltaf náð mér á strik,“ játar Árni, „það geri ég bara með því að einangra mig. Ég get umgengist alla flóruna af fólki og það má nota allt í kringum mig, bara ekki sprauta sig,“ segir Árni sem nú bíður þess að komast í endurhæfingu og eiga afturkvæmt út á vinnumarkaðinn.

„Alveg síðan ég kom úr afplánun er ég búinn að vera að bíða eftir því að komast í endurhæfingu hjá VIRK sem ég vona að detti inn núna í haust,“ segir Árni sem er spenntastur fyrir því að komast á ný í svipað starfsumhverfi og hann var í, kringum tæki og tól eins og hann orðar það. Játar hann þó að mótbyrinn verði líklega skammt undan og leið hans inn á vinnumarkaðinn verði ekki endilega greið með dóm á bakinu fyrir tæplega hundrað afbrot.

„Hver ræður mann? Það er nú stóra spurningin. Ég hef heyrt mjög misjafnar sögur af því hvernig fólki gengur við þær aðstæður. Ég veit af fólki sem hefur setið inni og ekki verið að nota en samt átt mjög erfitt með að fá vinnu. Þegar ég fer út á vinnumarkaðinn aftur vona ég bara það besta, ég stefni á að vera kominn í vinnu fyrir áramót,“ segir Árni vongóður, fyrrverandi afbrotamaður búinn að gjalda samfélaginu sína skuld og taka út sína refsingu.

Hvernig finnst honum kerfið á Íslandi þá í stakk búið til að sinna samfélagsþegnum með erfiðan fíknivanda sem leiðst hafa út í afbrot og eru á refilstigu stödd?

„Fangelsin eru bara refsivist, þau þurfa að vera betrunarvist. Ástæðan fyrir því að fólk er að koma aftur í fangelsi er að það er verið að skila því út í samfélagið aftur án betrunar. Reyndar gerir geðheilsuteymið og fleira, sem er starfrækt núna, mjög góða hluti, það er bara svo ofboðslega langt í land,“ segir Árni af sannfæringarkrafti.

Fólk deyr á biðlistum

Hann ber meðferðarkerfinu vel söguna, það hafi alltént virkað fyrir hann hvað sem öðrum líður. Þar séu hins vegar langir biðlistar og taki langan tíma að komast að fyrir fólk sem kannski er komið á mjög vondan stað í lífinu. „Fólk er að deyja á biðlistum, hér vantar meiri peninga frá ríkinu og öðruvísi nálgun, öðruvísi tækni. Þetta skammtakerfi fyrir morfínfíkla hefur til dæmis gert alveg helling fyrir marga, það er mjög góð byrjun,“ segir Árni og nefnir fordóma samfélagsins gagnvart fíklum.

„Það er ástand og viðhorf sem þarf að breyta, til dæmis með fræðslu sem hefst í grunnskólum auk þess sem viðhorfsbreytingu þarf meðal löggæslustétta, að minnsta kosti meðal sumra þar,“ segir Árni Sigurður Karlsson, maður sem hefur marga fjöruna sopið á vettvangi refsivörslukerfisins, innanbúðarmaður í þremur íslenskum fangelsum, auk þess að hafa harða fíkn að húsbónda.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson