Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Magnús Kjartansson telur í og gefur tóninn á stórtónleikum í Eldborg í Hörpu næstkomandi laugardagskvöld. Þar fer hann yfir langan feril sinn – og fluttar verða dægurperlur sem þjóðin þekkir og hefur tekið ástfóstri við. Lítill drengur, Skólaball, Einskonar ást, Tölum saman og To be Grateful; þetta eru lög á lágstemmdum nótum sem áberandi verða á fyrri hluta tónleikanna. Rokk frá tímum Óðmanna og Trúbrots verður því næst tekið.
Fjölbreytnin ræður
Fjölbreytnin verður annars ráðandi. HLH-flokkurinn, Brimkló, Júdas og Sléttuúlfurinn eru einnig hljómsveitir sem Magnús hefur starfað með aukinheldur sem hann hefur útsett fjölda laga annarra og stjórnað upptökum á plötum mikils fjölda tónlistarmanna.
Af nægu er því að taka á tónleikunum sem bera nafn eins laga Magnúsar; My Friends and I.
„Sum þeirra laga sem ég hef samið hafa náð miklum vinsældum. Fyrir vikið finnst þjóðinni hún sjálfsagt eiga hlutdeild í þeim. Og einmitt þá, þegar kemur að tónleikum þar sem farið er yfir ferilinn, er kúnstin kannski helst sú að láta lögin í flutningi halda sér í upphaflegri gerð. Bæta engu við; slíkt er annarra tónlistarmanna að gera ef þeir velja lögin til flutnings,“ segir Magnús.
Í konungssal
Landslið hljóðfæraleikara og söngvara hefur nú í vikunni æft fyrir tónleikana í Hörpu; húsi margra möguleika eins og Magnús tiltekur. „Eldborg er konungssalur tónlistarinnar sem hefur yfir sér lotningu sem ekki er svo gott að lýsa. Harpa hefur skapað alveg nýja möguleika enda hafði lengi verið barist fyrir því að á Íslandi yrði reist veglegt tónlistarhús,“ segir hann.
Tónleikarnir hefjast með laginu Andartak; þar sem Magnús situr einn við flygilinn og syngur með kontrabassaleikara sér við hlið á sviðinu. Þetta er lag úr kvikmyndinni Veiðiferðin eftir Andrés Indriðason og fleiri sem gerð var um 1980.
„Ég var beðinn um að semja lag sem passaði inn í draumasenu við Almannagjá, en þessi mynd var að mestu leyti tekin á Þingvöllum. Lagið er einfalt, hefur enst vel og tilvalið að byrja á því. Næst kemur svo Lítill drengur, lag sem ég samdi við texta sem Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson gerði,“ segir Magnús.
Stórt púsluspil
Lagið Lítill drengur og fleiri eru frá fyrstu árum Hljóðrita, upptökustúdíós sem sett var á laggirnar árið 1975. Tilkoma þess breytti á sínum tíma miklu fyrir íslenskt tónlistarlíf. Gott hljóðver með fjölrása upptökutækjum skapaði alveg nýja möguleika svo öll útgáfa á hljómplötum jókst til muna. Magnús stýrði upptökum á mörgum þeirra og samdi þá stundum hljómbúta, stef og jafnvel heilu lögin sem þurfti. Og þannig myndaðist á löngum tíma allstór katalógur af lögum, svo úr nægu er að velja fyrir tónleikana nú.
„Að skipuleggja og setja upp tónleika er stórt púsluspil. Velja þarf lög við hæfi og stilla málinu þannig upp að einhver heildarmynd náist. Undirbúningurinn er stórt excel-skjal sem hefur tekið allskonar breytingum. Stóri galdurinn í þessu öllu er að hafa gott fólk með sér,“ segir Magnús.
Öndvegis lagasmiður
Á tónleikunum koma fram söngvararnir Stefán Hilmarsson, Stefanía Svavarsdóttir, Selma Björnsdóttir og Sigurður Guðmundsson. Einnig hljómsveitin Vintage Caravan – og svo einvala lið góðra hljóðfæraleikara.
„Ég met Magga mikils, líkt og allir mínir samtímamenn í tónlistinni,“ segir Stefán Hilmarsson um aðkomu sína að þessum tónleikum. Þar mun hann syngja Lítill drengur og munu margir taka undir.
„Mér finnst Lítill drengur með fegurstu söngvum sem hljóðritaðir hafa verið hérlendis. Ég hlakka því sérlega til þessara tónleika. Auk þess að vera öndvegis lagasmiður, þá er hann einn skemmtilegasti karakter tónlistarbransans. Þess utan þekki ég Magga sem einarðan málsvara og ötulan vaktmann fyrir tónhöfunda fyrr og nú. Það er mér því ánægju- og tilhlökkunarefni að fá að taka þátt í þessum tónleikum,“ segir Stefán.