Ágúst Veðurblíða var flesta daga.
Ágúst Veðurblíða var flesta daga. — Morgunblaðið/Eyþór
Nýliðinn ágúst var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Það var óvenju hægviðrasamt í mánuðinum og úrkoma undir meðallagi. Mjög þurrt var fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýliðinn ágúst var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Það var óvenju hægviðrasamt í mánuðinum og úrkoma undir meðallagi.

Mjög þurrt var fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum féll meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum.

Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti fyrir mánuðinn, sem Veðurstofan hefur birt.

Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 12,2 stig og er það 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var 6. hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík. Þær spanna 153 ár. Á Akureyri var meðalhitinn 11,5 stig, 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig 0,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 11,1 stig og 10,9 stig á Höfn í Hornafirði.

Úrkoma í Reykjavík mældist 59,2 millimetrar, sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 29,3 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Það var mjög þurrt á Akureyri fram eftir mánuðinum, en meirihluti mánaðarúrkomunnar er skráður að morgni þess 27., þegar sólarhringsúrkoman mældist 24,2 mm. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 19,0 mm sem er aðeins um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 22,4 mm sem er með því minnsta sem þekkist þar í ágústmánuði.

Afar sólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 208,7 í ágúst sem er 43,9 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 176,8 sem er 38,8 stundum yfir meðallagi.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson