Þjálfun Jóhanna með Kormák frá Kvistum sem hún tekur nú til kostanna.
Þjálfun Jóhanna með Kormák frá Kvistum sem hún tekur nú til kostanna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reistur, glæsilegur og góðar gangtegundir. Á þessa leið lýsir Jóhanna Margrét Snorradóttir Bárði frá Melabergi sem var keppnishestur hennar á HM í Hollandi. „Bárður er einstakur og sambandið á milli okkar var sterkt

Reistur, glæsilegur og góðar gangtegundir. Á þessa leið lýsir Jóhanna Margrét Snorradóttir Bárði frá Melabergi sem var keppnishestur hennar á HM í Hollandi. „Bárður er einstakur og sambandið á milli okkar var sterkt. Ég hafði þekkt þennan hest lengi og tók við honum árið 2018. Bárður bætti sig á hverju ári. Fyrir knapa eru ekki til betri kennarar en svona hestar,“ segir Jóhanna Margrét.

Styrktist og varð sífellt betri

Frá barnsaldri hefur líf Jóhönnu Margrétar að stóru leyti snúist um hestamennsku. Foreldrar hennar, Hrönn Ásmundsdóttir og Snorri Ólason, eru hestafólk og voru meðeigendur Gunnars Auðunssonar að þessum rómaða hesti. Um skeið var Bárður reiðhestur Hrannar og í gegnum móður sína kynntist Jóhanna gæðingnum.

„Þegar ég tók við þjálfun á Bárði árið 2018 smullum við strax saman. Bárður skilaði mér í raun í fremstu röð í hestamennskunni og honum á ég afar mikið að þakka,“ segir Jóhanna um samfylgdina með hestinum sem stendur hjarta hennar nærri.

Fyrst mætti Jóhanna með Bárð til leiks árið 2019 og keppti þá í slaktaumatölti í meistaradeild. Náði svo Íslandsmeistaratitli í fjórgangi; fyrst 2021, samanlögðum greinum og fjórgangi 2022 og síðast fyrr í ár í fjórgangi, samanlögðum greinum og tölti. „Sá árangur lýsir Bárði vel; þetta er hestur sem sífellt hefur verið að styrkjast og verða betri,“ segir Jóhanna. Fljótlega á vegferð sinni með Bárð setti hún markið á Heimsmeistaramót íslenska hestsins. Allt í þeirri áætlun gekk upp, enda var mikil vinna sett í málið og ekkert gefið eftir.

Traustið kom öllu í jafnvægi

„Utanför frestaðist vegna covid svo ég fékk í raun tvö ár til viðbótar með hestinum sem var góður tími fyrir okkur bæði. Þjálfunin skilaði sínu og í Hollandi í sumar small allt saman. Þar fann ég reyndar að Bárður var aðeins óöruggur í fyrstu, en traust milli okkar réði því að allt komst í jafnvægi,“ segir Jóhanna og heldur áfram:

„Þó að Bárður sé geldingur hefur hann yfir sér einstakan glæsileika. Þetta er hestur sem tekið er eftir. Kveðjustund okkar Bárðar í Oirschot var tregablandin. Sem betur fer þekki ég þó aðeins til hinna nýju eigenda og fæ því áfram að fylgjast með.“ Jóhanna Margrét býr að Árbakka í Landssveit með Gústaf Ásgeiri Hinrikssyni unnusta sínum. Hann er sonur hjónanna Hinriks Bragasonar og Huldu Gústafsdóttur sem þar eystra reka stórt hrossabú og hafa mikið umleikis.

Eru þar með í húsi Kormák frá Kvistum, níu vetra hest sem Jóhanna er með í þjálfun og bindur miklar vonir við þjálfun hans sem er verkefni næstu ára.

Kormákur er efnilegur

Þegar farið er með íslenska hesta til útlanda mega þeir ekki snúa til baka vegna sóttvarnareglna. Því fjölgar hestum frá Íslandi erlendis, hrossum sem eru yfirleitt ræktuð hér heima og þjálfuð fyrstu árin.

„Vissulega er fyrir okkur sem störfum í þessari grein nokkuð ögrandi að vera sífellt að þjálfa upp nýja hesta þótt slíkt feli vissulega líka í sér ýmis spennandi tækifæri. Kormákur frá Kvistum er mjúkur á tölti, skrefstór og með góðar gangtegundir. Er mjög efnilegur tölt- og fjórgangshestur. Var í minni umsjón síðasta vetur og nú á öðru ári í þjálfun hjá mér og ég vænti auðvitað mikils af því samstarfi,“ segir Jóhanna Margrét, heimsmeistari á Árbakka.