Hrafn Hauksson, Krummi, fæddist á heimili sínu Pólgötu 6 á Ísafirði 24. febrúar 1959. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, eftir stutta baráttu við krabbamein, þann 30. ágúst 2023.

Hann var sonur hjónanna Sigríðar Maríu Aðalsteinsdóttur og Hauks Ingasonar og var næstyngstur barna þeirra hjóna. Systkini Krumma eru Martha, Aðalsteinn, Haukur Ingi og Hildur Hauksbörn.

Fjölskyldan fluttist til Njarðvíkur árið 1961 og bjuggu þau lengst af á Hlíðarvegi 5.

Krummi átti fjögur börn, eina uppeldisdóttur og sjö barnabörn. Þau eru: 1) Örn Ingi, kvæntur Shannon Jackson, synir þeirra eru Kilian Hrafn og Björgvin Alec. 2) Birgir, kvæntur Amber Evelyn Sorsek, börnin þeirra eru Christian, Elías og Abigail. 3) Ástþór Ernir, sambýliskona hans er Elín Ólöf Benediktsdóttir, synir þeirra eru Benedikt Rúnar og Hákon Erik. 4) Hrafnhildur Baldey, sambýlismaður hennar er Daníel B. Kröyer. Uppeldisdóttir Krumma er Aldís Lind, sambýlismaður hennar er Florian Stascheck.

Eftirlifandi sambýliskona Krumma er Kristín Hannesdóttir og bjuggu þau saman í Mosfellsbæ. Synir hennar eru Hannes, Davíð og Bjarki Þór.

Krummi starfaði lengst af sem kerfisfræðingur, fyrst
um sinn hjá Keflavíkurverktökum, síðar hjá Skýrr/Advania. Síðustu ár hefur hann starfað hjá Auðkenni sem skráningarfulltrúi og skrifstofustjóri.

Útför Krumma fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. september 2023, klukkan 13.

Streymi:

https://streyma.is/streymi/

Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér

og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.

En ég vona bara hann hugsi soldið hlýlega til mín

og leiði mig á endanum aftur til þín.

(Megas)

Elsku besti Krumminn minn, hjartað mitt er í þúsund molum og tárin streyma niður kinnarnar. Trúi því ekki að þú sért farinn, ekki langt síðan við vorum að plana árin fram undan, ferðir og fleiri upplifanir sem við ætluðum að njóta í botn. En fljótt skipast veður í lofti, krabbameinið, sem lætur ekki að sér hæða, réðst á þig með offorsi og sigraði svo að lokum.

Ég syrgi tímann sem við fáum ekki saman, að geta ekki ferðast með þeim besta ferðafélaga sem ég hef hitt um ævina og notið lífsins, því það kenndir þú mér og kunnir það svo vel.

En ég hef líka rifjað upp góðu tímana okkar sem voru svo margir síðustu tíu árin, við að elda saman á laugardögum, horfa saman á enska boltann, blótandi dómurum og ræðandi leikmenn. Eins voru helgarbíltúrarnir okkar yndislegir, við enduðum oftar en ekki á allt öðrum stað en við ætluðum því það var svo gaman að keyra og njóta landsins. Man þegar við ætluðum að kíkja á Þingvelli en enduðum í Árneshreppi og borðuðum kvöldmat á Hótel Djúpuvík, það var ekki leiðinleg ferð. Eins voru sveppatínsluferðirnar okkar yndislegar og leiddu okkur á ýmsar slóðir. En mest man ég hvað það var gaman með þér, hversu náin við vorum orðin, húmorinn okkar var eins, stundum litum við hvort á annað og vissum hvað hitt var að hugsa. Gátum svo líka setið í þögninni, ekki alltaf þörf fyrir orð.

Takk fyrir samveruna, ástin mín, þó að hún væri mikið styttri en planað var, þá var hún yndisleg og þó að ég sé að kveðja þig núna verðurðu alltaf í hjarta mínu.

Þín

Kristín.

Elsku yndislegi pabbi minn.

Orð fá því ekki lýst hversu mikils virði það er mér að hafa, þegar ég var að verða þriggja ára gömul, fengið þig inn í mitt líf.

Undanfarnir mánuðir hafa verið mikil þrautaganga en á þessum síðustu og erfiðustu stundum tókst þú öllu með ótrúlegasta æðruleysi sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að. Þú sýndir það svart á hvítu hvaða mann þú hafðir að geyma og hvernig karakter þú varst.

Í dag sit ég hér og skrifa þessi orð með stórt skarð í hjartanu en ég hlýja mér yfir öllum góðu minningunum, húmornum þínum og öllu því óáþreifanlega sem þú gafst mér. Þegar ég lít yfir farinn veg þá mun þakklæti alltaf vera mér efst í huga.
Ég er þakklát fyrir allt sem þú hefur kennt mér, allt sem þú hefur skilið eftir í mér, skilninginn og þolinmæðina sem þú sýndir mér.

Elsku pabbi minn, takk fyrir að hafa verið þú og ætíð sjálfum þér trúr.

Hvert sem ég fer fylgir þú mér

Ég mynd þína ber í huga mér

Helju úr heimt hefur þú mig

Grafið og gleymt gefið mér þig

Létt er mín lund lauguð af þér

Gyllir nú grund geislanna her

Hvert sem ég fer fylgir þú mér

Ég mynd þína ber í hjarta mér

(Þorsteinn Einarsson)

Þín dóttir,

Aldís Lind.

Elsku besti pabbi minn, mikið rosalega var ég heppin að hafa fengið að eiga þig sem pabba og minn allra besta vin í 29 ár.

Þú kenndir mér svo margt í gegnum ævina, en það mikilvægasta sem þú kenndir mér var við þinn síðasta spöl í lífinu og það er að taka hlutunum með æðruleysi, elska náungann og alltaf halda í húmorinn, sama hvað.

Ég gæti skrifað endalaust um þig, elsku Barbapabbinn minn, og rifjað upp óteljandi minningar og ævintýri sem við höfum lent í, en ég læt þennan lagatexta duga sem hefur verið límdur í höfðinu á mér síðan þú kvaddir okkur.

Ó, pabbi minn,

hve undursamleg ást þín var.

Ó, pabbi minn,

þú ávallt tókst mitt svar.

Aldrei var neinn

svo ástúðlegur eins og þú.

Ó, pabbi minn,

þú ætíð skildir allt.

Liðin er tíð

er leiddir þú mig lítið barn.

Brosandi blítt

þú breyttir sorg í gleði.

Ó, pabbi minn.

Ég dáði þína léttu lund,

leikandi kátt

þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn,

hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar

ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson)

Þinn krummaungi,

Hrafnhildur Baldey.

Elsku besti Krummi minn.

Aldrei hefði mér dottið í hug að ég væri að skrifa þessa kveðju, en lífið er víst hverfult en minningarnar verma.

Þú varst mér alltaf sem sonur og fyrir það verð ég ávallt þakklát.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þín tengdó,

Aldís

Haraldsdóttir.