Pétur Guðmundsson fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1942. Hann lést á heimili sínu 30. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Guðbjörg Benediktsdóttir. f. 20. júlí 1907. d. 30. júní 1970, og Guðmundur Stefán Gíslason, f. 15. janúar 1906, d. 20. janúar 1970.

Systkini Péturs eru Brynhildur, f. 15. mars 1930, d. 5. september 2002, Stefán Gísli, f. 21. mars 1932, d. 15. september 1995, Ingvi Benedikt, f. 12. júní 1934, d. 14. apríl 2020, Björn Jóhannes, f. 1. apríl 1949.

Pétur giftist Matthildi Jóhannsdóttur, f. 1. febrúar 1942, þau byggðu sér hús í Mosfellssveit, Markholt 18, þau skildu. Barn þeirra er Pétur, f. 30. júlí 1964 í Reykjavík. Hann giftist Sigríði Sigurðardóttur, f. 25. júlí 1964, hinn 20. júní 1998. Börn þeirra eru Sindri Þór Steingrímsson, f. 2. desember 1987, í sambúð með Dominiku Majewska, f. 6. júlí 1988. Sonur þeirra er Benjamin Thor, f. 2. október 2020. Stefanía Ósk Pétursdóttir, f. 29. apríl 1995, í sambúð með Brynjari Falkvard Birgissyni, f. 29. apríl 1994.

Uppeldisdóttir Péturs er Ragnheiður Ketilsdóttir, f. 22. maí 1959, gift Gretti Gunnarssyni, f. 3. desember 1966. Hennar börn eru Matthildur, f. 13. maí 1982, Jórunn Guðrún, f. 15. janúar 1986, og Edmund Oddur, f. 12. júní 1990.

Pétur bjó með foreldrum sínum og systkinum í Reykjavík, fyrst á Víðimel og svo í Sigtúni 27 og gekk í Laugarnesskóla. Tók gagnfræðipróf frá Reykholti 1958. Útskrifaðist síðan sem búfræðingur frá Hvanneyri árið 1960 og hélt síðan til Danmerkur í frjótækninám í bænum Malling á Jótlandi og útskrifaðist sem frjótæknir árið 1962.

Eftir búfræði- og frjótækninám réð Pétur sig hjá Búnaðar—sambandi Kjalarnesþings og starfaði þar sem frjótæknir til ársins 1972. Sama ár fór hann að vinna hjá Véladeild Sambandsins við ýmis störf tengd búvélum og varahlutum. Síðan fer hann í mjaltavélauppsetningar hjá Alfa Laval innan Sambandsins, sérhæfir sig í þeim efnum og endar á því að stofna sitt eigið fyrirtæki því tengt þegar Samband íslenskra samvinnufélaga rennur sitt skeið. Heimsótti hann mjög marga mjólkurframleiðendur á þessum tíma. Pétur gerðist meðlimur í Frímúrarareglunni á Íslandi og gekk í þeirra raðir árið 1987.

Árið 1994 flytur Pétur á Grundartjörn 1 á Selfossi og gerist landpóstur hjá Póstinum. Árið 2006 flytur hann aftur í Mosfellsbæ, í Klapparhlíð 1, og gerist umsjónarmaður fasteigna Lágafellslaugar þar til hann hætti störfum vegna aldurs. Pétur var mjög virkur í störfum fyrir Félag aldraða í Mosfellsbæ og var í stjórn félagsins sem ritari og formaður íþróttanefndar.

Útför Péturs fer fram frá Langholtskirkju í dag, 7. september 2023, klukkan 13.

Það var árið 1972, ég þá átta ára gamall, að ég bankaði á dyrnar hjá pabba uppi í Breiðholti og vildi búa hjá honum. Um leið og ég gekk inn fyrir breyttist pabbi í einstæðan föður sem þurfti að gera ýmislegt meira en hann var vanur. Í þá daga var það fréttnæmt, svo fréttnæmt að tekið var opnuviðtal við pabba í dagblaðinu Tímanum. Yfirskrift greinarinnar var „Ég get þetta ekki er setning sem fer í skapið á mér – segir Pétur Guðmundsson einstæður útivinnandi faðir“. Það voru orð að sönnu hjá pabba.

Pabbi hafði gaman af að elda mat, fékk uppskriftir héðan og þaðan og þá aðallega frá Biddu systur sinni til að hjálpa honum við að gera dýrindis mat. Minnisstætt er þegar heimilisfræðikennararnir í Vogaskóla spurðu mig nokkuð oft um hvað pabbi hefði í matinn: „Ha, hvað segirðu, svikinn héra, kann hann það með öllu þessu meðlæti?“ Pabbi smíðaði húsgögn, flottan sófa inn í stofu og rúm sem hann gerði fyrir sjálfan sig. Búskapur okkar pabba var mjög skemmtilegur því við fundum alltaf upp á einhverju að gera. Eitt af því besta var að bjóða fjölskyldu og vinum í kaffi og með'í og allir hittust og spjölluðu. En toppurinn á öllu var ferðin sem við feðgar fórum til Tenerife árið 1977, fermingargjöfin mín frá pabba.

Æskuárin í Nökkvavogi voru mér dýrmæt og ég á ennþá mína æskuvini sem hittast reglulega í dag. Oft var glatt á hjalla í Nökkvavoginum, bæði vinir pabba og mínir – allir velkomnir og stundum var smá Jíbbý kóla, eins og pabbi sagði oft, „strákar, passið ykkur svo að verða ekki alveg gling gló“. Pabbi opnaði dyrnar upp á gátt fyrir mínum vinum og fyrir það er ég ævinlega þakklátur.

Við feðgar höfum nánast alla okkar tíð haft lífsviðurværi af landbúnaði á Íslandi. Pabbi var búfræðingur og ég mjólkurfræðingur. Mjaltavélauppsetningar pabba frá Alfa Laval um land allt, held að pabbi hafi farið milljón hringi í kringum Ísland því annaðhvort var hann að setja upp mjaltakerfi á Vestfjörðum eða mjaltabás fyrir austan. Pabbi var afar vandvirkur í sinni vinnu, við heimsóttum nú fyrir stuttu bæinn Síðumúlaveggi í Borgarfirði þar sem mjaltabás frá pabba var enn í fullri virkni og pabbi ætlaði varla að trúa þessu, að hans uppsetning frá árinu 1984 væri enn til.

Mjólkurævintýrið hélt áfram og ég fékk þá hugmynd að búa til rjómalíkjörinn Jökla. Þróunarárin voru mörg. Stuðningur pabba var ómetanlegur því setningin hans kom svo sannarlega aftur: „Ég get þetta ekki, er setning sem fer í skapið á mér.“ Við fögnuðum svo útgáfu drykkjarins, og pabbi sagði svo: „Þú gast þetta, elsku sonur.“

Árin liðu og fjölskyldan stækkaði, ég giftist Siggu minni og við eigum börnin okkar Sindra Þór og Stefaníu Ósk. Og börnin okkar stækka sína fjölskyldu, tengdasonurinn Brynjar og tengdadóttirin Dominika komu inn í líf okkar og hafa gert það svo sannarlega skemmtilegt og gullmolinn Benjamin Thor langafastrákur náði vel til langafa síns og áttu þeir margar góðar stundir saman.

Í dag kveð ég þig, elsku pabbi minn. Minning um góðan mann mun lifa í mínu hjarta til eilífðar.

Þinn sonur,

Pétur.

Það er með þakklæti í huga sem ég skrifa þessi orð til þín, elsku tengdapabbi.

Þakkir til þín fyrir alla hjálpina í gegnum árin. Endalausa pössun á börnunum og hundi, lán á græjum og ráðleggingar með hitt og þetta. Heimsóknirnar á Grundartjörn og Heimalandi þar sem oft var reitt fram dýrindis smurt brauð við komu og eða sunnudagsmatur og afagott. Seinni ár í Klappahlíðinni var það feðrakaffi á laugardögum.

Þakkir fyrir skemmtilegan húmor og orðalag til að gera stundir skemmtilegri. Þakkir fyrir alla dásamlegu blómvendina, úthugsuðu jóla- og afmælisgjafirnar og skemmtilegu skrifuðu skilaboðin þegar við komum heim úr skíðaferðum. Þar var stundum lýst í smáatriðum ferðum og gjörðum hundsins í pössuninni, sem vakti mikla kátínu. Það eru litlu hlutirnir sem glæða lífið og gefa oft mest.

Blessuð sé minning þín, elsku Pétur. Ég læt fylgja með ljóð úr skúffunni þinni.

Sjálfsmynd af lífsferilsdanslínu Péturs:

Brosandi í dansi við börnin sjáum

blessun Guðs vaki yfir þeim.

Á lífshlaupi allflest í línuna náum

ljúfasta hljóðfalli, fögrum hreim.

Við síðustu dansspor á ferð okkar fáum

fagnaðarvon í hinn umbreytta heim.

Þannig er lífið á lífsaldar setri

uns lendum við farsæl hjá Sankti Pétri.

Þótt nafni minn mistökin mín flest öll letri

ég manngreyið verð alltaf betri og betri.

(Hjörtur Þórarinsson)

Þín tengdadóttir, Sigga.

Sigríður.

Elsku afi Pétur. Ég gæti talið upp svo mörg atriði um það hversu jákvæð áhrif þú hafðir á mína æsku, þú gafst allt þitt og hafðir það að áhugamáli að gera öðrum gott. Þú miðlaðir þinni visku og frábæru nærveru til allra sem stóðu þér nærri. Þú hafðir alltaf gaman af því að vita hvað maður hefði verið að gera, sama hversu ómerkilegt það var.

Æskuárin mín einkenndust mikið af stundunum okkar á Grundartjörn, í Heimalandi, í Slakka, í sveitinni. Það var fátt betra en að fara í helgarpössun til afa og Enyu „í sveitinni“, enda mikil afastelpa. Þú tókst við afahlutverkinu af miklum áhuga og það var alltaf ævintýri að brasa með þér. Þegar ég hugsa til baka til áranna á Selfossi minnist ég svo vöfflukaffisins sem við vorum svo oft með, við lásum saman fjöldann allan af bókum og ég fékk alltaf að lesa teiknimyndasögurnar í dagblaðinu þínu þar til augun urðu þreytt. Þvílíka þolinmæðin sem þú hafðir fyrir stjórnsömu afastelpunni sem vildi alltaf fá að stjórna öllu. Í vikunni sátum við fjölskyldan og horfðum á gömlu myndböndin, þau eru náttúrulega alveg himnesk. Þú varst alltaf klár á myndavélinni og tókst upp daglega lífið okkar saman, ó, hvað mér þykir vænt um þessi myndbönd.

Þú varst minn helsti stuðningsmaður. Þú keyptir til að mynda mína fyrstu ferðatösku þegar ég flutti til Danmerkur og varst svo spenntur að heyra sögur. Þér fannst svo gaman að vera stór partur af mínu lífi, þú þekktir allar mínar vinkonur alveg frá barnsaldri til fullorðinsára og þær þekktu þig. Það vissu allir hver afi Pétur væri. Fram til síðasta dags var spurt um þig: „Hvað segir afi Pétur gott?“

Þú varst alltaf klár með brandara og stutt í sprellið; algjört „Gling-gló“ og nóg af „Jibbýkóla“.

Þér fannst alltaf svo gaman að gefa af þér og lagðir mikið í jóla- og afmælisgjafir handa okkur fjölskyldunni. Hver jól hjálpuðumst við að til að komast að því hvað hver vildi, svo gjafirnar myndu sko örugglega slá í gegn.

Ég kveð þig, elsku afi minn, með stórt þakklæti í hjarta, þakklát fyrir þig og allt sem þú gerðir fyrir mig og mína. Minningin um þig mun lifa hjá mér um alla tíð.

Þín afastelpa,

Stefanía Ósk.

Pétur Guðmundsson móðurbróðir minn er fallinn frá. Ljúfar minningar um einstakan frænda koma upp í hugann og einkenndist samband okkar alla tíð af gagnkvæmri virðingu.

Pétur, sem alltaf gekk undir nafninu „Pétur frændi“ í okkar fjölskyldu, var ákveðinn miðdepill meðal okkar systkinabarna hans og fylgdist hann alla tíð vel með hvernig okkur og fjölskyldum okkar vegnaði í lífinu.

Við fjölskyldan höfum átt margar ánægjustundir með Pétri frænda í gegnum tíðina. Hvort sem það var kaffi og rúnstykki um helgar, ferðir í gamla Hálsakot eða skottúr á vélsleða var léttleikinn ávallt í fyrirrúmi. Einnig kom Pétur reglulega í heimsókn í vinnuna og þá iðulega með eitthvað í farteskinu, gamlar fjölskyldumyndir, fréttir af stórfjölskyldunni eða fréttir úr félagsstarfi FAMOS.

Pétur frændi var mjög áhugasamur um ættfræði og var það hans áhugamál að rekja ætt okkar í föður- og móðurætt. Hann útbjó ættartré og lagði áherslu á að færa inn nýja fjölskyldumeðlimi sem hann deildi síðan með okkur.

Pétur gekk í Frímúrararegluna árið 1987 og gaf frímúrarastarfið Pétri mikla lífsfyllingu.

Samband þeirra feðga var mjög náið og var Pétur mjög stoltur af því sem sá yngri var að sýsla og var hann óþreytandi að fara yfir stöðu mála varðandi Jöklu.

Elsku Pétur, Sigga og fjölskylda. Við fjölskyldan sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að umvefja ykkur.

Blessuð sé minning Péturs frænda.

Kristján S. Sigmundsson.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir,

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson)

Vinátta, samstarf og samvinna okkar félaganna hófst er ég var í Mosfellssveit. Þar tókust kynni sem stóðu til þess dags er vinur minn Pétur kvaddi. Starfsvettvangur Péturs hjá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings og minn sem sumarstarf leiddi okkur saman og þá myndaðist sá kunningsskapur sem hélt. Maðurinn hægur og prúður sem ekkert aumt mátti sjá. Múrarasonurinn úr Reykjavík sem sótti menntun sína í Bændaskólann á Hvanneyri. Pétur kynntist í störfum sínum fjölmörgum bændum víðsvegar um land og sagði mér sögur af atburðum sem hentu í starfinu. Öllum sem hann kynntist bar hann vel söguna, aldrei var mönnum hallmælt. Margar ferðir á Saab um starfssvæði Péturs frá Hvalfjarðarbotni út á Reykjanestá að heimsækja kúabændur eru ógleymanlegar. Þá ekki síður eru í ferðamalnum minningar um dansleiki í sveitinni og höfuðborginni, þó svo að lengra yrði á milli okkar vorum við í góðu sambandi og litum við þegar við áttum leið hjá. Eftir að ég gerðist félagi í FÁÍA/Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra áttum við gott samstarf á vettvangi íþrótta innan félaga eldri borgara. Hann sem formaður íþróttanefndar FaMos, vakinn og sofinn yfir starfi félagsins og ekki síður samstarfi við önnur félög. Við áttum margar stundir við undirbúning móta sem haldin voru í Mosfellssveit, þar sem minn maður vann af áhuga og elju. Undirbúningur og framkvæmd áttu að vera óaðfinnanleg, því hjá okkur fóru saman metnaður og áhugi fyrir þeim verkefnum sem við tókum að okkur.

Þannig var vinur minn Pétur og þannig mun ég minnast hans. Takk fyrir góð og skemmtileg kynni, félagi.

Fjölskyldu Péturs sendum við Kristín Ingibjörg okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Flemming Jessen.