Narendra Modi
Narendra Modi
Ég er viss um að við höfum staðið undir skuldbindingum okkar með aðgerðum og niðurstöðum.

Narendra Modi

„Vasudhaiva Kutumbakam“ – þessi tvö orð fanga djúpa heimspeki. „Heimurinn er ein fjölskylda,“ þýða þau. Í þeim felst alhliða sýn sem hvetur okkur til framfara eins og eina stóra fjölskyldu og til að hefja okkur yfir landamæri, tungumál og hugmyndafræði. Í formennskutíð Indlands í G20 hefur þetta þýtt ákall til framfara sem miðast við fólk. Við erum ein jörð og þannig komum við saman til að hlúa að plánetunni okkar. Við erum ein fjölskylda og þannig styðjum við hvert annað í leitinni að vexti. Og saman höldum við í átt að sameiginlegri framtíð – einni framtíð – sem er óneitanlega sannleikur á þessum samtengdu tímum.

Skipan heimsmála eftir heimsfaraldurinn er mjög frábrugðin því sem áður var. Þrjár mikilvægar breytingar hafa átt sér stað, meðal annarra.

Í fyrsta lagi er vaxandi skilningur á því að þörf er á að skipta úr því að horfa á heiminn út frá landsframleiðslu yfir í að horfa á manninn.

Í öðru lagi er heimurinn að átta sig á mikilvægi þrautseigju og áreiðanleika í alþjóðlegum aðfangakeðjum.

Í þriðja lagi er sameiginlegt ákall um að efla fjölþjóðastefnu með umbótum á alþjóðlegum stofnunum.

Við höfum notað formennsku okkar í G20 til að gegna hlutverki hvata í þessum breytingum.

Í desember 2022, þegar við tókum við formennsku af Indónesíu, hafði ég skrifað að G20-ríkin yrðu að koma hugarfarsbreytingu til leiðar. Mest var þörfin á að koma jaðarsettum væntingum þróunarríkja í forgang, ríkjanna á suðuhveli jarðar og Afríku.

Leiðtogafundurinn rödd suðursins (The Voice of Global South Summit) var eitt helsta verkefnið í okkar formennsku. 125 lönd tóku þátt. Það var mikilvæg æfing í að fá innlegg og hugmyndir frá löndunum í suðri. Ennfremur höfum okkur í formennskutíð okkar ekki aðeins tekist að ná mestu þátttöku Afríkuríkja frá upphafi heldur höfum við þrýst á um að Afríkusambandið fái fasta aðild að G20.

Samtengdur heimur þýðir að áskoranir okkar á milli heimshluta eru samtvinnaðar. Við erum hálfnuð á leiðinni að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 og margir hafa veitt því athygli og hafa af því miklar áhyggjur að sá leiðangur sé farinn út af sporinu. Aðgerðaáætlun G20 á þessu ári um að setja aukinn kraft í að ná heimsmarkmiðunum verður höfð að leiðarljósi í mótun stefnu G20 til framtíðar um innleiðingu þeirra.

Á Indlandi hefur fólk lifað í sátt við náttúruna frá fornu fari og við höfum lagt okkar af mörkum til loftslagsaðgerða, jafnvel á okkar tímum.

Mörg lönd í suðrinu eru á mismunandi stigum þróunar og loftslagsaðgerðir verða að vera viðbótarmarkmið. Koma verður til móts við metnað í loftslagsaðgerðum með átaki í loftslagsfjármögnun og yfirfærslu tækni.

Við teljum að það sé þörf á að hverfa frá því takmarkandi viðhorfi að einblína á hvað eigi ekki að gera, yfir í uppbyggilegra viðhorf með áherslu á hvað hægt er að gera til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

Áherslurnar, sem samþykktar voru í Chennai um sjálfbært og þolið blátt hagkerfi (Sustainable and Resilient Blue Economy), snúast um að tryggja heilbrigði hafanna.

Hnattrænt vistkerfi fyrir hreint og grænt vetni verður afrakstur formennsku okkar ásamt Nýsköpunarmiðstöð græns vetnis.

Árið 2015 stofnuðum við Alþjóðasólarbandalagið. Nú, í gegnum Alþjóðlega lífeldsneytisbandalagið, munum við styðja heiminn í orkuskiptum þannig að njóta megi ávinningsins af að koma á hringrásarhagkerfi.

Lýðræðisvæðing loftslagsaðgerða er besta leiðin til að koma hreyfingunni á skrið. Rétt eins og einstaklingar taka daglegar ákvarðanir byggðar á langtímaheilsu sinni, geta þeir tekið ákvarðanir um lífsstíl byggðar á áhrifum á langtímaheilsu plánetunnar. Rétt eins og jóga varð alþjóðleg fjöldahreyfing fyrir vellíðan, höfum við einnig ýtt á heiminn að taka upp það sem við köllum lífsstíl í þágu sjálfbærni umhverfisins (Lifestyles for Sustainable Environment eða LiFE).

Vegna áhrifa loftslagsbreytinga mun skipta sköpum að tryggja matvæla- og næringaröryggi. Hirsi, eða Shree Anna, getur hjálpað til við þetta og um leið eflt loftslagssnjallan landbúnað. Á alþjóðlegu ári hirsis höfum komið hirsi á matseðilinn um allan heim. Grunngildin, sem samþykkt voru á vegum G20 um fæðuöryggi og næringu og kennd eru við Decca, eru einnig gagnleg í þessu sambandi.

Tæknin er umbreytandi en hún þarf líka að vera fyrir alla. Í fortíðinni hefur ávinningur tækniframfara ekki komið öllum þjóðfélagshópum til góða. Indland hefur á undanförnum árum sýnt hvernig hægt er að nýta tækni til að minnka ójöfnuð, frekar en að auka hann.

Nú er til dæmis hægt að gera milljörðum manna um allan heim, sem ekki eru tengdir banka eða skortir stafræn auðkenni, kleift að vera með í peningakerfinu með hjálp stafrænna innviða á vegum hins opinbera (Digital Public Infrastructure eða DPI). Lausnirnar, sem við höfum fundið með okkar stafrænu innviðum, hafa nú hlotið viðurkenningu á heimsvísu.

Í gegnum G20 munum við nú hjálpa þróunarlöndum að heimfæra, byggja upp og stilla umfang stafrænna lausna að sínum þörfum til að leysa úr læðingi kraftinn sem fylgir vexti þar sem allir eru með.

Það er engin tilviljun að Indland er stórt hagkerfi, sem nú vex hvað hraðast. Einfaldar, aðlögunarhæfar og sjálfbærar lausnir okkar hafa valdeflt þá sem standa höllum færi og eru jaðarsettir til að leiða þessa þróun hjá okkur. Frá geimnum til íþrótta, hagkerfi til frumkvöðlastarfs, indverskar konur hafa tekið forystu í ýmsum greinum. Þær hafa breytt söguþræðinum. Hann snýst ekki lengur um þróun kvenna, heldur þróun undir forustu kvenna. Undir forsæti okkar í G20 hefur verið unnið að því að brúa stafræna gjá kynjanna, minnka mun á atvinnuþátttöku og gefa konum stærra hlutverk í forystu og ákvarðanatöku.

Fyrir Indland er G20 formennskan ekki aðeins diplómatísk viðleitni á háu stigi. Sem móðir lýðræðisins og fyrirmynd fjölbreytileika höfum við opnað dyrnar að þessari reynslu fyrir heiminum.

Í dag er það eiginleiki sem tengist Indlandi að ná árangri í hlutfalli við umfang. Forustutíminn í G20 er engin undantekning. Þetta er orðið að hreyfingu sem er knúin af fólki. Yfir 200 fundir munu þegar upp er staðið hafa verið skipulagðir í 60 indverskum borgum með þátttöku þjóðarinnar langsum og þversum. Þá munum við hafa tekið á móti næstum 100.000 fulltrúum frá 125 löndum. Ekkert forsetaembætti hefur nokkru sinni náð yfir jafn mikla og fjölbreytta landfræðilega víðáttu.

Það er eitt að heyra um lýðfræði Indlands, lýðræði, fjölbreytileika og þróun frá einhverjum öðrum. Það er allt annað að upplifa þessa hluti af eigin raun. Ég er viss um að fulltrúar okkar í G20 myndu votta þetta.

Í forsetatíð okkar í G20 höfum við leitast við að brúa gjár, ryðja niður hindrunum og sá fræjum samvinnu til að næra heim þar sem eining ríkir yfir ósætti, þar sem sameiginleg örlög varpa skugga á einangrun. Í forsetatíð okkar í G20 höfðum við heitið því að hleypa fleirum að alþjóðlega borðinu, tryggja að hver rödd heyrist og hvert land leggi sitt af mörkum. Ég er viss um að við höfum staðið undir skuldbindingum okkar með aðgerðum og niðurstöðum.

Höfundur er forsætisráðherra Indlands.

Höf.: Narendra Modi