Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Þegar ég tók við sem matvælaráðherra var eitt af stærstu verkefnunum sem mér var falið í stjórnarsáttmála að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og leggja fram tillögur til að hámarka árangur og samfélagslega sátt

Þegar ég tók við sem matvælaráðherra var eitt af stærstu verkefnunum sem mér var falið í stjórnarsáttmála að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og leggja fram tillögur til að hámarka árangur og samfélagslega sátt. Í því skyni var kallaður til umræðu breiður hópur sérfræðinga, hagsmunaaðila og fulltrúa stjórnmálaflokkanna. Almenningur fékk tækifæri til að senda inn athugasemdir á öllum stigum og samtals komu mörg hundruð manns að vinnunni. Verkefnið fékk nafnið Auðlindin okkar og niðurstöður voru kynntar 29. ágúst sl.

Íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu og greinin leggur mikið til samfélagsins. Þrátt fyrir það telur minnihluti þjóðarinnar sjávarútveginn heiðarlegan, eins og fram kom í nýrri skoðanakönnun.

Markmiðið með því að vinna verkefnið með stórum hópi fólks og kalla eftir athugasemdum almennings var að sýna að okkur væri full alvara með því að freista því að ná sátt. Sátt er ekki niðurstaða eða áfangastaður, hún er nálgun og það er mitt mat að sá stóri hópur sem kom að vinnunni við Auðlindina okkar hafi nálgast verkefnið af miklum heilindum. Mig langar að þakka sérstaklega fyrir það.

Nokkur atriði skipta höfuðmáli í þessu samhengi. Ég legg mikla áherslu á að umhverfisáherslur séu í forgrunni í sjávarútvegi. Meðal niðurstaðna Auðlindarinnar okkar eru tillögur sem snúa að vernd viðkvæmra vistkerfa og orkuskiptum í sjávarútvegi. Þær skipta höfuðmáli til að tryggja að íslenskur sjávarútvegur geti verið í forystu í heiminum í umhverfismálum.

Það ætti að vera sameiginlegur skilningur að sjávarútvegurinn sé betri eftir því sem hann er gagnsærri og meðal tillagna Auðlindarinnar okkar eru atriði sem snúa að því að auka aðhald og gagnsæi. Það eru til dæmis kröfur um skráningu viðskipta um aflaheimildir í opinbera gagnagrunna og aukin upplýsingagjöf um eigna- og stjórnunartengsl útgerða.

Auk þess nefni ég hér tillögur sem snúa að tilraun til útleigu veiðiheimilda með uppboðum, sem skoðast í samhengi við uppstokkun á atvinnu- og byggðakerfum. Lagt er til að almennur byggðakvóti, línuívilnun og skel- og rækjubætur verði aflagðar en byggðakvóta Byggðastofnunar og strandveiðum verði haldið við með bættri framkvæmd.

Ég mun líka leggja til við þingið að veiðigjöld verði hækkuð í samræmi við fjármálaáætlun.

Næstu skref í þessu stóra verkefni eru að birta frumvarp til nýrra heildarlaga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar í samráðsgátt stjórnvalda en nú þegar hafa áformaskjöl um lagasetninguna verið birt.

Í niðurstöðum Auðlindarinnar okkar felast tækifæri til að yfirvinna áskoranir og skapa skilyrði fyrir trausti svo sátt geti aukist. Í því felast miklir hagsmunir fyrir almenning í landinu, stjórnvöld og greinina sjálfa.

Höfundur er matvælaráðherra.

Höf.: Svandís Svavarsdóttir