Jóna Fríða Gísladóttir fæddist á Hólslandi í Eyjahreppi 6. apríl 1948. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Kristján Gísli Sigurgeirsson, f. 18.6. 1915, d. 12.8. 1994, og Auðbjörg Bjarnadóttir, f. 27.7. 1915, d. 7.6. 1993. Jóna Fríða átti fjögur systkini, þau eru Sigurgeir, f. 1940, Bjarnheiður, f. 1941, d. 2018, Magnús, f. 1944, og Alda Svanhildur, f. 1953.

Eftirlifandi eiginmaður Jónu Fríðu er Sævar Garðarsson, f. 12.11. 1946. Foreldrar Sævars voru þau Garðar Guðjónsson, f. 1925, d. 2018, og Kristín Jóhannesdóttir, f. 1928, d. 2019. Áður var Jóna Fríða gift Vali Frey Jónssyni, f. 1947. Foreldrar hans voru Jón Hjálmtýsson, f. 1918, d. 2005, og Margrét Sigurðardóttir, f. 1923, d. 2014.

Jóna Fríða og Sævar giftust þann 21.12. 1985 og eignuðust einn son, Garðar f. 1986. Hann er kvæntur Margréti Aðalbjörgu Blængsdóttur, f. 1988. Synir þeirra eru Sævar Hrafn, f. 2013, Sölvi Viktor, f. 2017, og Óðinn Darri, f. 2021. Sonur Jónu Fríðu og Vals Freys er Jón Birgir, f. 1970, kvæntur Maríu Pálsdóttur, f. 1964. Börn þeirra eru 1) Indíana Björk, f. 1995, maki Ólafur Þór Jónsson, f. 1992. Synir þeirra eru Matthías Atli, f. 2021, og Theodór Steinn, f. 2023. 2) Trausti Freyr, f. 1999. Fyrir átti Sævar soninn Sigurð Rúnar, f. 1971. Hann er kvæntur Monu Erlu Ægisdóttur, f. 1972, barn Kristrún Erla, f. 2012. Fyrir átti Sigurður Rúnar börnin Einar Snorra, f. 1992, og Heiðrúnu Ósk, f. 1994. Fyrir átti Mona Erla fjögur börn.

Jóna Fríða fæddist á Hólslandi í Eyjahreppi. Hún fluttist með fjölskyldu sinni að Hausthúsum í sama hreppi og ólst þar upp. Hún sótti grunnskólanám í Söðulsholti í Eyjahreppi og árið 1968 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík. Jóna Fríða starfaði sem bóndi ásamt fyrrverandi eiginmanni. Fyrst í Hausthúsum 1969-1970 og síðar að Akurholti í Eyjahreppi 1971-1984. Samhliða bústörfum gegndi hún starfi matráðskonu í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi frá 1978 til 1984. Eftir að Jóna Fríða flutti til Reykjavíkur 1984 starfaði hún fyrst hjá Víði hf. og svo hjá Tóró til ársins 1986.

Jóna Fríða starfaði sem dagmóðir á árunum 1988 til 1990. Eftir það hóf hún störf á leikskólanum Holtaborg og þaðan fór hún á leikskólann Ásborg til ársins 2004. Þá hóf hún störf á leikskólanum Maríuborg í Grafarholti og starfaði þar uns hún settist í helgan stein árið 2017.

Jóna Fríða stundaði nám sem leikskólaliði og útskrifaðist með fyrstu einkunn árið 2007. Jóna og Sævar hófu sína sambúð á Hjallavegi í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 2004 þegar þau fluttu í Grafarholt. Jóna var alla tíð mikil hestakona, hún átti nokkurn fjölda hrossa á meðan hún bjó í Akurholti og þá hélt hún hestamennskunni áfram eftir að hún flutti til Reykjavíkur ásamt Sævari, þau héldu hesta í Víðidal til ársins 2006. Þau ferðuðust mikið innanlands sem og erlendis hin síðari ár auk þess sem þau áttu sumarbústað í Öndverðarnesi.

Útför Jónu Fríðu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 7. september 2023, kl. 14.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að eftir yndislegt sumar þar sem þú og pabbi nutuð lífsins saman í veðurblíðunni ýmist fyrir austan í bústaðnum eða á ferðalagi um landið í hjólhýsinu, í samneyti við vini, fjölskyldu og ekki síst ömmu- og afadrengina ykkar, skyldi hausta jafn hratt í hjörtum okkar þegar þú varst fyrirvaralaust lögð inn á spítala aðra helgina í ágúst. Þar kom í ljós að meinið sem greindist í þér í fyrra hefði tekið sig upp að nýju og með þeim þunga að læknar tjáðu okkur fljótlega eftir innlögn á spítalann að líklega ættir þú ekki mikið eftir ólifað. Veikindin ágerðust hratt en við synir þínir, fjölskyldur okkar og pabbi, ásamt öðru samferðafólki þínu, áttum ómetanlegar stundir á dánarbeðnum með þér. Eftir sitjum við sem elskuðum þig með hjörtun full af sorg en með yndislegar minningar um ótrúlega konu og fyrirmynd í lífi okkar.

Ég var svo heppinn að vera einkasonur ykkar pabba. Þið hnutuð um hvort annað þegar þið voruð bæði komin undir fertugt. Þegar í ljós kom að þú bærir barn undir belti á Heiða heitin systir þín að hafa sagt í glettnum tón eins og henni var lagið: „Jóna, þú fermir barnið frá Skjóli.“ Þegar ég kem í heiminn ertu orðin lífsreynd og reynslumikil kona, kona sem nýlega hafði sagt skilið við sveitalífið og flutt í bæinn til að öðlast nýtt líf. Ég á fallegar minningar frá æskuárunum þar sem þú lagðir alltaf mikla áherslu á að ég myndi nýta þau tækifæri sem mér stóðu til boða en þér buðust ekki á sama aldri, þá sérstaklega tækifæri til menntunar, það var alltaf þín von að afkomendur þínir þyrftu ekki að „basla í gegnum lífið“ eins og þú orðaðir það svo oft.

Þrátt fyrir nýja lífið í bænum varstu alltaf sveitamanneskja inn við beinið. Hagsýni og ráðdeild hafðirðu alltaf að leiðarljósi og alltaf var vel tekið á móti gestum á þínu heimili. Þá var lítið mál að slá upp margra manna matarboðum með engum fyrirvara. Ávallt þurfti að tala skýra og góða íslensku við þig og líklega er þín kynslóð ein sú síðasta sem ekki hefur orðið fyrir erlendum áhrifum á tungumálið. Lubba-verkefnið var þér því hugleikið á meðan þú starfaðir í leikskólanum og hefur verið dásamlegt að fylgjast með þeim Sævari Hrafni og Sölva Viktori ömmudrengjunum þínum læra að lesa af þér með aðstoð Lubba.

Alla tíð vildir þú allt fyrir alla gera, þú settir þitt fólk í fyrsta sæti en sjálfa þig þar fyrir aftan. Umburðarlyndi var þér í blóð borið en þó áttirðu til að æsa þig yfir sjálfhverfu og eigingjörnu fólki, þá sérstaklega ef það hafði stjórnmálaskoðanir sem voru þér ekki að skapi. Allt fram undir það síðasta varstu að skipuleggja, passa að allir hlutir myndu ganga upp og að ekkert gleymdist. Skipulagsgáfan gat þó stundum orðið okkur pabba að aðhlátursefni.

Við pabbi, ömmustrákarnir þínir sem voru þér svo kærir og Maggý tengdadóttir þín munum sakna þín sárt. Þú kenndir okkur svo margt og munum við passa að halda minningu þinni og lífsgildum á loft í uppeldi ömmudrengjanna þinna. Við elskum þig.

Garðar Sævarsson.

Í dag verður elsku mamma kvödd í hinsta sinn. Hún lést eftir snarpa en hetjulega baráttu við krabbamein sem tók sig upp aftur nánast fyrirvaralaust fyrir skemmstu. Þegar ljóst var í hvað stefndi talaði hún opinskátt og óttalaust um það hvað verða vildi við okkur syni sína og Sævar. Það tók á að horfa upp á það hvernig dró af henni hratt dag frá degi án þess að fá rönd við reist. Sorgin yfir þessu hlutskipti mömmu á dánarbeði var yfirþyrmandi og fór að vonum ekki fram hjá henni. Sagði hún okkur aðstandendum sínum að vera ekki sorgmædd yfir hennar afdrifum, því hún óttaðist dauðann ekki og vissi að vel yrði tekið á móti henni hinumegin. Svona var mamma, æðrulaus og umhyggjusöm að hughreysta sitt fólk allt til enda.

Mamma var alin upp í sveit, nánar tiltekið í Hausthúsum í Eyjahreppi, hvar hún lærði að umgangast sitt nánasta umhverfi og dýrin á bænum af næmni og virðingu. Hestar urðu fljótt að áhugamáli hjá henni og lærði hún að umgangast þá í leik og starfi. Mamma var innan við 10 ára aldur þegar henni var falið að raka saman heyinu úti í eyjum með rakstrarvél sem var bundin fyrir – og dregin af Blesa gamla. Í lok dags var haldið heim á leið yfir Löngufjörur hvar stundum var farið að falla að og þá kom fyrir að þurfti að sundríða yfir dýpstu álana á leið í land. Þessi einstaka þekking og næmni við hesta frá barnsaldri nýttist henni vel alla tíð síðan og var aðdáunarvert að sjá hvað hún hafði gott lag á að tengjast og róa jafnvel styggustu hross með nærveru sinni og yfirvegun.

Þessi næmni og nærgætni mömmu kom fram á svo mörgum sviðum, ber þar helst að nefna nálgun hennar við börn, bæði afkomendur hennar og öll börnin sem voru skjólstæðingar hennar þegar hún starfaði á síðari hluta starfsævi sinnar á leikskóla. Hún fór stundum ótroðnar slóðir í því starfi og nýtti margt af því sem hún hafði lært í æsku eins og t.d. kveðskap hvar hún kenndi börnunum á Ásborg að kveða hinar ýmsu rímur, en mamma hafði lært að kveða af Auðbjörgu mömmu sinni. Ekki voru allir hennar nemendur áfjáðir í að læra að kveða fyrr en mamma fann að kveðskap mætti snúa upp í rapp og þá var áhuginn vakinn og gömlu kvæðin röppuð af innlifun.

Mömmu var umhugað um að við synir hennar – og barnabörnin – nýttum þau tækifæri sem okkur byðist til að mennta okkur. Gladdist hún mjög yfir hverjum þeim áfanga sem við náðum í þeim efnum. Sjálf sagðist hún ekki hafa haft þau tækifæri til náms sem okkur afkomendum hennar stóð til boða, en greip þau feginshendi þegar henni bauðst þau og útskrifaðist t.a.m. frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur 19 ára. Seinna á lífsleiðinni, þá 59 ára, sótti hún nám á vegum Eflingar þar sem hún stóð sig með mikilli prýði og dúxaði með 10 í einkunn. Þar útskrifaðist hún ásamt stórum hópi fólks sem leikskólaliði. Þá var komið að okkur, sem hún hafði hvatt til dáða, að vera stolt af henni og það vorum við fölskvalaust. Mikill er missir okkar sem eftir stöndum en mestur er hann hjá Sævari sem mamma elskaði af öllu hjarta. Takk fyrir allt elsku mamma. Sjáumst síðar hinumegin.

Jón Birgir og María.

Við hjónin höfum þekkt Jónu í um 40 ár eða frá því að þau Sævar rugluðu saman reytum. Frá þeim tíma höfum við verið nágrannar í sumarhúsahverfinu í Öndverðarnesi og haft mikið og gott samband. Þá áttum við öll það sameiginlegt að vera með hesta þarna fyrir austan á sumrin og vorum á Fákssvæðinu á veturna. Mikið var riðið út á báðum stöðum, bæði stuttar og langar ferðir. Ein eftirminnilegasta ferðin var þegar við fórum á Löngufjörur en þar var Jóna á heimavelli enda frá Hausthúsum. Jóna stjórnaði okkur hinum eins og herforingi í dásamlegu veðri og vorum við sammála um að gott væri í himnaríki ef það væri betra en að svífa um fjörurnar á vel töltgengum hestum. Núna í júlí síðastliðnum komu þau Jóna og Sævar til okkar í bústaðinn og þá stakk Jóna upp á því að við löbbuðum upp í golfskála og fengjum okkur að borða og er sú minning okkur afar kær.

Við vottum Sævari og öðrum aðstandendum Jónu okkar innilegustu samúð.

Hugrún og Rafn.

Elsku amma mín.

Hlýleiki, jákvæðni og sköpunargleði var meðal þess sem einkenndi þig. Þú lagðir mikinn metnað í ömmuhlutverkið enda alltaf verið barngóð og vorum við systkinin heppin að fá að njóta góðs af því hversu skapandi og uppátækjasöm þú varst. Þú söngst fyrir okkur, kenndir okkur vísur og svo föndraðir þú alls konar með okkur enda alltaf verið listræn. Við máluðum á steina, þæfðum litla jólasveina og lituðum og teiknuðum hesta og önnur dýr. Mér þykir svo vænt um minningarnar frá því að við systkinin komum í pössun til ykkar Sævars afa. Undantekningarlaust var búið að kaupa Honey Nut-seríós og að sjálfsögðu voru bakaðar pönnukökur í hvert skipti. Ég naut þess svo mikið að fara með þér á hestbak og spjalla um allt milli himins og jarðar á meðan við tókum hring í kringum Rauðavatn. Í minningunni voru reiðtúrarnir svo ævintýralegir og hlakkaði ég alltaf til þessara gæðastunda.

Elsku amma mín, takk fyrir allar góðu stundirnar. Ég mun sakna þín og muntu ávallt eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Ástarkveðja,

Indíana Björk.

Elsku Jóna er búin að kveðja og það allt of fljótt. Eftir sitjum við og syrgjum yndislega góða og fallega konu. Ég kynntist Jónu er hún fór að vinna í leikskólanum Maríuborg. Ég man svo vel er hún birtist á skrifstofunni okkar Sigrúnar til að sækja um vinnu. Ein af ástæðunum, og hún upplýsti mig um það í viðtalinu, var að henni leist svo vel á kennitölurnar okkar Sigrúnar.

Þessi upphafskynni okkar Jónu lýsa henni mjög vel. Húmorinn og glettnin í svip hennar sem einkenndu hana alla tíð. Hún lét ekki mikið fyrir sér fara en hafði ákveðnar skoðanir. Það var svo gaman að vera með henni þegar hún hló svo andlitið varð uppljómað og sló oftar en ekki á lær sér og gerði góðlátlegt grín að sjálfri sér og öðrum í kringum sig. Jóna talaði oft um „heilaþokuna“ sem væri að „stríða sér“ og allir höfðu gaman af að fylgjast með er hún sagði frá í kaffistofunni og í prjónaklúbbnum sem við Jóna vorum í saman.

Jóna var alltaf svo smekkleg og fín, puntaði sig oftar en ekki með handverki sínu, gladdi aðra með gjöfum sem hún hafði gert og stundum nutum við verka hennar sem fjáröflun fyrir náms- og hópeflisferðir skólans. Í síðasta prjónaklúbb sýndi hún okkur fugl sem hún var búin að skera út og var hreint meistaraverk eins og allt handbragð sem eftir hana liggur.

Það er ekki hægt að minnast Jónu án þess að hugsa til Beggu heitinnar en þær unnu mikið saman í Maríuborg. Það var yndislegt að horfa á þær skemmta sér þegar við gerðum okkur glaðan dag hvort sem það var jólagleði eða námsferðir. Þá léku þær vinkonurnar á als oddi, sungu, hlógu og gerðu grín að sjálfum sér og dásömuðu allt og alla í kringum sig. Ég veit að Begga mín mun taka á móti Jónu sinni opnum örmum í Sumarlandinu.

Jóna starfaði mest á tveim deildum leikskólans og hugsaði ég oft að ef hægt væri að klóna Jónu mína þá myndi ég gjarnan gera það svo öll börnin í leikskólanum gætu notið nærveru hennar, visku og góðmennsku. Hún var einstök með börnunum, þau dýrkuðu öll Jónu sína og var oft mjög gott að fara í hlýjan faðm hennar á morgnana þar sem hún umvafði börnin og raulaði jafnvel kvæði eða þulu þangað til þau voru tilbúin fyrir daginn.

Talandi um þulur og kvæði. Þar var Jóna alveg í sérflokki að vinna með börnunum og lærðu aðrir starfsmenn mjög mikið af henni. Bókin „Lubbi finnur málbein“ var bók sem hún vann mikið með til að kenna börnunum tákn og hljóðmyndun. Það var hrein unun að sjá hana kenna börnunum þulur og söngva sem eru í bókinni. Börnin lærðu ótrúlega fljótt og vel sitt tákn og voru svo stundum með uppákomu í salnum þar sem þau fóru með sína þulu og rytminn og framburðurinn var alveg dásamlegur. Þá var nú Jóna mín stolt af börnunum sínum og þau ekki síður af sér sjálfum.

Missir Sævars er mikill og allra í fjölskyldunni, ekki síst barnabarnanna sem fengu ekki að njóta ömmu sinnar lengur. Ég sendi þeim öllum mínar bestu samúðarkveðjur. Ég vil að lokum þakka fyrir þær stundir sem ég og allir í Maríuborg fengum með þér. Þín verður sárt saknað af öllum er fengu að kynnast þér og öllu því góða sem þú kenndir okkur. Blessuð sé minning þín, elsku yndislega Jóna.

Meira á www.mbl.is/andlat

Guðný Hjálmarsdóttir.