Aron Pálmarsson verður í eldlínunni með FH í kvöld þegar nýtt tímabil hefst í úrvalsdeildinni í handbolta. Aron, sem er einungis 33 ára gamall, á nóg eftir á tanknum en hann hefur verið á meðal fremstu handboltamanna heims undanfarinn áratug

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Aron Pálmarsson verður í eldlínunni með FH í kvöld þegar nýtt tímabil hefst í úrvalsdeildinni í handbolta.

Aron, sem er einungis 33 ára gamall, á nóg eftir á tanknum en hann hefur verið á meðal fremstu handboltamanna heims undanfarinn áratug.

Ferilskrá hans talar sínu máli en hann hefur unnið titla með öllum þeim félögum sem hann hefur spilað með í atvinnumennskunni; Kiel í Þýskalandi, Veszprém í Ungverjalandi, Barcelona á Spáni og Aalborg í Danmörku.

Góðvinur minn hann Guðjón Guðmundsson, betur þekktur sem Gaupi, talaði um að það væru stærstu tíðindi handboltasögunnar hér á landi að fá Aron aftur heim og ég get alveg tekið undir það með honum.

Aron var búinn að vera í FH í nokkrar vikur þegar liðinu var spáð efsta sæti úrvalsdeildarinnar á komandi keppnistímabili. Það segir manni ýmislegt.

Góður maður sagði mér að Íslendingar almennt gerðu sér engan veginn grein fyrir því hversu stórt nafn Aron Pálmarsson er í handboltaheiminum.

Líkt og hann kemur sjálfur inn á í Dagmálum Morgunblaðsins í dag hungrar hann ennþá í árangur þrátt fyrir að plássið sé orðið lítið heima hjá honum fyrir alla bikarana og verðlaunapeningana.

Það eru 13 ár síðan Ísland vann síðast til verðlauna á stórmóti, þó að það hafi bara gerst í tvígang. Ég held að koma Arons sé líka jákvæð fyrir landsliðið.

Íslenska liðið þarf Aron í 100% standi til þess að vinna aftur til verðlauna og ég er sannfærður um að það takist á komandi árum.