Við Ægisgarð Hvalbátarnir voru mikið í sviðsljóðsinu í vikunni vegna mótmæla tveggja kvenna. Þeir lögðu af stað til veiða síðdegis á þriðjudaginn.
Við Ægisgarð Hvalbátarnir voru mikið í sviðsljóðsinu í vikunni vegna mótmæla tveggja kvenna. Þeir lögðu af stað til veiða síðdegis á þriðjudaginn. — Morgunblaðið/Eggert
Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna hefur ákveðið að staðsetningu hvalbátanna verði ekki breytt að svo stöddu. Þessi ákvörðun er tekin með hliðsjón af minnisblaði Gísla Jóhanns Hallssonar yfirhafnsögumanns

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna hefur ákveðið að staðsetningu hvalbátanna verði ekki breytt að svo stöddu. Þessi ákvörðun er tekin með hliðsjón af minnisblaði Gísla Jóhanns Hallssonar yfirhafnsögumanns. Hvalbátarnir munu því áfram liggja við Ægisgarð í Gömlu höfninni í Reykjavík þegar þeir eru ekki á veiðum.

Gunnar hafnarstjóri kynnti ákvörðun sína á fundi stjórnar Faxaflóahafna í síðasta mánuði. Fram kemur í fundargerð að stjórnin hafi ekki gert athugasemd við ákvörðun hans.

Dramatískir atburðir urðu um borð í hvalbátunum í vikunni eins og alþjóð fylgdist með.

Til upprifjunar var á fundi borgarstjórnar 16. maí 2023 samþykkt svohljóðandi tillaga:
„Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, með vísun til margvíslegra umhverfisverndarstefna borgarinnar, aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og stöðu höfuðborgarinnar sem ferðamannastaðar, að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að skoða hvort hægt verði að finna annan stað fyrir hvalveiðiskip fyrirtækisins Hvals hf. en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar.“

Ræddu við forstjóra Hvals

Fram kemur í minnisblaði yfirhafnsögumanns að á fundi hafnarstjórnar í maí sl. var hafnarstjóra falið að skoða hvaða aðrir möguleikar á staðsetningu í höfnum Faxaflóahafna væru ákjósanlegir. Í framhaldinu hitti Gísli Jóhann, ásamt hafnarstjóra, Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf., til að fara yfir mögulegar nýjar staðsetningar. Kom fram hjá Kristjáni að Hvalur hf. hefði verið með sín hvalveiðiskip í Gömlu höfninni í Reykjavík síðan 1947 og þau verið tengd heitu vatni sl. 50 ár til að halda hita á skipunum ásamt því að vera tengd rafmagni. Á nýjum stað væri því þörf á aðgangi að heitu og köldu vatni ásamt rafmagni sem og því að geta haft skipin hvort utan á öðru.
Á fundinum voru skoðaðar eftirfarandi mögulegar staðsetningar ásamt kostum:

• Reykjavík – Bótarbryggja SV megin. Þrengir of mikið að umferð til og frá Verbúðarbryggju sem og ferðum björgunarbáta með aðstöðu neðan við gamla Slysavarnahúsið. Heitt vatn ekki til staðar. Rafmagn til staðar.
• Reykjavík – Grandabryggja „Stubbur“. Legan er of stutt fyrir hvalveiðiskipin, olíuafgreiðslubryggja of nálægt, Heitt vatn ekki til staðar. Rafmagn til staðar.
• Reykjavík – Austurbakki. Við fyrirhugaða færslu dráttarbáta af Austurbakka á næstu misserum myndi lega hvalveiðiskipa rýra notagildi bryggjunnar verulega. Minnkar viðlegupláss á suðurhluta Faxagarðs. Heitt vatn til staðar. Rafmagn til staðar.
• Reykjavík – Vatnagarðabakki. Bakkinn er á farmsvæði á svæði Eimskips. Ekki er rafmagn í bryggjunni. Heitt vatn ekki til staðar.
• Akranes – Faxabryggja, innsti hluti. Dýpi of lítið við bryggjuna og ókyrrð í SV- og V-áttum. Heitt vatn ekki til staðar á bryggjunni. Rafmagn til staðar.

Það er mat Gísla Jóhanns, sérstaklega með tiliti til þess að núlíðandi ár er það síðasta í gildandi leyfi til veiða á hval, að hvalveiðiskipin séu á besta mögulega stað með tilliti til sem bestrar nýtingar á bryggjuplássi í Gömlu höfninni. Hafa beri í huga að skipin liggja hvort utan á öðru og taka því ekki eins marga metra af bryggjuplássi og ef þau lægju bæði við bryggju.

Bryggjugjöld skipanna eru þau sömu, hvort heldur þau eru bæði við bryggju eða hvort utan á öðru. Eins beri að hafa í huga að skipin standa töluvert út frá þeirri bryggju sem þau liggja við. Ef þau yrðu færð gætu þau þrengt að nálægum svæðum sem geri öðrum skipum erfiðara um vik að sigla með öryggi til og frá bryggju/höfn. Umferð fram hjá núverandi viðlegu er einungis skip sem fara í og úr Slippnum.

Segja má að bátar Hvals hf. séu komnir nokkuð til ára sinna. Hvalur 8 er smíðaður árið 1948 og er 461 brúttótonn. Hvalur 9 er smíðaður árið 1952 og er 573 brúttótonn. Þetta eru stálskip, smíðuð í Noregi.

Hver er h***?

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson