Viðtal
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
viðtal
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidur@mbl.is
„Veturinn leggst mjög vel í mig, sérstaklega af því við fáum að halda rekstri áfram. Þetta leit ekki vel út á tímabili,“ segir Sara Martí Guðmundsdóttir leikhússtjóri Tjarnarbíós. Fyrsta frumsýning vetrarins, Sund í leikstjórn Birnis Jóns Sigurðssonar, var fyrir viku og margar eru fram undan.
„Við erum með flestar frumsýningar allra leikhúsanna á landinu svo ég er bara svolítið montin af okkur,“ segir Sara en alls verða þrettán verk frumsýnd í Tjarnarbíói í vetur. Ólíkar sýningar verða hins vegar alls 22 því að vinsælar sýningar frá fyrra leikári skjóta upp kollinum á ný.
Leikárið í Tjarnarbíói stýrist iðulega að stórum hluta af því hvaða verk hafa fengið styrk úr Sviðslistasjóði. „Þess vegna kemur þetta svolítið í bylgjum. Núna fáum við til dæmis þrjár barnasýningar en það var bara ein í fyrra,“ segir Sara. Barnasýningarnar þrjár eru ævintýraóperan Hans og Gréta, Jólaævintýri Þorra og Þuru og Ég heiti Steinn, sem er sýning án orða.
Sara segir leikveturinn einkennast af mikilli fjölbreytni hvað varðar ólíkar greinar sviðslistanna. Boðið verður upp á tíu leikverk, fjórar uppistandssýningar, eina sketsasýningu, eitt dansverk og þrjú tónleikhúsverk auk barnasýninganna. Þá hýsir Tjarnarbíó sex sviðslistahátíðir og því bætast enn fleiri verk við á dagskrána.
„Þetta gerist aldrei“
Grín og glens verður að sögn Söru áberandi í vetur. „Það er greinilega einhver spenna fyrir því, svo mikil að við gátum búið til sér áskriftakort fyrir svoleiðis sýningar.“ Hún nefnir sem dæmi sketsasýningu hópsins Kanarís, sem hefur vakið athygli fyrir þáttaraðir sínar á RÚV, og uppistandssýningar Hugleiks Dagssonar og Ara Eldjárn. Þá munu uppistandararnir Bolli Már og Inga Steinunn einnig koma fram í leikhúsinu í vetur.
Þá segir Sara að áhugaverðar sögur einkenni leiksýningarnar. Hún nefnir sem dæmi sjálfsævisögulega verkið Stroke eftir Virginiu Gillard og sviðslistahópinn Trigger Warning. „Það er ótrúlega merkileg saga um Virginiu sem starfaði sem trúður á deild fyrir langveik börn og fékk síðan heilablóðfall. Frá þessu segir hún einhvern veginn á fyndinn hátt.“
Hún nefnir einnig verkið Félagsskap með ókunnugum sem er einleikur Gunnars Smára Jóhannessonar. „Þar segir frábær ungur leikari frá því hvernig það var að missa báða foreldra sína,“ segir Sara en bendir á að þótt um alvarlegt málefni sé að ræða nýti hann einnig grín til þess að segja frá.
Önnur ný leikverk sem sýnd verða í Tjarnarbíói eru Pabbastrákar eftir Hákon Örn Helgason og Helga Grím Hermannsson, danska verðlaunaverkið Kannibalen í leikstjórn Adolfs Smára Unnarssonar og Dúett eftir Brogan Davison og Pétur Ármannsson.
Sara segir óvenjulegt að þrjú tónleikhúsverk séu sýnd sama leikárið. „Það gerist náttúrulega aldrei. Fyrsta verkið er nýr íslenskur rokksöngleikur, Hark eftir Þór Breiðfjörð. Annað verkið nefnist Look at the music og er hugsað fyrir bæði heyrandi og heyrnarlausa. Þriðja verkið er kórverkið Ljósið og ruslið eftir Benna Hemm Hemm og Ásrúnu Magnúsdóttur.“
Af nýjum frumsýningum má að lokum nefna dansverkið Satanvatnið þar sem ballett og þungarokki er blandað saman. Selma Reynisdóttir er listrænn stjórnandi sýningarinnar.
58% aukning í miðasölu
„Það er alltaf mest um ný íslensk verk hér vegna þess að Sviðslistasjóður styrkir frekar ný íslensk verk heldur en erlend verk. Þannig að fyrir utan að við séum með flestar frumsýningar á árinu þá erum við líka með flestar íslenskar sýningar,“ segir Sara.
„Valnefndin okkar reyndi svolítið að höfða til allra, við verðum að gera það. Það reyndist ágætlega í fyrra þannig að við ætlum að halda áfram með það góða gengi og miðað við hvernig kortasalan fer af stað hjá okkur þá lítur þetta bara vel út,“ segir Sara. Þrenns konar áskriftarkort eru í boði í ár; Tjarnarkort, Grínkort og Fjölskyldukort.
Breiddin virðist hafa höfðað til leikhúsgesta. „Það var metsöluár hjá okkur í fyrra. Það hafa aldrei komið eins margir áhorfendur. Það var 58% aukning í miðasölu frá síðasta metsöluári og við erum mjög montin af því,“ segir Sara.
„Það hafa heldur aldrei verið jafnmargir leikhópar á einu leikári og í fyrra. Við troðfylltum húsið, með 40 leikhópum. Það gerði það að verkum að það voru þrjú eða fjögur hundruð manns sem voru að vinna hérna í fyrra og það er reyndar svipað í ár. Svona mikill fjöldi býr til mikinn fjölda í kringum sig. Það var líka bara almenn spenna fyrir leikárinu í fyrra.“
Þá segir hún þau Sindra Þór Sigríðarson framkvæmdastjóra hafa lagt áherslu á góða markaðssetningu.
„Í þessum töluðu orðum erum við að búa til námskeið fyrir leikhópana í markaðssetningu. Það skiptir höfuðmáli þegar maður er listamaður að kunna að segja rétt frá því sem maður er að gera. Við höfum ekki milljónirnar, bara hugvitið og sköpunina.“
Plássleysið er áskorun
Í vor tilkynnti Sara að ef Tjarnarbíó fengi ekki meiri fjárstuðning frá ríki og borg yrði að loka húsinu nú í september.
„Við fengum loksins athygli stjórnvalda. Við áttum góðan fund með Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra í byrjun sumars sem sýndi stöðu senunnar mikinn skilning. Ríkið og borg eru núna í samræðum um hvernig megi styðja við starfsemina í húsinu og senuna alla betur,“ segir leikhússtjórinn en leikhúsinu var tryggður aukinn fjárstuðningur í byrjun sumars svo að ekki kæmi til lokunar.
Fyrsta skrefið segir Sara hafa verið að halda húsinu opnu. „Okkur var komið til bjargar en vonandi kemur eitthvað meira til en það.“ Næst á dagskrá sé að berjast fyrir nýju sviði sem og æfinga- og geymsluplássi.
„Við erum að sýna jafnmargar sýningar og Þjóðleikhúsið, þau eru með 23 og við erum með 22, en við erum með eitt svið og þau eru með þrjú. Það er bókað hjá okkur hvern einasta dag þangað til í júní á næsta ári,“ segir hún.
„Við erum ekki með leikmyndageymslur í húsinu og heldur ekki æfingapláss. Það er áskorun og við erum orðin þreytt á að bíða. Það er jafnmenntað fólk hér og í hinum húsunum sem er að gera jafnáhugaverða og mikilvæga hluti,“ segir Sara.
„Við erum búin að vera að koma með alls konar lausnir til þess að bæta úr þessu. Það er enn svo borðleggjandi að hérna við hliðina á okkur er annað hús í eigu borgarinnar sem myndi skaffa okkur geymslupláss fyrir leikmyndir og búninga, æfingaherbergi og allt þetta sem við þurfum. Svo er risastórt bakport þar sem hægt væri að búa til annað svið. Það er svo nauðsynlegt fyrir sviðslistasenuna að fá annað svið.“
Næsta barátta
Sara vekur athygli á því hve fá svið séu eftir á landinu. „Þarna eru stjórnvöld algjörlega að bregðast. Sviðin verða alltaf færri og færri. Tónlistarfólk kvartar yfir þessu sama,“ segir hún.
„Stjórnvöld eru búin að taka ákvörðun um að mennta hér fullt af sviðslistafólki og það er ekkert sem tekur á móti fólki þegar það kemur úr skólanum. Það er augljóst að tvö leikhús á höfuðborgarsvæðinu og eitt fyrir norðan er ekki að fara að dekka þetta. Það þarf eitthvað að koma til ef þetta fólk á ekki að fara á atvinnuleysisbætur eða gera eitthvað allt annað en það sem er búið að leggja alla þessa peninga í,“ segir Sara.
„Það er bara næsta barátta. Annað svið og fleiri stöðugildi svo að við getum sinnt öllu þessu fólki. Við erum búin að segja þetta margoft en það verður ekki of oft sagt, senan er bara sprungin.“
Þá minnir Sara á að endurnýja þurfi tækjabúnað hússins. Hún bendir á að frumsköpun í leikhúsi samtímans krefjist oft nýjustu tækni, þegar margmiðlun og jafnvel gervigreind ryðja sér til rúms.
„Okkur eru settar ákveðnar hömlur. Við erum búin að fá alls konar tilboð um ótrúlega áhugaverðar sýningar, t.d. eru erlendir hópar sem vilja koma með eitthvað meiri háttar spennandi, en húsið okkar býður ekki upp á það út af tækninni. Það er vandræðalegt og þýðir líka að við erum að missa af erlendu fjármagni. Það er óþolandi að við þurfum alltaf að betla því að það er nákvæmlega jafnmikil fagmennska í gangi hér og í öðrum húsum,“ segir hún.
Að því sögðu segist Sara stolt af þeim árangri sem náðst hefur á síðastliðnu ári. „Það er létt yfir þessu leikári, það er margt gleðilegt. Við erum örugg um húsið okkar, um starfið okkar, og þá getur maður farið aðeins léttari og glaðari inn í veturinn.“