Aðilar vinnumarkaðarins, eins og samtök launþega og vinnuveitenda eru gjarnan kölluð, eru farnir að hita upp fyrir samningaviðræður í haust og vetur, en samningar eru flestir lausir í febrúar á næsta ári. Miklu skiptir að vel takist til og að samið verði til langs tíma að þessu sinni, en síðast þóttu aðstæður ekki leyfa annað en skammtímasamninga. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands, ASÍ, kom saman í gær og ræddi það sem framundan er. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við Rúv. að fleira héngi á spýtunni en hinir eiginlegu kjarasamningar enda fælist margt annað í kaupmætti, þar með talin húsnæðismálin.
Finnbjörn segir ASÍ vilja skoða framkvæmd nýrrar húsnæðisstefnu innviðaráðherra og trúverðugleika hennar, og bætir við: „Okkur vantar verulega mikið af íbúðum og þær verða ekki byggðar á morgun. Þannig að þá skipta vaxtabætur, þá skipta barnabætur, þá skipta fjölskyldubætur verulegu máli á meðan verið er að vinna sig yfir þennan skafl sem húsnæðisvandinn er.“
Bætur geta skipt máli en óeðlilegt er að láta þær bæta upp skipulagsmistök. Mestu skiptir vitaskuld að markaður fyrir íbúðarhúsnæði virki eðlilega, að framboð sé nægt og að fólk geti keypt sér viðráðanlegt húsnæði. Eitt nýtt dæmi um kostnað á þéttingarreit sem Morgunblaðið sagði frá er að við hverja íbúð bætist 20 milljóna króna kostnaður. Augljóst er að á slíkum reitum bjóðast ekki ódýrar íbúðir.