Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson vísu áttþætta:
Sálma Dúna syngur núna,
sífellt hún vill iðka trúna.
Meðan Rúna mjólkar kúna
Mangi lúna kyssir frúna.
Hér yrkir Guðmundur um Limrusnilld:
Þessi limra sér lyfti á flug
svo ljómandi grínagtug
og fjörug og fyndin
hún flygi'út í vindinn
svo fremi mér dytt'ún í hug.
Lóan í flokkum flýgur eftir Pál Jónasson í Hlíð:
Hún horfir á flokkinn sinn fara
þennan frjálsa vængjaða skara,
hún vængbrotin er
og veit hvernig fer
þegar haustar á norðurhjara.
Hallmundur Kristinsson yrkir og kallar Boðnmiðingar:
Við erum margir við kveðskapinn kenndir,
sem kunnum að yrkja af snilli.
Vísa er mestmegnis upphaf og endir
og innihald þar á milli.
Dagbjartur Dagbjartsson svarar:
Ótrúlega orðasnjall
okkur léttir krísur
margir gleðjast meðan Hall-
mundur yrkir vísur.
Hjálmar Jónsson yrkir:
Fölna tekur lauf á lyngi
ljós og hlýja dvína fer.
Helga Vala hætt á Þingi.
Hjálpi mér sá sem vanur er.
Ólafur Stefánsson kveður:
Það skal fátt um þetta tala,
þó að hvísli sumir smá:
Hætt á Þingi Helga Vala,
horfir Kristrún þögul á.
Magnús Geir Guðmundsson orti á laugardag:
Helga vala hætt á þingi,
hundfúlt þykir mér
Í hjarta margra heldjúpt stingi,
hún af flestum ber.
Því tárin eigi flæða fá,
víst feikimörg að tölu.
Svo agaleg er eftirsjá,
af elsku Helgu Völu!
Augnablik í suðvestan hryðju. Magnús Halldórsson yrkir:
Í þaki dunar, þétt við skjá
með þungum drunum skrækir.
Að ofan bruna ögn á ská,
ótal bunulækir.
Ég var kvensamur, kúl og hipp,
og kenndur við alls konar flipp.
En flippunum fækkar
þegar fjölskyldan stækkar;
í dag var ég dreginn í slipp.
Og hér er limran Hvassviðri eftir Davíð Hjálmar:
Allt til að fjúka var fokið,
svo fádæma mikið var rokið
að Helga í Mó
hóstaði og dó
því að stormurinn stíflaði kokið.
Páll Bergþórsson orti:
Er forsið úr Hólm-Steini fokið?
Er frjáls-æði úr Þor-Steini rokið?
Fellir íslensk þjóð
sitt stóriðjustóð?
Er Stein-öld á Hólmanum lokið?
Ég hef alltaf gaman af þessari limru Jóhanns S. Hannessonar:
Þegar ekkert er af manni að frétta
er óhætt að stóla á þetta
til að vekja á sér at-
hygli að klifra upp á kat-
ólsku kirkjuna og láta sig detta.
Einar Jochumsson kvað:
Einar karl því eftir tók
og það játar glaður:
Abraham átti enga bók,
einn sá besti maður.